Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra
Reykjavík 25. nóvember 2024
Vegna umsókna um leyfi til hvalveiða
Ávarp utanríkisráðherra, Þórdísar Kolbrúnar Reykjörð Gylfadóttur, á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hinn 28. október sl. var skýrt og skorinort. Utanríkisráðherra nefndi öll helstu hagsmunamál Íslands á alþjóðavettvangi, baráttuna gegn loftslagsbreytingum, verndun hafsins, virðingu fyrir mannréttindum og þjóðarrétti, þar með talinn ákvörðunarrétt Palestínu. Síðast en ekki síst undirstrikaði Þórdís Kolbrún mikilvægi Sameinuðu þjóðanna fyrir frið og alþjóðlegt samstarf og um leið alþjóðahyggju. Hagsmunir smáríkja eins og Íslands eru best tryggðir í alþjóðlegu samstarfi.
Í ávarpi sínu sagði Þórdís Kolbrún að alþjóðasamfélagið verði að bregðast við fjölþættum afleiðingum loftslagsbreytinga og þeim áskorunum sem þær skapa. Nefndi hún að heilbrigði sjávar, og jarðarinnar, skipti sköpum fyrir efnahagslega velmegun og velsæld. Í því samhengi minnti hún einnig á þýðingu hafréttar fyrir ríki eins og Ísland.
Stefna í málefnum hafsins
Hvorki ríkisstjórn Íslands né Alþingi hafa mótað stefnu í málefnum hafsins. Vorið 2021 samþykkti Alþingi öðru sinni stefnu í málefnum Norðurslóða en sú stefna hefur enn ekki komist í framkvæmd. Hvenær gerist það?
- Hlýnun á Norðurslóðum er fjórfalt hraðari en sunnar á hnettinum. Hver er stefna Íslands?
- Súrnun sjávar er hvergi hraðari en í Norður-Atlantshafi. Hver er stefna Íslands?
- Er er dráp á 100–200 hvölum við strendur Íslands svarið?
- Ber ekki að bíða niðurstöðu starfshóps um lagaumgjörð hvalveiða áður en veitt er leyfi til veiða?
Rannsókarskylda ráðherra
Í tilefni af nýjum umsóknum um leyfi til hvalveiða vekjum við athygli þína á skyldu ráðherra til rannsóknar við slíka ákvörðun.
Í 10. gr. stjórnsýslulaga („Rannsóknarreglan“) er kveðið á um að stjórnvald sjái til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Í tilfelli hvalveiða hefur verið verulegur brestur þar á, a.m.k. á þessari öld.
Gríðarlegir almannahagsmunir eru í húfi; hagsmunir sem ekki verða varðir nema með öflugri þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi innan Sameinuðu þjóðanna, og starfi innan alþjóðlegra samninga utan SÞ um vernd hafsins. Rannsóknarskylda ráðherra kallar á úttekt á lagaumgjörð hvalveiða, „… þ.m.t. alþjóðlegar skuldbindingar ríkisins, valdheimildir og skyldur stjórnvalda á þeim grundvelli,“ líkt og segir í tilkynningu matvælaráðuneytisins um skipun ofangreinds starfshóps.
Sagan sýnir að ráðherrar sjávarútvegsmála hafa fæstir ekki eða varla sinnt þessari rannsóknarskyldu við afgreiðslu umsókna um hvalveiðar, þótt lögin hafi verið sett árið 1993, þegar samþykkt var stjórnarfrumvarpi á vegum forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar. Samanber þessar ákvarðanir:
Árið 2009, í lok janúar, veitti Einar K. Guðfinnsson þv. sjávarútvegsráherra Hvali hf. leyfi til veiða árin 2009−2013. Einar skilaði lyklunum sama dag til arftaka síns, Steingríms J. Sigfússonar. Engin umsókn um þetta leyfi finnst í matvælaráðuneytinu.
Árið 2013 gaf Sigurður Ingi Jóhannsson þv. sjávarútvegsráðherra Hvali hf. leyfi til veiða árin 2014−2019. Engin umókn um þetta leyfi finnst í ráðuneytinu.
Árið 2019 sótti Hvalur hf. um leyfi til veiða á langreyðum árin 2019–2023 eða í fimm ár. Umsóknin barst ráðuneytinu ímars og Kristán Þór Júlísson, þv. atvinnu- og nýsköpunaráðherra, veitti leyfið 5. júlí sama ár, án rannsóknar að því séð verður.
Árið 2024 sótti Hvalur hf. um leyfi til 5 til 10 ára og var umsóknin dagsett 30. janúar. Matvælaráðherra þv., Svandís Svavarsdóttir[1], tók sér rúman tíma til að svara erindinu og rannsaka málavöxtu.
