Lög Náttúruverndasamtaka Íslands
Lögð fyrir og samþykkt á aðalfundi 2015.
1. grein – Aðsetur og varnarþing
Náttúruverndarsamtök Íslands starfa um land allt. Aðsetur þeirra og varnarþing í Reykjavík. Samtökin starfa óháð opinberum aðilum og hagsmunaaðilum hvers konar.
2. grein − Markmið
Markmið samtakanna er að umhverfis- og náttúruverndarsjónarmið móti íslenskt samfélag. Samtökin starfa að þessu markmiði með því að:
- Efla vitund almennings um umhverfismál og náttúruvernd.
- Fræða almenning um gildi náttúrunnar í staðbundnu og hnattrænu samhengi.
- Upplýsa félagsmenn og aðra landsmenn um þróun í umhverfisvernd á alþjóðavísu.
- Veita stjórnvöldum og atvinnufyrirtækjum gagnrýnið aðhald.
- Vinna að bættri lagasetningu í þágu umhverfis- og náttúruverndar.
- Þrýsta á um að stjórnvöld virði alþjóðlegar skuldbindingar í umhverfismálum.
- Taka þátt í alþjóðlegu samstarfi á vettvangi umhverfisverndar
- Eiga samstarf við systursamtök hérlendis sem erlendis.
3. grein − Félagsmenn
Félagsmenn geta orðið allir lögráða einstaklingar sem aðhyllast markmið samtakanna og vilja starfa í samræmi við lög þeirra. Stjórn annast inntöku félagsmanna en getur skotið inntökubeiðni til aðalfundar ef sérstaklega stendur á.
Félagsmenn greiða félagsgjöld og er atkvæðisréttur á aðalfundi og félagsfundum bundinn við að félagsmaður hafi greitt félagsgjald næstliðins árs. Nýir félagsmenn hafa þó full réttindi á inntökuárinu. Stofnfélagar teljast þeir sem undirrituðu stefnuyfirlýsingu samtakanna fyrir 30. september 1997.
4. grein – Stjórn
Stjórn samtakanna skal kjörin ár hvert á aðalfundi og er hún skipuð fimm mönnum. Þá eru kjörnir tveir varamenn og hafa þeir rétt til setu á stjórnarfundum. Formaður og gjaldkeri skulu kjörnir sérstaklega á aðalfundi en stjórn skiptir að öðru leyti með sér verkum. Stjórn setur sér starfsreglur sem skulu birtar á vefsetri samtakanna.
Stjórn annast málefni samtakanna milli aðalfunda og gerir grein fyrir starfi sínu á félagsfundum og í tölvupósti til félagsmanna. Stjórnarfundir skulu að jafnaði haldnir ekki sjaldnar en á tveggja mánaða fresti. Á stjórnarfundum skulu ritaðar fundargerðir þar sem fram koma helstu umfjöllunarefni og ákvarðanir. Skulu þær birtar reglulega á vefsetri samtakanna. Stjórn skal setja sér starfsreglur og skulu þær birtar á vefsetri samtakanna.
5. grein – Aðalfundur
a) Aðalfund Náttúruverndarsamtaka Íslands skal halda fyrir 1. maí ár hvert. Til aðalfundar skal boða með tveggja vikna fyrirvara. Það skal gert með tölvupósti til allra félagsmanna sem hafa tilkynnt netfang sitt, með tilkynningu á vefsetri samtakanna og með auglýsingu í víðlesnu dagblaði. Aðalfundur er lögmætur sé löglega til hans boðað.
b) Reikningsár samtakanna er almanaksárið. Reikningar eru bornir undir aðalfund og skulu hafa undirritun bæði faglegra og félagslegra endurskoðenda. Reikningar skulu liggja frammi á skrifstofu samtakanna og á vefsetri þeirra í a.m.k. viku fyrir boðaðan aðalfund.
c) Framboð til stjórnar skulu koma fram eigi síðar en viku fyrir aðalfund og skulu þau birt á vefsetri samtakanna. Hafi ekki borist nægilega mörg framboð er heimilt að tilkynna um framboð á aðalfundi.
d) Lagabreytingatillögur skulu berast stjórn skriflega eigi síðar en viku fyrir aðalfund og skulu þær síðan liggja frammi á skrifstofu samtakanna og á vefsetri þeirra. Til að lagabreytingartillaga nái fram að ganga þarf hún að hljóta a.m.k. 2/3 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi.
e) Dagskrá aðalfundar skal vera:
- Setning aðalfundar.
