Athygli vakti að Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, sagði á Arctic Circle ráðstefnunni um sl. helgi að á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP26)[1] sem haldinn verður í Glasgow 31. okt. til 12. nóv. gefist þjóðum heims síðasta tækifærið til að ná tökum á loftslagsvandanum og ná að takmarka hlýnun andrúmslofts Jarðar við 1,5°C.

Arfleifð Kaupmannahafnar 

Á fundi aðildarríkja Loftslagssamningsins í Kaupmannahöfn í desember 2009 (COP15) voru teknar tvær mikilvægar ákvarðanir sem enn verða í fókus á fundinum í Glasgow.

  1. Takmarka yrði hækkun hitastigs andrúmsloftsins við 2°C miðað við upphaf iðnbyltingar árið 1850. Hækki hitastig umfram tvær gráður yrði ekki aftur snúið vegna bráðnunar Grænlandsjökuls og / eða Suðurheimskautsins, súrnunar sjávar, eyðileggingar búsvæða.
  2. Frá og með 2020 skyldu iðnríkin leggja fram 100 milljarða dollara á ári til að
  • aðstoða þróunarríki við að nýta sér endurnýjanlega orku, sól og vind,
  • aðstoða þróðunarríki við að bregðast við afleiðingum loftslagsbreytinga. 

Þegar fyrir lá samkomulag um hversu mikið andrúmsloftið mætti hitna án þess að valda varanlegum skaða á vistkerfum Jarðar var hægur leikur að reikna út hversu miklu magni gróðurhúsalofttegunda væri enn óhætt að pumpa út í andrúmsloftið án þess að hitastig hækkaði umfram 2°C. Þetta rými minnkar nú óðum.

Tveggja gráðu markmiðið var leiðarljós samninga aðildarríkja Loftslagssamnings SÞ frá COP15 2009 þar til samningar tókust loks í París 2015. Sú breyting varð þó á Parísarráðstefnunni að þar fengu láglend eyríki[2] viðurkenningu á því að takmarka yrði hækkun hitastigs við 1,5°C. Ella myndu flest þessara eyríkja í Kyrrahafi, Karíbahafi og Indlandshafi hverfa undir yfirborð sjávar fyrir lok þessarar aldar. Hið sama gildir um strandsvæði Flórída – svo dæmi sé tekið – en pólitísk forusta á þeim bæ einkenndist af sauðshætti, ekki ábyrgð.

Ísland, Evrópusambandið, Noregur, Bandaríkin og fjöldi annarra ríkja tóku undir með eyríkjunum og frá lokum Parísarráðstefnunnar hefur 1,5°C-markið verið viðmið flestra ríkja. Í september 2018 birtist skýrsla IPCC sem sýndi ótvírætt að hækki hitastig Jarðar umfram 1,5°C yrðu afleiðingarnar miklum mun verri en áður var talið.

Deilt er um hvort 1,5°C sé raunhæft markmið. Á móti er bent á að varanleg hlýnun umfram 1,5°C rústar vistkerfum Jarðar. Er það raunhæfur kostur?

Stundum er sagt að áratugur sé til stefnu – sem við / mannkyn hafi til að stöðva hamfarahlýnun og súrnun sjávar. Verkefnið er að helminga heimslosun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 miðað við 1990. Milli 2030 og 2040 verður losunin aftur að helmingast og fyrir 2050 verður hún enn að minnka um helming.

Öfugt við Kyoto-bókunina kveður Parísarsamningurinn ekki á um að losunarheimildum verði lögformlega deilt á milli ríkja eða ríkjahópa (t.d. ESB) heldur komu aðildarríkin til leiks í París með tölu yfir hversu mikið þau treystu sér til að minnka losun. Það munu þau einnig gera í Glasgow. Stóra spurningin er: verður það nóg?

Ljóst var í París að landsframlög aðildarríkjanna myndu ekki duga til að takmarka hækkun hitastigs vel innan við 2°C heldur heldur væri 3 gráðu hækkun nærri lagi. Þá var ákveðið að lengra yrði ekki komist. Þess í stað skyldu aðildarríki endurskoða landsframlög sín að fimm árum liðnum. Sá tími rann út fyrir ári, 2020, en COP26 var frestað vegna faraldursins. Þess vegna er fundurinn í Glasgow svo mikilvægur. Ætla aðildarríkin að kynna áform um samdrátt sem dugar til að heimurinn endi ekki á vonarvöl?

