Náttúruverndarsamtök Íslands

Náttúruverndarsamtökin Laxinn lifi

Verndarsjóður villta Atlantshafslaxins (NASF)

 

Reykjavík 26. febrúar 2023

 

                                                Fréttatilkynning

 

Ofangreind náttúruverndarsamtök skora á matvælaráðherra, aðra ráðherra er málið varðar og þingmenn allra flokka að bregðast tafarlaust við Svartri skýrslu Ríkisendurskoðunar varðandi sjókvíaeldi með norskum kynbættum laxi og forða náttúru landsins frá meira tjóni en orðið er.  Því miður blasir við mikill náttúruskaði og ekki seinna vænna að stöðva framhaldið með algjöru banni við sjókvíaeldi með framandi laxastofni.

 

Endurbætur á lögum og regluverki sjókvíaeldis eru í sjálfu sér gott markmið til að freista þess að koma í veg fyrir spillingu og tryggja vönduð vinnubrögð. Í húfi er laxastofn landsins og skuldbindingar Íslands gagnvart Samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni. Við blasir eyðing náttúrulegra laxastofna í Noregi, Skotlandi og Írlandi.  Þar er áratuga reynsla fyrir hendi og engar forsendur fyrir því að sams konar sjókvíaeldi hér á landi reynist skárra.

 

Eina örugga leiðin til að íslenski laxastofninn fari sömu leið er að banna alfarið sjókvíaeldi með framandi laxastofn í  opnum sjókvíum.

 

Náttúruverndarsamtökin hafa í mörg ár gert athugasemdir við nánast allt sjókvíaeldi með norskum laxastofni, sent athugasemdir og kærur til Matvælastofnunar, Umhverfisstofnunar, Skipulagsstofnunar og Hafró.  Sent kærur í mörgum málum til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og höfðað nokkur dómsmál til ógildingar sjókvíaeldisleyfum.  Og loks sent kæru til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna skyndilaga Alþingis í október 2018.  Í langflestum tilvikum með takmörkuðum árangri.  Þó hefur ESA gefið út í tvígang að kæran sé á rökum reist.  En sjávarútvegsráðuneytinu hefur í 4 ár tekist að þæfa lokaafgreiðslu málsins með sérkennilegum tillögum um lagabreytingar, sem ætlað er að fara í kringum meginreglur umhverfisréttarins.

 

Í öllum þessum málum hefur verið bent á, að í gildi eru ströng lagaákvæði um laxeldið og náttúruvernd.  Vandamálið er að íslensk stjórnvöld og stofnanir – og jafnvel dómstólar – virða þau að vettugi.

 

Fyrst og fremst er hér um að ræða markmiðsákvæði 1. gr. fiskeldislaga, að villti laxinn hafi forgang framar eldislaxinum og hina mikilvægu varúðarreglu í 9. gr. náttúruverndarlaga, að náttúran skuli njóta vafans.

 

Laxeldisleyfin eru afhent nánast ókeypis til fyrirtækja, sem eru að mestu í eigu norskra auðfyrirtækja. Þau 100 þúsund tonna leyfi, sem þegar eru útgefin hefðu í Noregi kostað 225 milljarða króna.  Verðmæti norsku fyrirtækjanna eru fólgin í þessum ókeypis leyfum, sem svo er braskað með fyrir tugi milljarða í hlutabréfum í norsku kauphöllinni. Náttúruverndarsamtökin mótmæla harðlega þessari þjóðargjöf.

 

Mikilvæg atriði, sem hin annars prýðilega Svarta skýrsla fjallar ekki um eru t.d. eftirfarandi atriði til viðbótar ofannefndum ákvæðum fiskeldislaga og náttúruverndarlaga:

 

  1. a) Ekki er fjallað ýtarlega og til samanburðar um náttúruskaða laxeldis í opnum sjókvíum í Noregi, Skotlandi og Írlandi eftir margra áratuga uppsafnað tjón á villta laxinum og veiðiám.

