Náttúruverndarsamtök Íslands

Málsvari þeirra sem láta sig náttúruvernd og umhverfismál miklu skipta.

Frjáls félagasamtök áhugafólks um náttúruvernd með yfir 1400 skráða félaga. Náttúruverndarsamtökin eru opin öllum sem aðhyllast markmið samtakanna og vilja starfa í samræmi við lög þess. Árgjaldið er 3500 kr. Eitt mikilvægasta stefnumið Náttúruverndarsamtaka Íslands er að vernda miðhálendi Íslands.

Til að styðja eða ganga í samtökin sendið okkur netpóst og tilgreinið, nafn, netfang, símanúmer og kennitölu.

Samtökin voru formlega stofnuð þann 29. maí 1997 og er ætlað að vera málsvari þeirra sem láta sig náttúruvernd og umhverfismál miklu skipta.

Meginreglur

Náttúruverndarsamtök Íslands munu hafa að leiðarljósi eftirfarandi meginreglur sem fram koma í Ríó-yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá 1992:

  • Varúðarregluna sem kveður á um að ekki skuli ráðast í framkvæmd sem kann að hafa alvarleg áhrif á umhverfið nema að sýnt sé fram á að hún hafi ekki slík áhrif. 
  • Mengunarbótaregluna sem kveður á um að þeir sem spilla umhverfinu beri kostnað við mótvægisaðgerðir og bætur á skaða sem þeir valda. 
  • Nytjagreiðsluregluna sem kveður á um að þeir sem nýta náttúrulegar auðlindir til ágóða og ánægju greiði kostnað sem til fellur við stjórn, viðhald og verndun auðlindanna. 
  • Náttúruverndarsamtök Íslands leggja þann skilning í hugtakið um sjálfbæra þróun að meginboðskapurinn sé að móta nýjar reglur um það hvernig nýta megi auðlindir jarðar án þess að komandi kynslóðir beri skarðan hlut frá borði. 
  • Draga beri úr hefðbundinni neysluhyggju, breyta neysluvenjum í átt að betri nýtni og efla þannig þátt annarra gilda sem forsendu fyrir lífsánægju og hamingju.

Markmið samtakanna

  • er að vera málsvari umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiða. 
  • er að stuðla að verndun náttúru Íslands til láðs, lagar og lofts, málefni sem eru í senn íslenskt og alþjóðlegt viðfangsefni. 

Þessum markmiðum hyggist félagið m.a. ná með því að:

  • Veita stjórnvöldum og framkvæmdaraðilum gagnrýnið aðhald.
  • Tryggja upplýsingastreymi til almennings.
  • Vinna að bættri lagasetningu í þágu umhverfis- og náttúruverndar.
  • Efla samstarf við systursamtök hérlendis og erlendis.
  • Færa alþjóðlega umræðu nær almenningi.
  • Efla vitund almennings um umhverfismál og náttúruvernd.
  • Fræða almenning um gildi náttúrunnar.
  • Stuðla að því að stjórnvöld virði alþjóðlegar skuldbindingar í umhverfismálum.

Stjórn Náttúruverndarsamtaka Íslands

Stjórn samtakanna er skipuð fimm aðalmönnum og tveimur til vara:

Aðalmenn

  • Árni Finnsson, formaður
  • Sveinn Atli Gunnarsson, gjaldkeri
  • Oddný Ævarsdóttir
  • Ragnheiður Júlía Ragnarsdóttir
  • Ragnheiður Þorgrímsdóttir

Varamenn

  • Harpa Stefánsdóttir
  • Kristján Kristinsson

Kjörin á rafrænum aðalfundi 3. desember 2020.