Ný könnun Maskínu fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands (sjá viðhengi) sýnir að 51 prósent aðspurðra telji óeðlilegt að ráðherra í starfsstjórn gefi út nýtt leyfi til veiða á langreyðum. Tæp 30 prósent svara að slík leyfisveiting sé eðlileg en 19 af hundraði taka ekki afstöðu til spurningarinnar.
Ákvarðanataka um hvalveiðar og stjórnsýsla lýtur lögum frá árinu 1949. Lögin hafa staðið óbreytt frá þeim tíma. Á sama tímabili hefur umræða um velferð dýra og umhverfismál tekið stakkaskiptum. Bæði hér heima og á alþjóðavettvangi. Íslendingar neyta ekki kjöts af langreyðum og markaður fyrir hvalkjöt í Japan er innan við 2000 tonnum á ár.
Í febrúar sl. skipaði þv. forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, starfshóp sem fékk það verkefni „… að rýna lagaumgjörð hvalveiða, þ.m.t. alþjóðlegar skuldbindingar ríkisins, valdheimildir og skyldur stjórnvalda á þeim grundvelli.” Segir jafnframt í fréttatilkynningu þv. forsætisráðherra, sem jafnframt gegndi stöðu matvælaráðherra, að starfshópnum væri „.. ætlað að skila skýrslu þar sem fram komi valkostagreining um mögulegar leiðir til úrbóta og stefnumótunar. Valkostir skulu bæði taka mið af áframhaldandi veiðum sem og takmörkun eða banni við veiðum til framtíðar. Skýrslunni er ætlað að vera grundvöllur fyrir framtíðarstefnumótun um hvalveiðar.”
Eftir því sem næst verður komist hefur starfshópurinn hafið vinnu sína en fátt bendir til að henni ljúki fyrir lok þessa árs. Það væri afar sérkennileg stjórnsýsla að, Bjarni Benediktsson starfandi matvælaráðherra í starfsstjórn, gæfi út leyfi til veiða á langreyðum til næstu 5 eða 10 ára samkvæmt lögum sem hafa staðið óbreytt í 75 ár og virti þar með að vettugi vinnu starfshóps um hvernig megi færa lög um hvalveiðar í átt til nútímans. Slík ákvörðun myndi binda hendur íslenskra stjórnvalda jafn lengi og hugsanlegt leyfi gildir. Slík ákvörðun stenst ekki kröfur um nútíma stjórnsýsluhætti.
Sjá könnun Maskínu í viðhengi