Skýr skilaboð Íslands?

This is the lede paragraph for the blog post. It should be populated with dynamic data from a WYSIWYG custom field assigned to your posts.

Birt í Lífríki sjávar

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, flutti merkilegt erindi hjá Harvard-háskóla í Boston á föstudaginn var, 26. janúar. Forsetinn sagði að bent hefði verið á að um miðja þessa öld yrði meira plast í hafinu en fiskar, en sem kunnugt er borðum við ekki plast. Forsetinn greindi jafnframt frá því að innan skamms myndi hann sækja World Ocean Summit (Leiðtogafund um málefni heimshafanna sem haldinn verður í Mexikó í byrjun mars á vegum breska tímaritsins Economist). Hann sagði að „skilaboð Íslands yrðu skýr, við verðum að vernda hafið, við verðum að halda hafinu hreinu“. Hann sagðist jafnframt vona að fulltrúar landsins næðu að vekja athygli á alþjóðavettvangi í ljósi þess að þeir viti hvað um sé að ræða; að við sem erum háð auðlindum hafsins og hreinleika þess vitum hversu mikla þýðingu hafið hefur fyrir framtíð Íslands og annarra ríkja.

Vonandi var erindi Guðna Th. Jóhannessonar í Harvard til marks um að ný ríkisstjórn hyggist taka verndun hafsins fastari tökum an áður. Þess eru nokkur dæmi í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þar er þó ekkert að finna um nauðsynlega stefnumótun um málefni hafsins.

Orð forsetans voru löngu tímabær, en við hljótum að spyrja hver sé þá stefna Íslands. Jú, kvótakerfið er við lýði og aflareglan gildir og þorskstofninn hefur braggast á ný eftir mikla lægð í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar.

Á hinn bóginn er stefna Íslands þegar kemur að verndun hafsins í besta falli óljós. Ísland hafði mikilsvert frumkvæði að gerð samnings um bann við losun þrávirkra eiturefna í hafið, líkt rakið er í bók Davíðs Egilsonar, Undrið litla: Stokkhólmssamningurinn og baráttan gegn POPs – sköpunarsaga.

Fyrir nokkrum árum síðan varð mikið fjaðrafok hér á landi eftir að erlendir vísindamenn héldu því fram að árið 2050 gætu fiskveiðar verið úr sögunni. Slíkar spár birtast nú oft á ári og hérlendis hefur þeim fækkað sem draga þær í efa.

Í skýrslu þáverandi utanríkisráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, til Alþingis í apríl 2012 segir: „Á liðnu ári hafa vísindamenn varað við því að samanlögð áhrif fjölmargra streituvalda á hafið geti haft ófyrirséðar afleiðingar, þar sem meðal annars mengun, hlýnun, súrnun hafsins, ofveiði og súrefnisþurrð leggist á eitt við að valda álagi á tilveruskilyrði sjávarlífvera. Heimshöfin hafa ekki verið súrari en þau eru nú í um tuttugu milljónir ára.“[1]

Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hefur þess ekki orðið vart að sendinefnd Íslands sé meðvituð um þessa stöðu mála, þessa aðvörun fyrrverandi utanríkisráðherra. Ef till vill er þeim nokkur vorkunn því þegar Katrín Jakobsdóttir spurði arftaka Össurar, Gunnar Braga Sveinsson, á Alþingi hinn 19. mars 2015 hvort „einhver stefna [væri] til af hálfu ráðuneytisins eða í undirbúningi um verndun hafsins“ varð fátt um svör af hálfu utanríkisráðherrans.

Gunnar Bragi sagði þó að hann hefði átt samtöl við umhverfisráðherra „undanfarið um hafið, hvort við þyrftum ekki að setjast niður og fara vandlega yfir það á breiðum grunni hvernig við horfum á þessa helstu auðlind okkar Íslendinga“. Gunnar Bragi upplýsti einnig að með haustinu „.verði komin stefna“ en viðurkenndi að undirbúningsvinna væri skammt á veg komin.

