Hvernig orkar fegurð jökla á okkur? Hvers vegna hrífumst við af þeim? Hvaða þýðingu hefur það fyrir okkur sem manneskjur ef jöklarnir hverfa?

Fræðimaðurinn Þorvarður Árnason við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði svarar spurningunni um tilurð kvikmyndarinnar After Ice með framangreindum spurningum. Vissulega segja þessar spurningar á suman veg meira en flókin svör í löngu máli um afleiðingar þess að jöklar Íslands bráðni. Myndin After Ice verður frumsýnd á fjölmörgum netveitum þann 11. mars nk. en hana vann Þorvarður í félagi við Kieran Baxter, sem er vísindamaður og kennari í samskiptahönnun við Háskólann í Dundee í Skotlandi.

Í myndinni er tekist á við áskoranir mannkyns út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og sjónum beint að áhrifum loftslagsbreytinga á jökla með framangreindar spurningar að leiðarljósi að sögn Þorvarðar. Kveikjan að þessu verkefni var ekki bara brennandi áhugi þeirra Kierans á mynd- og snjallmiðlun því að baki liggur sameiginleg ástríða beggja fyrir jöklum og jöklalandslagi, einkum frá fagurfræðilegu sjónarhorni. Þulartextinn í stuttmyndinni er líka ljóðrænn en hann er að mestu úr smiðju M Jackson, jöklafræðings og rithöfundar, en hún hefur tvívegis verið Fulbright-styrkþegi við Rannsóknasetrið á Höfn.