Stefna samtakanna
Hálendi Íslands – Óbyggðir og víðerni
Óbyggð víðerni eru varla til lengur í Evrópu og er hálendi Íslands eitt stærsta víðerni í Evrópu, þar sem ósnortin og lítt snortin náttúra nýtur sín. Verndun hálendisins á Íslandi er eitt brýnasta verkefni í íslenskri náttúruvernd. NSÍ munu því beita sér m.a. fyrir:
- Að gera hálendið allt að einum þjóðgarði með lögum frá Alþingi. Þar með verði hálendi Íslands sett undir eina skipulagsstjórn og svæðið skýrt afmarkað og skilgreint.
- Að standa gegn óraunhæfum hugmyndum um stórfelld virkjunaráform og lagningu sæstrengs til orkuútflutnings.
- Að raflínur verði lagðar í jörð eins og frekast er unnt.
- Að aðgengi og umferð almennings byggi á forsendum vistvænnar ferðamennsku.
- Að vegir verði ekki byggðir upp frekar en orðið er.
Jarðvegsrof og landgræðsla
Jarðvegsvernd er aðkallandi verkefni fyrir alla jarðarbúa vegna mikilvægi hennar fyrir matvælaframleiðslu og þar með framtíðarheill okkar. Aðgerðir til að tryggja ábyrga nýtingu lands, verndun gróðursvæða og að koma í veg fyrir myndun eyðimarka er því órjúfanlegur hluti náttúruverndar. Ástand vistkerfa í náttúru Íslands er víða bágborið vegna jarðvegsrofs. Til að hraða nátttúrulegri uppbyggingu þeirra ber að stuðla að sjálfbærri landnýtingu, beitarstýringu og friðun lands þar sem það á við. Þar sem ekki verður komist hjá að grípa inn í jarðvegsrof með landgræðsluaðgerðum, setja NSÍ fram eftirfarandi stefnu.
- Svæðum til landgræðslu verði forgangsraðað og markmið aðgerða verði skýr.
- Ekki verði hróflað við náttúrulega grónu landi eða náttúrulegum eyðimörkum, en kröftum beint að stöðvun hraðfara jarðvegsrofs og uppbyggingu gróðurfars í samræmi við náttúruleg skilyrði hvers staðar.
- Landgræðsluaðgerðir verið umhverfismatskyldar, það með talin skógrækt. Við endurheimt náttúrulegra búsvæða skal miða við sjálfgræðslu innlendar tegunda en beita stórtækum aðgerðum því aðeins að brýn landnýtingarsjónarmið krefjist þess.
- Fylgst verði með árangri og afdrifum svæða eftir landgræsluaðgerðir og niðurstöður verði gerðar almennigi aðgengilegar.
Sérstæð íslensk náttúra og vistkerfi
Á Íslandi er að finna margar einstæðar náttúruperlur. Til þeirra má telja ungar jarðmyndanir á borð við lítt veðruð yfirborðshraun, lindarsvæði, mosaþembur, fossa og hverasvæði, sem Íslendingum ber skylda til að vernda. Á Íslandi eru einnig plöntur og dýr sem eru um margt einstæð fyrir Evrópu og þótt víða væri leitað. NSÍ munu því beita sér m.a. fyrir:
- Að friðlýsa allar eldborgir, óraskaða og lítt raskaða klepra- og gjallgíga, ásamt tengdum yfirborðshraunum.
- Að þjóðgarðurinn á Þingvöllum verði stækkaður og allt vatnsvið Þingvallavatns verði gert að friðlandi fyrir árið 2000.
- Að endurheimta hið mikilfenglega lífríki Efra-Sogs svo hinn sögufrægi urriði fái aftur notið sín.
- Að endurheimta vistkerfi framræstra votlenda.
- Að vernda og hlúa að náttúrlegum stofnum bleikju, urriða og lax.
- Friðun vatnasviða Jökulsár á Fjöllum, Jökulsár á Brú og Jökulsár á Fljótsdal.
- Að vernda búsvæði og hlúa að fuglategundum sem ekki verpa annars staðar í Evrópu, þ.á.m. himbrima, straumönd, húsönd og heiðargæs. Að vernda búsvæði umferðarfarfugla, þ.á.m. margæsar og rauðbrystings.
- Að vernda og hlúa að birkiskógum, mosum og fléttum sem eru áberandi í íslensku landslagi og standa vörð um aðrar upprunalegar lífverur sem hætt eru komnar samkvæmt íslenskum válistum.
Lífríki sjávar
Nýting og verndum lífríkis sjávar verður ávallt að grundvallast á vísindalegri þekkingu á útbreiðslu, magni og veiðiþoli viðkomandi stofns. Fiskveiðistjórnun skal vera samkvæmt stjórnlíkönum um langtímaafrakstur fiskistofna (sbr. aflareglu fyrir þorsk frá 1995). Mikilvægt er að nýtingu og endurnýjun auðlinda sjávar stafi ekki ógn af mengun. NSÍ munu því m.a.:
- Beita sér fyrir ábyrgri fiskveiðistjórnun, enda hafi Íslendingar fulla burði til að vera öðrum þjóðum fyrirmynd í þeim efnum.