Allir vita sem vilja, að undanfarna marga áratugi hefur sjókvíalaxeldið víða um heim reynst skaðlegt náttúrunni og sérstaklega villtum laxastofnum. Dæmin frá Noregi, Skotlandi og Írlandi staðfesta þetta. 

Tal um betri og strangari reglur og eftirlit er í sjálfu sér ágætt, en staðreyndin er að hvergi hefur  tekist að reka sjókvíalaxeldi nema með margvíslegum og stórkostlegum náttúruskaða Og nú á að banna sjókvíalaxeldi í opnum sjókvíum í British Columbia í Kanada.

 

  1. b) Ekki er fjallað um skyndilög Alþingis í byrjun október 2018, sem ógiltu úrskurði ÚUA og sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur í tvígang lýst andstæð almennum umhverfisverndarreglum.

 

  1. c) Ekkert er fjallað um gífurlegan úrgang í opinn sjó, auk lúsaeiturs, sem margsinnis og í mörg ár hefur verið helt í opnar sjókvíar.

Framleiðandi aðaleitursins (Alfa Max) gefur þær notkunarupplýsingar að eituráhrifa geti gætt í allt að 4 km frá eitrunarstað.

 

  1. d) Risaslys í sjókvíaeldinu undanfarin ár eru nú þegar staðreynd með ófyrirséðum afleiðingum.

Hér ber fyrst að nefna stórslysið í Arnarfirði í júlí/ágúst 2021, sem fyrst var upplýst um í nóvember 2022, þar sem amk 81.000 laxar sluppu úr sjókví.  Þar var Armarlaxi gerð sekt upp á 120 milljónir (sem fyrirtækið lýsti yfir að það ætlaði ekki að borga!).

Síðan eru önnur stærstu slysin í sjókvíaeldinu, sem vitað er um, þegar dæla varð 2000 tonnum af dauðfiski úr kvíum í Arnarfirði í norsk gúanóflutningaskip á árinu 2021 og ISA (blóðþorra) veikin, sem orsakaði 100% lok sjókvíaeldis amk í einhver ár í Berufirði og Reyðarfirði á fyrri hluta árs 2022 og loks 1000 tonna dauðfiskstjón í Dýrafirði 2021.  – Listinn lengist í sífellu.

 

Ákvæði, sem brýn nauðsyn er að sett verði nú þegar a.m.k. í reglugerð:

 

  1. Eldisfyrirtækin verði skylduð til að taka ábyrgðartryggingu (P&I –Protection and indemnity)

vegna mögulegs náttúruskaða vegna stroklaxa af norskum og framandi stofni.  Þetta er sams konar trygging og öll olíuflutningskip verða að hafa og einnig eru flest flutningaskip og stærri veiðskip með þannig ábyrgðartryggingu.   Krafa um ábyrgðartryggingu var sett fram margsinnis síðastliðin ár án þess að opinberir aðilar hafi svo mikið sem minnst á málið. Strokfiskur af framandi stofni veldur ekki ólíku tjóni á náttúrunni og olíuleki í sjó.

 

  1. b) Setja þarf aftur inn í fiskeldisreglugerðina ákvæði um skyldumerkingu með uggaklippingu

 á amk 10% seiða í hverri sjókví.  Ef fiskur sleppur sem seiði eða smáfiskur er nánast

 útilokað að þekkja hann þegar hann veiðist í veiðiá.

 Engin skýring hefur fengist á niðurfellingu þessa ákvæðis 2019.

 

Náttúruverndarsamtökin ítreka áskorun til matvælaráðherra og annarra

ráðherra sem málið varðar og þingmanna allra flokka að grípa nú þegar til ráðstafana til varnar frekara tjóni á náttúru landsins af völdum laxeldis erlendra fyrirtækja í opnum sjókvíum með framandi erlendum laxastofni.

Þannig verði náttúru landsins skilað til komandi kynslóða án stórskaða.