Orkuskipti og hertar ETS-reglur

Í nýútkominni Stöðuskýrslu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum eru vistvæn ökutæki skilgreind sem „þau ökutæki sem ganga að öllu eða mestu leyti fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum, s.s. rafmagni, metani og vetni. Tengiltvinnbílar falla undir þennan flokk en tvinnbílar gera það ekki.“

Hæpið er að þessi skilgreining standist enda hefur verið sýnt fram á að tengiltvinnbílar ganga að mestu fyrir bensíni eða dísilolíu. Ívilnanir til kaupa á tengiltvinnbílum standast ekki kröfur um ábyrga loftslagsstefnu. 

Hlutfall „vistvænna ökutækja“?
Á bls. 32 segir: „Þá er hlutfall vistvænna ökutækja yfir helmingur nýskráninga.“ Í skýrslunni segir að 24% nýskráðra ökutækja hafi verið rafbílar árið 2020. Metanbílar voru um1%. og því voru 75% allra nýskráðra ökutækja 2020 með vélum sem losa ghl.   

Á bls. 10 segir: “Hlutfall hreinna rafbíla af heildarsölu fólksbíla hækkaði úr 8% árið 2019 í 24% árið 2020.“ Þetta er hæpin viðmiðun því árið 2020 keyptu bílaleigur ekki nýja bíla. Eðlilega lækkaði því hlutfall bensín- og dísilbíla árið 2020 miðað við 2019.

Í skýrslunni segir ennfremur að innleiddar hafi verið „reglur sem skylda ríkisaðila til að kaupa vistvænar bifreiðar“. Því miður segir það lítið um hversu mikið „vistvænar bifreiðar“ menga. Er það 100 grömm af CO2 á hvern ekinn km eða eru það 30 g?

Þingsályktun um orkuskipti
Vorið 2017 samþykkti Alþingi þingsályktun þar sem kveðið er á um þetta: „Reiknað verði út hvaða áhrif aðgerðaáætlun um orkuskipti hafi á samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda með tilliti til skuldbindinga Íslands í loftslagsmálum …“ Ekki verður séð að þessir útreikningar hafi verið gerðir enn.

„Á tímabilinu 2013 – 2020 fengu Alcan á Íslandi hf., Alcoa Fjarðaál sf., Norðurál Grundartanga ehf og Elkem Iceland úthlutað endurgjaldslaust samtals 11.492.891 tonnum af CO2-ígildum. Nemur það um 80% af losun gróðurhúsalofttegunda (ghl) frá þessum rekstraraðilum.

Stóriðjufyrirtæki eða Landsvirkjun fyrir þeirra hönd vilja að ríkið greiði niður kaup stóriðjunnar á losunarheimildum.

Frá því að viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir (ETS) var innleitt árið 2005 er talið að losun hafi minnkað um 30% í þeim iðnaði sem heyrir undir ETS-kerfið en sú minnkun nær fyrst og fremst til kolaorkufyrirtækja. Fyrirtæki sem framleiða hrávörur á borð við ál, sement eða stál hafa staðið í stað.  

Markmið Evrópusambandsins er að losun í geirum sem falla undir ETS minnki um 61% fyrir 2030 miðað við 2005. Var 43%. Markaður með losunarheimildir innan ETS mun einnig taka til losunar frá skipum, bæði innan lands og milli landa. 

Verði íslensk stjórnvöld við við kröfum stóriðjufyrirtækja um endurgreiðslu á kostnaði vegna kaupa á losunarheimildum verður ekki sagt að reglur ETS verði hertar hér á landi. Hætt er við að fyrirtæki innan ETS fái losunarheimildir gefins til ársins 2035. Engar vísbendingar eru um að álfyritæki hér á landi áformi samdrátt í losun ghl.

Samantekt
Stöðuskýrslan veitir nauðsynlegar upplýsingar um árangur stjórnvalda við að draga úr losun ghl en orkuskipti ganga allt of hægt. Merkingarlaus hugtök á borð við „vistvæn ökutæki“ eru villandi. Jafnframt er ljóst að stóriðjufyrirtæki innan ETS sleppa við greiða fyrir losunarheimildir sínar.  Hvatinn til að fjárfesta í nýrri og loftslagsvænni tækni hverfur. Hið sama á við um bindingu koltvísýrings í bergi.