Sjá athugasemdir Náttúruverndarsamtaka Íslands við þingsályktunartillögu iðnaðarráðherra um aðgerðaáætlun um orkuskipti. Þar vantar sitt hvað upp á. Einkum og sér í lagi það, að aðgerðaáætlunin er ekki í neinu samhengi við loftslagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Sú stefna (sóknaráætlunin) ku enn vera í mótun enda hafa engin skýr markmið um samdrátt í losun enn verið sett. Iðnaðarráðherra getur t.d. ekki um hversu mikið orkuskipti muni draga úr losun ghl.

Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Íslands, haldinn í ReykjavíkurAkademíunni 22. ágúst 2016, lýsir eftir loftslagsstefnu stjórnvalda. Hvergi hefur komið fram hvað orkuskipti í samgöngum muni draga mikið úr losun, svo dæmi sé tekið.

Við undirbúning og eftirfylgd Parísarráðstefnunnar hafa íslensk stjórnvöld ekki kynnt skýr markmið um hversu mikið Ísland hyggst draga úr losun gróðurhúsalofttegunda (ghl) á tímabilinu 2021–2030. Einungis hefur komið fram að Ísland muni taka þátt í sameiginlegu markmið aðildarríkja ESB um samdrátt í losun ghl. um 40% fyrir árið 2030, miðað við 1990.

Alþingi ber að fullgilda Parísar-samkomulagið án tafar

Við undirritun Parísar-samkomulagsins í New York 22. apríl, lýsti norski umhverfsisráðherrann, Vidar Helgesen því yfir skýrt og skorinort að norsk stjórnvöld stefndu að fullgildingu samkomulagsins fyrir lok júní. Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra gaf ekkert upp um áform íslenskra stjórnvalda í ræðu sinni í New York. Í grein utanríkisráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, í Fréttablaðinu í dag segir heldur ekkert um hvenær utanríkisráðherra hyggst leggja fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um fullgildingu.

Síða 3 af 3