Alþingi ber að fullgilda Parísar-samkomulagið án tafar

Við undirritun Parísar-samkomulagsins í New York 22. apríl, lýsti norski umhverfsisráðherrann, Vidar Helgesen því yfir skýrt og skorinort að norsk stjórnvöld stefndu að fullgildingu samkomulagsins fyrir lok júní. Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra gaf ekkert upp um áform íslenskra stjórnvalda í ræðu sinni í New York. Í grein utanríkisráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, í Fréttablaðinu í dag segir heldur ekkert um hvenær utanríkisráðherra hyggst leggja fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um fullgildingu.

Spurð hvort Ísland myndi ekki ganga frá fullgildingu Parísar-samkomulagsins nú í maí svaraði Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra því til, að vinna við fullgildingu Parísar-samkomulags sé hafin og fylgst verði „… mjög vel með hvað Norðmenn gera og ljúka samkomulaginu með sóma á þessu þingi. Það þætti mér mjög ákjósanlegt.“

Margt bendir til að Parísar-samkomulagið geti orðið að alþjóðalögum fyrir árslok, 30 dögum eftir að 55 ríki sem losa a.m.k. 55% af heimslosuninni hafa fullgilt samkomulagið eða gerst aðilar að því með öðrum hætti. Í tengslum við undirritun samkomulagsins í New York benti utanríkisráðherra Bandaríkjanna, John Kerry, á að ríki sem ábyrg eru fyrir um 50% af heimslosuninni hafi nú þegar heitið því að fullgilda það í ár, þ.m.t. Bandaríkin og Kína sem losa um 38,02% af heildinni. Hið sama gildir um Brasilíu og þá eru komin þrjú ríki sem losa 40,49%, auk 15 láglendra eyríkja sem þegar hafa gerst aðilar að samkomulaginu.

 

Skuldbindingin
Í Parísar-samkomulaginu er viðurkennt að framkomin landsmarkmið (INDC)[1] allra aðildarríkja Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna dugi ekki til að halda hlýnun andrúmslofts jarðar innan tveggja gráða á Celsíus, líkt og samþykkt var í Kaupmannahöfn 2009. Hvað þá að takmarka hlýnunina við 1,5°C sem var samþykkt í París.

Í ljósi þessa varð að samkomulagi í París að ríki endurskoði markmið sín fyrir árið 2018 með það að markmiði að leggja fram ný landsmarkmið árið 2020 þegar frestur til að skila inn nýjum landsmarkmiðum rennur út.

Miðað við þau landsmarkmið sem kynnt voru fyrir ráðstefnuna í París stefnir í hlýnun umfram 3°C á þessari öld og því fyrir öllu að aðildarríkin, þar með talin Evrópusambandið, Ísland og Noregur, endurskoði markmið sín hið fyrsta til að geta gert grein fyrir því strax árið 2018 hvernig þau hyggist draga úr útblæstri um 55% fyrir árið 2030 miðað við 1990.

Hagsmunir Íslands snúa ekki síst að verndun hafsins. Sjá einnig hér.

 

Kvöldverður í Washington
Í næstu viku býður Barack Obama, Bandaríkjaforseti, forsætisráðherrum Norðurlandanna til leiðtogafundar í Hvíta húsinu. Væntanlega mun Obama forseti nýta tækifærið til að fara fram á óskoraðan stuðning Norðurlandanna við það markmið hans að Parísar-samkomulagið verði að alþjóðalögum fyrir árslok; eitt af helstu markmiðum Obama áður en hann lætur af embætti í janúar 2017.

Evrópusambandið kallar eftir fullgildingu eins fljótt og nokkur kostur er, en viðurkennir að sambandið (þ.e. Evrópuþingið) geti ekki fullgilt samkomulagið fyrr en öll aðildarríkin 28 hafa fullgilt það heima fyrir, en Pólland og fleiri ríki draga lappirnar. Á hinn bóginn má telja fullvíst að forsætisráðherrar Danmerkur, Finnlands og Svíþjóðar muni fullvissa Obama forseta um að þessi ríki muni fullgilda samkomulagið fljótlega og leggja sitt af mörkum til að ýta á eftir öðrum aðildarríkjum ESB að gera hið sama. Afstaða Noregs liggur fyrir.

Ísland sem losar 0,01% af  heildarlosuninni vegur ekki þungt hvað varðar hlutfall af heimslosuninni. Á hinn bóginn er Ísland 1,81% af þeim 55 ríkjum sem þarf til að Parísar-samkomulagið verði að alþjóðalögum. Innan Sameinuðu þjóðanna hefur hver þjóð eitt atkvæði, óháð stærð.

Spurningin er þá hverju forsætisráðherra Íslands, Sigurður Ingi Jóhannsson, mun svara umleitan Bandaríkjaforseta.

 

Virðingarfyllst,
Árni Finnsson.


[1] Intended Nationally Determined Contributions, aðgerðir ríkjanna til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.