23. október 2024 sótti Hvalur hf. enn um leyfi til veiða. Greinilegt var að Kristján Loftsson vildi fá afgreiðslu sinna mála fyrir kosningar.
[1] Katrín Jakobsdóttir gegndi störfum Svandísar á meðan hún var í veikindaleyfi og í apríl tók Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir við ráðuneytinu og kynnti hún ákvörðun sína í 11. úní.
Hvalveiðar veikja stöðu Íslands
Í Hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna segir í 65. gr.: „Ríki skulu starfa saman með verndun sjávarspendýra í huga og skulu, hvað hvali snertir, einkum starfa á vettvangi viðeigandi alþjóðastofnana að verndun og stjórnun þeirra og rannsóknum á þeim.“
Við minnum á að rök Íslands fyrir nýjum hafrétti byggðust fyrst og fremst á nauðsyn þess að vernda lífríki sjávar.Alþjóðlegt bann við hvalveiðum er viðbrögð alþjóðasamfélagsins við aldagamalli rányrkju á þessum merku spendýrum. Hafréttarsamningurinn kveður skýrt á um að hvalir séu ekki einkamál ríkja heldur skulu aðildarríki samningsins starfa saman „að verndun og stjórnun þeirra og rannsóknum á þeim“.
Rannsóknarskylda ráðherra felur meðal annars í sér að ráðherra skýri hvernig hvalveiðar standast ákvæði Hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna.
Úr Hvalveiðiráði og aftur inn
Á níunda og tíunda áratug síðustu aldar varð Alþjóðahvalveiðiráðið helsti skotspónn ráðherra og þingmanna í umræðunum um hvalveiðar. Árið 1991 var ákveðið að Ísland skyldi ganga úr ráðinu og þess í stað yrðu stofnuð ný ríkjasamtök, Sjávarspendýraráð Norður-Atlantshafsríkja (NAMMCO). Hérlendir talsmenn hvalveiða gerðu því skóna að Alþjóðahvalveiðiráðið væri komið að fótum fram, og treystu á Noregur og Japan myndu ganga úr ráðinu. Svo varð ekki.
Rannsóknarskylda ráðherra hlýtur að fela í sér mat á árangri hvalveiðistefnu Íslands undanfarna áratugi. Bent skal á að frá því að veiðar á langreyðum hófust á ný árið 2009 hafa hvalveiðiskip Hvals hf. haldið til veiða aðeins 8 vertíðir af 15 mögulegum.
Rannsóknarskylda ráðherra hlýtur að fela í sér úttekt á hvað hafi aftrað veiðum veiðitímabilin 2011−2012, 2016−2017, 2019−2022 og 2024.
Jafnframt er vert að athuga að þrátt fyrir hundruð milljóna króna ríkisframlög í rúma fjóra áratugi til að kynna hvalveiðistefnu Íslands hefur lítill sem enginn árangur náðst.
Umdeildur fyrirvari
Tæpum tuttugu árum eftir stofnun NAMMCO, árið 1992, var því ákveðið að Ísland myndi sækja um aðild að Hvalveiðiráðnu á ný, en þó með fyrirvara þess efnis að Ísland viðurkenndi ekki ákvörðun ráðsins frá árinu 1982 um ótímabundið bann við hvalveiðum. Fjöldi aðildarríkja ráðsins neituðu að samþykkja fyrirvarann og mörg þeirra hafa ekki gert það.
Getur hagur Íslands falist í að fara í kringum alþjóðleg samskipti með því að gera fyrirvara við alþjóðlegar samþykktir um verndun hvala? Ætla má að það stangist á við boðskap utanríkisráðherra á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 28. september sl. Rannsóknarskylda ráðherra á að taka til slíkrar athugunar.
Um hrefnuveiðar
Innanlandsmarkaður fyrir hrefnukjöt stendur ekki undir arðbærum veiðum. Hrefnuveiðimenn hafa því kosið að flytja inn hrefnukjöt frá Noregi. Ekki er mögulegt að flytja hrefnukjöt út til Japans.
Rannsóknarskylda ráðherra felur í sér að gerð verði nauðsynleg úttekt á því hvort leyfi til hrefnuveiða þjóni skynsamlegum tilgangi.
Æ meiri kröfur í umhverfismálum
Undanfarna áratugi hafa hnattrænar ógnir við umhverfi Jarðar aukið kröfur um alþjóðlegt samstarf sem lúti sameiginlegum reglum, meginreglum. Til dæmis varúðarreglu, aðgengi almennings að upplýsingum, mengunarbótareglu, og þeirri skipan að efnaðri ríki heims aðstoði hin fátækari við að nýta hreina orku. Um þetta fjallaði utanríkisráðherra í ávarpi sínu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hinn 28. september sl.