- Beita sér fyrir því að Ísland virði alþjóðlegar samþykktir um verndum lífríkis sjávar.
- Vinna gegn mengun sjávar, einkum af völdum þrávirkra, lífrænna eiturefna. Mikilvægt er að almenningur eigi þess kost að fylgjast með alþjóðlegu samstarfi í þeim efnum.
- Beita sér fyrir öflugu samstarfi fiskveiðiþjóða gegn vá af völdum geislavirkrar mengunar.
Andrúmsloftið
Breytingar á loftslagi og veðurfari af völdum gróðurhúsaáhrifa er eitt helsta umhverfisvandamál jarðarbúa. Byggð við Norður-Atlantshaf og nýtingu náttúruauðlinda er undir því komin að þessari vá verði bægt frá með öguðu og hnitmiðuðu alþjóðlegu samstarfi. Því munu NSÍ vinna m.a. að eftirfarandi:
- Að dregið verði úr losum gróðurhúsalofttegunda og að Ísland verði fremst í röð ríkja í alþjóðlegu samstarfi um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.
- Að fylgjast grannt með samningaviðræðum fyrir ráðstefnu á vegum S.Þ. um loftslagsbreytingar, sem haldin verður í Kyoto í desember 1997. Evrópusambandið hefur lagt fram tillögu um 15% niðurskurð á losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2010 frá því sem varð árið 1990. Samtök lítilla eyríkja (Small Island States) hafa lagt fram tillögu um 20% niðurskurð fyrir árið 2005, einnig miðað við 1990. Íslensk stjórnvöld hafa hins vegar ekki treyst sér til að styðja tillögur ESB. Náttúruverndarsamtök Íslands gera kröfu um að íslensk stjórnvöld leggist á árar með þeim sem lengst vilja ganga í þessum efnum, enda mæla vísindalega rök með því.
- Að dregið verði úr losun ósoneyðandi efna í samræmi við Vínarsamninginn og bókunum við hann.
Endurskoðun laga
Íslensk löggjöf á sviði náttúruverndar og umhverfismála þarfnast endurskoðunar. Efnisatriði núverandi náttúruverndarlaga eru sum úr sér gengin og í lögin vantar ákvæði í samræmi við nýjar og breyttar forsendur í náttúruverndarmálum. Þá þarf að sníða ýmsa vankanta af lögum um mat á umhverfisáhrifum og ekki síður af framkvæmd laganna. Í þessu sambandi munu NSÍ beita sér m.a. fyrir:
- Endurskoðun á lögum um náttúruvernd. Huga þarf sérstaklega að ákvæðum sem skírskota til búsvæða tegunda og heilla vistkerfa. Einnig er brýnt að efla til muna þátt eftirlits í íslenskri náttúruvernd frá því sem nú er.
- Endurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum, með áherslu á að lögin fullnægi ýtrustu kröfum um umhverfisvernd og gegnsæi við ákvarðanatöku. Lögð verði sérstök áhersla á að mat á umhverfisáhrifum sé heildstætt og taki til allra helstu þátta sem tengjast viðkomandi framkvæmd. Lækka þarf viðmiðunargildi fyrir matskyldar framkvæmdir á sumum sviðum, einkanlega hvað varðar stærð efnistökustaða. Tryggja þarf betur þátttöku sérfræðinga í náttúrufræðum á stjórnsýslustigi framkvæmda sem gangast undir mat á umhverfisáhrifum. Nauðsynlegt er að framkvæmdaraðili kynni almenningi betur en nú er gert fyrirhugaða framkvæmd strax á því stigi sem hún er kynnt Skipulagi ríkisins.
- Skýrari lögum um almannarétt.
Alþjóðlegt samstarf
Náttúruverndarsamtök Íslands munu beita sér fyrir samstarfi við systursamtök innanlands og erlendis. Í því sambandi má nefna norðurheimskautsverkefni Alþjóðanáttúruverndarsjóðsins (WWW, Arctic Program). Norðurheimskautsmál eru hnattræn í eðli sínu, m.a. vegna þess að mengun virðir ekki landamæri og margar lífverur ferðast milli landa og heimsálfa. NSÍ munu einnig fylgjast náið með framvindu samstarfs innan Norðurheimskautsráðsins (Arctic Council, AEPS, CAFF, PAME).
Endurnýting
Lykilatriði í hugtakinu sjálfbær þróun eru að draga úr neyslu, auka nýtni og endurvinna úrgang. Í þessu skyni munu NSÍ beita sér m.a. fyrir:
- Að tekin verði upp heilstæð stefna um endurvinnslu úrgangs á Íslandi með samstarfi sveitarfélaganna og lögum frá Alþingi.
- Að koma á framfæri upplýsingum um hvernig draga megi úr úrgangi og efla vistvæna framleiðslu.