Umhverfisstofnun og umhverfisráðherra upplýstu á umhverfisþingi í morgun, að Ísland muni tæpast geta staðið við skuldbindingar sínar á II. skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar, 2013 - 2020. Ennfremur, kom fram, að erfitt verði fyrir Ísland að standast við skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsamkomulaginu 2021 - 2030 - í samvinnu við Evrópusambandið. Vonandi lýkur þar með blekkingarleik stjórnvalda og stóriðju- og orkufyrirtækja, sem til skamms tíma hafa haldið því að þjóðinni að Íslendingar séu heimsmeistarar í hreinni orku, öðrum þjóðum mikil fyrirmynd í loftslagasmálum; að helsta framlag Íslands til loftslagsmála felist í að selja orkufrekum iðnaði hreina orku. 

Þær upplýsingar sem umhverfisráðherra hefur nú staðfest hafa legið fyrir í a.m.k. tvö ár en ákveðið var að þegja sem fastast um stöðuna í aðdraganda Parísarráðstefnunnar í desember 2015 og aftur fyrir kosningar 2016. Sitjandi umhverfisráðherra hlýtur þann heiður að segja sannleikann.
Einnig kom fram á umhverfisþingi í morgun að enn - árið 2017 - liggur ekki fyrir nein aðgerðaáætlun um hvernig skuli draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi. Þ.e.a.s. fimm árum eftir að samkomulag náðist í Doha um Kyoto II og fjórum árum eftir að skuldbindingartímabilið hófst.
 
Forstjóri Umhverfisstofnunar, Kristín Linda Árnadóttir, sagði í erindi sínu að nr. 1, 2 og 3 sé að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Náttúruverndarsamtök Íslands taka undir þau orð enda harla ólíklegt að binding kolefnis með breyttri landnotkun (skógrækt, landgræðslu og/eða endurheimt votlendis) muni teljast með í sameiginlegri skuldbindingu aðildarríkja Evrópusambandsins, Íslands og Noregs.
 
Samningaviðræður við ESB um framlag Íslands eru ekki hafnar og strandar þar á kröfu Íslands um að fá að telja fram bindingu kolefnis með breyttri landnotkun. Af ríkjum ESB fékk Írland mest svigrúm til að nýta breytta landnotkun í sameiginlegu markmiði Evrópuríkja um 40% samdrátt, eða 5,6%. Var þá miðað við að 30% losunar gróðurhúsalofttegunda þar í landi eru frá landbúnaði. Hér á landi er hlutfallið 15% sem styður þá niðurstöðu Kristínar Lindiu að mikilvægast sé að draga úr losun frá landbúnaði, sjávarútvegi, iðnaði, samgöngum og úrgangi.
 
[1] Bent skal á að í júlí 2016 fögnuðu tillögu ESB að dregið verði úr losun þar í landi um 40% miðað við 2005. Sjá einnig grein umhverfisráðherra Noregs, Vidars Helgesens, sem birtist í VG 20. júlí 2016.