- Kjör fundarstjóra og annarra embættismanna fundarins.
- Skýrsla stjórnar og umræður um hana.
- Endurskoðaðir reikningar kynntir og afgreiddir.
- Ákvörðun árgjalds.
- Lagabreytingar.
- Kjör formanns.
- Kjör gjaldkera.
- Kjör þriggja annarra stjórnarmanna.
- Kjör tveggja varamanna í stjórn.
- Kjör tveggja félagslegra skoðunarmanna.
- Önnur mál.
5. grein − Félagsfundir
Stjórn samtakanna boðar til félagsfundar þegar þurfa þykir og er það gert með tölvupósti til félagsmanna og tilkynningu á vefsetri samtakanna með minnst þriggja daga fyrirvara. Félagsfundir eru ályktunarbærir.
Almennir félagsmenn, þrjátíu eða fleiri, geta krafist félagsfundar með skriflegri áskorun til stjórnar þar sem fram kemur hvert tilefnið er og hvaða mál á að leggja fyrir fundinn. Skal þá halda fundinn innan tveggja vikna frá því að stjórn berst áskorunin.
Félagsfundur er lögmætur sé löglega til hans boðað.
6. grein – Skrifstofa og rekstur
Samtökin reka skrifstofu og eigið vefsetur til miðlunar upplýsinga og þekkingar til félagsmanna, stjórnvalda og almennings. Þau halda opna fundi og ráðstefnur sem tengjast markmiðum þeirra og baráttumálum, ýmist á eigin vegum eða í samstarfi við aðra.
Samtökin afla fjár til starfseminnar með félagsgjöldum, styrkjum og fjárframlögum einstaklinga og fyrirtækja. Við öflun fjár skal þess gætt að samtökin starfa óháð opinberum aðilum og hvers konar hagsmunaaðilum, sbr. 1. gr.
7. grein – Starfsmenn
Stjórn annast ráðningu í störf á vegum samtakanna. Gjaldkeri gerir samning við hvern starfsmann og skulu þeir bornir undir stjórn til samþykkis. Heimilt er að greiða formanni og gjaldkera þóknun fyrir stjórnarstörf sín. Starfskjör öll eru opinber.
8. grein – Gjafir
Fái samtökin stóra fjárgjöf, svo sem arf, skal stjórn gera tillögu um ráðstöfun fjárins til aðalfundar eða félagsfundar sem boðað er til sérstaklega af því tilefni. Slíkt fé skal að jafnaði renna í sérstakan sjóð. Stjórn gerir tillögu um ráðstöfun fjárins til aðalfundar eða hins sérstaka félagsfundar. Verði settur á stofn sjóður skal aðalfundur eða hinn sérstaki félagsfundur kjósa sjóðstjórn ef þurfa þykir. Sé ekki kjörin sérstök sjóðstjórn fer stjórn samtakanna með sjóðinn og ráðstöfun hans í samræmi við ákvörðun fundarins.
9. grein – Slit samtakanna
Samtökin verða ekki lögð niður nema með a.m.k. 2/3 hlutum atkvæða á aðalfundi, og einföldum meirihluta á framhaldsaðalfundi sem haldinn yrði ekki fyrr en tveimur vikum og ekki síðar en fjórum vikum eftir aðalfundinn. Verði samtökin lögð niður skulu eignir þeirra renna til umhverfismenntunar barna í samræmi við tilmæli þess aðalfundar sem ákveður að leggja niður samtökin.