Eftir því sem næst verður komist hefur engin slík stefna verið birt ennþá. Vera má að undirbúningsvinna standi yfir. Víst er að ekkert samráð hefur verið haft við hagsmunasamtök í sjávarútvegi, náttúruverndarsamtök, sjómannasamtök eða ASÍ. Eins er víst að á Alþingi hefur aldrei rætt um það á þessari öld hver sé stefna Íslands um verndun hafsins. Ef einhver stefnumótun á sér stað fer hún fram fyrir luktum dyrum. Ef til vill í samráði við SFS.

Í meira en 10 ár hafa ráðamenn hér heima vitað af súrnun sjávar. Lengi vel fóru loftslagsbreytingar fram hjá stjórnmálamönnum og LÍÚ lét duga að bjóða hingað Birni Lomborg. Lengi ve var litið á frásagnir um hnignun líffræðilegs fjölbreytileika „vegna fjölmargra streituvalda á hafið“ sem eitt af bellibrögðum umhverfisverndarsamtaka til að stöðva fiskveiðar. Í stuttu máli hafa stjórnvöld hér heima sofið á verðinum, sem sést best á því að engin stefna hefur enn verið mótuð. Og útgerðarmenn brenna enn svartolíu, sem veldur mikill sótmengun með margföldum gróðurhúsaáhrifum þegar svart sótið leggst á ís. Að því er virðist til að auka framlegð fyrirtækja sinna um stundarsakir.

Þegar ekki liggur fyrir nein stefnumótun af hálfu pólitískra stjórnvalda er hætt við að einstakir ráðherrar, embættismenn eða sendifulltrúar taki afstöðu sem stenst enga skoðun. Til dæmis lögðust fulltrúar Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þangað til í fyrra gegn gerð samnings um „verndun og sjálfbæra nýtingu líffræðilegs fjölbreytileika utan lögsögu ríkja“.

Um er að ræða framkvæmdasamning undir hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna líkt og úthafsveiðisamningurinn er. Engu að síður var því borið við að ekki mætti ógna nýtingarrétti strandríkja, sem einmitt er tryggður með Hafréttarsamingnum sem liggur til grundvallar þeim samningi sem fulltrúar Íslands lögðust gegn að gerður yrði. Þannig hafa íslensk stjórnvöld dregið lappirnar um árabil – án þess að láta svo lítið að upplýsa utanríkismálanefnd Alþingis um gang mála.

Orð forseta Íslands í Boston boða nýja tíma, sérstaklega vegna þess að hann var alveg afdráttarlaus um að hann talaði fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar. Nú myndi Ísland láta í sér heyra. Orð hans um að við verðum „að vernda hafið“, „halda hafinu hreinu“, þau gefa von um að stjórnvöld skilji nú nauðsyn þess að taka af skarið og móta stefnu fyrir Ísland með lýðræðislegum hætti. Við slíka stefnumótun skiptir mestu að almenningur fái upplýsingar um um þær ógnir sem að steðja. Því miður tókst Össuri þetta ekki árið 2012.

Það er borin von að málflutningur fulltrúa Íslands veki athygli á alþjóðavettvangi ef stjórnvöld hafa enga stefnu, vita ekki hvað þau ætla að gera eða vilja heldur fylgja Rússum að málum vegna þess að útgerðarmönnum er í nöp við Evrópusambandið. Við skulum muna að rússneskir togarar stunda rányrkju á karfa á Reykjaneshrygg rétt utan við 200 mílna efnahagslögsöguna, þvert gegn ráðum vísindamanna.


[1] Á loftslagsráðstefnunni í París bentu vísindamenn á að þær breytingar sem nú sjást í hafinu eigi sér ekki fordæmi síðustu 56 milljónir ára.


Fiskifréttir – skýr skilaboð 010218.pdf

Birt

25. ágúst 2020
Aftur á forsíðu