Hinn 19. mars sl. skilaði þingmannanefnd skýrslu til utanríkisráðherra með tillögum að endurskoðaðri Norðurslóðastefnu. Utanríkisráðherra mun á grundvelli tillagna nefndarinnar fljótlega leggja fram tillögu til þingsályktunar um nýja stefnu í málefnum Norðurslóða.

Gert er ráð fyrir að Alþingi samþykki nýja ályktun nú í vor í stað þeirrar sem samþykkt var árið 2011.

Náttúruverndarsamtök Íslands fagna skýrslu þingmannanefndarinnar. Einkum þeirri niðurstöðu nefndarinnar, að:

Brýnt er að vinna gegn mengunarógn í norðurhöfum, svo sem afvöldum olíuleka, eiturefna, geislavirkra efna eða plastúrgangs. Ef olía lekur í hafið á norðurslóðum getur hún setið í langan tíma í umhverfinu og valdið miklum skaða á lífríki, þar sem hún brotnar mjög hægt niður, auk þess sem hafís, kuldi og slæm veðurskilyrði geta torveldað hreinsun. Notkun svartolíu í skipasiglingum á norðurslóðum er sérstakt áhyggjuefni. Ekki aðeins er mjög erfitt að hreinsa upp svartolíu ef mengunarslys verður á hafi, heldur losnar meira af sóti og mengunarefnum út í andrúmsloftið við brennslu hennar en annarra olíutegunda. Sótmengun í andrúmslofti ógnar heilsu manna og sótagnir sem setjast á ísbreiður hraða auk þess hlýnun með því að draga í sig varma og flýta bráðnun. Í aðgerðaáætlun íslands í loftslagsmálum er kveðið á um að kröfur um eldsneytisnotkun í íslenskri landhelgi verði áfram hertar til að draga úr notkun svartolíu og reglugerð þess efnis tók gildi í byrjun árs 2020. Mikilvægt er að norðurskautsríkin leggist á eitt um markvissar aðgerðir til að draga úr og á endanum banna brennslu og flutning svartolíu í norðurhöfum, og beiti sér í þá veru á vettvangi Alþjóðasiglingamála-stofnunarinnar. Leggja þarf áherslu á vistvæn orkuskipti í samgöngum jafnt á sjó, landi og í lofti.

Hlýnunarmáttur sótagna (black carbon) sem losna við bruna á svartolíu er 680 x meiri en losun af sama magni koltvísýrings yfir 100 ára tímabil og 2200 x meiri hlýnunarmátt yfir 20 ára tímabil. Því er ljóst að bann við svartolíu myndi gefa lífsnauðsynlegt andrými til að takast á við loftslagsvánna sem kann að reynast óviðráðanleg ef ekki verður gripið til raunhæfra aðgerða.
 
Þingmannanefndin leggur meðal annars til að dregið verði

... úr notkun jarðefnaeldsneytis á norðurslóðum, þar á meðal hætta brennslu á svartolíu í siglingum, að bæta aðgengi að endurnýjanlegum orkugjöfum og e-efla aðgerðir sem tryggja orkuskipti.
 
Mikilvægt er að íslensk stjórnvöld banni alfarið notkun og flutning á svartolíu innan 12 mílna landhelgi Íslands.
 
Í þessari viku - 22. - 26. mars - fer fram á vegum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) í London fundur þar sem meðal annars er tekist á um svartolíubann.


Fyrir 10 árum var svartolía var bönnuð sunnan 66. gráðu suðlægrar breiddar en það "bann" sem samþykkt hefur verið fyrir Norðurslóðir en á árunum 2015 - 2019 hefur losun sótagna (black carbon) frá siglingum um Norðurslóðir aukist um 72% frá skipum sem brenna svartolíu og um 85% frá öllum skipum sem sigla um Norðurslóðir
 
Náttúruverndarsamtök Íslands eiga aðild að Clean Arctic Alliance, sem eru regnhlífarsamtök sem vinna að banni við notkun og flutningum á svartolíu um Norðurhöf.

 

 




 

Twitter
Facebook
Website