Fyrstu lög samtakanna voru samþykkt á stofnfundi þeirra 29 maí 1997. Lögunum var breytt á aðalfundi samtakanna xxxx 2015.
Samþykkt á framhaldsstofnfundi þ. 29. maí 1997.
Samþykkt breytingartillaga á aðalfundi 2003.
1.§ grein
Samtökin heita Náttúruverndarsamtök Íslands og varnarþing þeirra er í Reykjavík. Starfssvæði félagsins er landið allt. Samtökin starfa óháð opinberum aðilum og hagsmunaaðilum hvers konar.
2.§ grein
Stofnfélagar eru þeir sem undirrita stefnuyfirlýsingu Náttúruverndarsamtaka Íslands fyrir 30. september 1997. Félagar geta orðið allir lögráða einstaklingar sem aðhyllast markmið samtakanna og vilja starfa í samræmi við lög þess.
3.§ grein
Markmið samtakanna er að vera málsvari umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiða. Þessum markmiðum hyggist félagið ná með því að:
- Veita stjórnvöldum og framkvæmdaraðilum gagnrýnið aðhald.
- Tryggja upplýsingastreymi til almennings.
- Vinna að bættri lagasetningu í þágu umhverfis- og náttúruverndar.
- Efla samstarf við systursamtök hérlendis sem erlendis.
- Færa alþjóðlega umræðu nær almenningi.
- Efla vitund almennings um umhverfismál og náttúruvernd.
- Fræða almenning um gildi náttúrunnar.
- Stuðla að því að stjórnvöld virði alþjóðlegar skulbindingar í umhverfismálum.
- Afla fjár til starfsemi sinnar.
4.§ grein
a) Aðalfund Náttúruverndarsamtaka Íslands skal halda fyrir 1. maí ár hvert. Til aðalfundar skal boða með tölvupósti og í víðlesnu dagblaði með viku fyrirvara. Allir skuldlausir félagar samtakanna hafa kosningarétt og kjörgengi á aðalfundi.
b) Dagskrá aðalfundar skal vera:
- Setning aðalfundar.
- Kjör fundarstjóra og annarra embættismanna fundarins.
- Skýrsla stjórnar og umræður um hana.
- Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til afgreiðslu.
- Ákveðið árgjald.
- Lagabreytingar.
- Kjör tveggja endurskoðenda.
- Kjör stjórnar.
- Önnur mál.
c) Lagabreytingatillögur skulu berast stjórn skriflega eigi síðar en viku fyrir aðalfund og skuli þær liggja frammi á fundinum. Til að lagabreytingar nái fram að ganga þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða.
d) Reikningsár samtakanna er almannaksárið.
5.§ grein
Stjórn samtakanna skal kjörin ár hvert á aðalfundi og hún skal skipuð 5 mönnum. Stjórn skipti með sér verkum. Auk þess skulu kjörnir tveir stjórnarmenn til vara og eiga þeir rétt á setu á stjórnarfundum.
6.§ grein
Æðsta vald er í höndum lögmæts aðalfundar. Stjórn annast málefni samtakanna milli aðalfunda og gerir grein fyrir málum á félagsfundum.
7.§ grein
Stjórn samtakanna boðar til félagsfunda þegar þurfa þykir, eða ef 1/3 hluti félagsmanna óskar þess. Dagskrár skal geta í fundarboði.
Samþykkt á framhaldsstofnfundi þ. 29. maí 1997.
Samþykkt breytingartillaga á aðalfundi 2003.
8.§ grein
Verði Náttúruverndarsamtök Íslands lögð niður renni eignir samtakanna til umhverfismenntar barna í samræmi við tilmæli þess aðalfundar sem ákveður að leggja niður samtökin. Hafa skal samráð við menntamálaráðuneytið um hvernig skuli styrkja umhverfismennt.