Parísarsamningurinn byggist á þeirri meginreglu að ríki ákveði sjálf hversu mikið þau draga úr losun. Landsframlögin eru ákveðin í Bejing, Nýju Delí, Brussel eða Washington. Já, og í Reykjavík. Allir vita hvað til þarf. Til dæmis er 55% markmið Evrópusambandsins miðað við að önnur ríki hækki landsframlög sín í sama hlutfalli.

Fréttst hefur að Xi JinPing Kínaforseti hyggist sitja heima sem sé til marks um að framlag Kína verði ekki upp á marga fiska.

Evrópusambandið boðaði nýjar aðgerðir 11. desember í fyrra og var markið sett á 55% samdrátt í losun í stað 40% í aðdraganda París. Evrópuþingið samþykkti fyrir þann tíma ályktun um að samdrátturinn skyldi verða 60% og vísindasamfélagið og frjáls félagasamtök kröfðust 65% samdráttar af hálfu Evrópusambandsins.

Kína, Bandaríkin, Indland, Evrópusambandsríkin, Rússland, Japan, Þýskaland, Suður Kórea, Íran, Sádi Arabía, Indónesía, Kanada, Mexikó, Suður Afríka, Brasilía, Tyrkland, Ástralía og Bretland losa um 80% af heimslosuninni.

Ísland

Í samræmi við nýtt markmið ESB sendi Ísland inn uppfært landsframlag til skrifstofu Loftslagssamningsins 18. febrúar sl. Ekki kemur fram hversu mikið Ísland ætli að draga úr losun en fram kemur að landsframlag Íslands verði ákveðið í samvinnu við Evrópusambandið, aðildarríkjum þess og Noregi.[3]

Af hálfu forsætisráðherra og umhverfisráðherra hefur komið fram að hlutur Íslands gæti orðið 40–46% samdráttur. Þá er væntanlega reiknað með að Ísland fái svipaðan „afslátt“ og síðast, þegar hlutur Íslands var 29% en heildarmarkmiðið ESB 40%.

Svartolía

Ein leið til að ná skjótum árangri á Norðurslóðum er að banna alfarið bruna og flutninga á svartolíu á Norðurslóðum. Við bruna svartolíu losnar sót sem sest á ís og jökla og hraðar bráðnun. Með slíku banni mætti bjarga Norððurskautsísnum.

Skjótur árangur af svartolíubannni helgast af því að áhrif svartolíubruna eru skammvinn. Um leið og mengunin hættir hægir á bráðnun íss og jökla.

Aðstoð við þróunarríki er lykilatriði í Glasgow

Hin fátækari ríki heims bera minnsta ábyrgð á þeim vanda sem upp er kominn. Þau hafa einnig minnstar bjargir til að verjast afleiðingum loftslagsbreytinga. Þróunarríkin hafa því skyldu til að aðstoða þróunarríki við að nýta hreina orku og aðlagast loftslagsbreytingum. Þess vegna var samþykkt í Kaupmannahöfn að iðnríki skyldu leggja til 100 milljarða dollara á ári til aðstoða þróunarríkin (nær ekki til Kína).

Á það hefur verið bent að framlag Íslands[4] til Græna loftslagssjóðins sé ekki í samræmi við auðlegð þjóðarinnar. Svo er um mörg önnur ríki.

Í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 27. september sl. sagði utanríkisráðherra að Ísland hefði frá árinu 2018 rúmlega tvöfaldað fjárframlag sitt til að alþjóðlegra loftslagsagerða. Fjórföldun hefði verið nær lagi til að Ísland geti borið sig saman við önnur Norðurlönd.

Árni Finnsson

[1] COP, Conferenceof the Parties, árlegur fundur aðildarríkja Loftslagssamnings Sþ.

[2] Á ensku Small Island Developing States (SIDS). Þessi ríki hafa í krafti samstöðu sinnar náð miklum árangri í samningaviðræðum.

[3] “… the individual share and commitments of each country is then determined by commonly agreed rules.“

 

[4] Other nations that provided less than half of their fair share were Greece, Iceland, New Zealand and Portugal. In total, more than a dozen developed countries were falling short of their responsibilities.