Æ meiri kröfur eru gerðar til nýtingar auðlinda sjávar til matvælaframleiðslu. Rannsóknarskylda ráðherra kallar á svör um hvort hvalveiðar styrki stöðu Íslands á alþjóðlegu samstarfi um verndun lífríkis sjávar.
Nefna má að alþjóðleg verslun með hvalkjöt brýtur gegn ákvæðum CITES-samningsins. Ísland er vissulega ekki bundið af þeim ákvæðum þar eð gerður var fyrirvari við þau þegar Ísland loks gerðist aðili að samningnum árið 2000. Einnig gerði Ísland fyrirvara við ákvæði Bernarsamningsins um verndun allra hvala í Norður-Atlantshafi, einnig þeirra tegunda sem eru beinlínis í útrýmingarhættu og óvíst er um hvort þeim fjölgi á ný á næstu hundruðum ára. Það felst í rannsóknarskykdu ráðherra að athuga hvernig þessi framganga styrkir stöðu Íslands og markaðsmöguleika á alþjóðavettvangi?
Útflutningsmarkaður fyrir hvalkjöt
Á blaðamannafundi í Tókýó 16. október sl. upplýsti talsmaður fyrirtækisins Kyodo Senpaku, sem hefur flutt inn langreyðarkjöt frá Íslandi, að ekki stæði til að kaupa kjöt frá Íslandi í fyrirsjáanlegri framtíð.
Í japanska dagblaðinu Asahi Shimbun 23. júlí sl. kom fram að um 2.000 tonn af langreyðarkjöti frá Íslandi væru enn óseld. Um er að ræða 2.500 tonna farm sem sendur var frá Hafnarfirðí til Japans í desember 2022. Hvalkjötinu var landað í Osaka sex vikum síðar – í febrúar 2023. Með öðrum öðrum orðum: 17 mánuðum eftir að kjötið komst á markað í Japan voru 80 prósent afurðanna enn óseld.
Í frétt The Guardian frá 2. maí sl. segir:
Between 1,000 and 2,000 tons of whale meat are consumed in Japan a year – less than 1% of the 230,000 tons eaten at the industry’s peak in 1962, according to the fisheries agency.
Vandséð er hvaða tilgangi það þjónar að veita leyfi til veiða á allt að 161 langreyðum árlega. Ætla má að 150 dauðar langreyðar gæfu af sér um það bil 1.800 tonn af kjöti, sem færi langleiðina með að skapa verulegt offramboð á markaði fyrir hvalkjöt í Japan. Við bætist að japönsk stjórnvöld hafa veitt leyfi til veiða á 59 langreyðum á ári innan 200 mílna efnahagslögsögu landsins, sem gefa af sér önnur 700 tonn af kjöti. Hvalkjöt frá Íslandi myndi því þrengja að vörum frá Kyodo Senpaku, sem einnig gerir út skip til veiða á langreyðum.
Kristján Loftsson, einn eiganda Hvals hf., hefur margsinnis skýrt þá örðugleika sem fylgja útflutningi á hvalkjöti til Japans. Komið hefur fram að japönsk fyrirtæki sem selja hvalkjöt frá Íslandi vilja ekki bera lagerkostnaðinn af óseldu kjöti. Þar af leiðandi greiða þau helst ekki fyrir vöruna fyrr en hún hefur selst til smásölufyrirtækja. Þangað til ber Hvalur hf. kostnaðinn af að halda lager.
Undirrituð samtök telja afar brýnt að starfandi matvælaráðherra sinni rannsóknarskyldu ráðherra um þessi efni og upplýsi á hvern hátt veiðar á langreyðum til útflutnings til Japans styrki efnahag landsins.
Figure 1 Mynd: Lagerstaðan í Japan í ágúst 2024, Junko Sakima
Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands telja afar brýnt að bíða niðurstöðu starfshóps um lagaumgjörð hvalveiðaáður en ákvörðun er tekin um hvort leyft verði að veiða hvali.
Verndun lífríkis sjávar er brýnasta hagsmunamál landsins og veiðar á hrefnum og langreyðum á grunni hæpins fyrirvara við alþjóðlegu hvalveiðibanni mun ekki styrkja baráttu Íslendinga fyrir verndun hafsins – lífshagsmunum þjóðarinnar.
Undirrituð samtök krefjast þess að afgreiðslu umsókna á leyfum til hvalveiða verði frestað þar til ný ríkisstjórn með stuðning meirihluta Alþingis hefur verið mynduð og ráðherra málaflokksins gefst tími til að sinna rannsóknarskyldu sinni með viðunandi hætti.
Landvernd | Náttúruverndarsamtök Íslands |
Þorbjörg María Þorbjarnardóttir, form. | Árni Finnsson, form. |