Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Íslands, haldinn í ReykjavíkurAkademíunni 22. ágúst 2016, lýsir eftir loftslagsstefnu stjórnvalda. Hvergi hefur komið fram hvað orkuskipti í samgöngum muni draga mikið úr losun, svo dæmi sé tekið.

Við undirbúning og eftirfylgd Parísarráðstefnunnar hafa íslensk stjórnvöld ekki kynnt skýr markmið um hversu mikið Ísland hyggst draga úr losun gróðurhúsalofttegunda (ghl) á tímabilinu 2021–2030. Einungis hefur komið fram að Ísland muni taka þátt í sameiginlegu markmið aðildarríkja ESB um samdrátt í losun ghl. um 40% fyrir árið 2030, miðað við 1990.

Nýjustu skýrslur umhverfisyfirvalda sýna að frá 1990 hefur losun gróðurhúsalofttegunda aukist verulega hér á landi. Losun vegna flutninga á vegum hefur aukist um 50%, losun frá samgöngum í heild hefur aukist um 39% og losun frá úrgangi hefur aukist um 35%.

Bílainnflutningur slær nú öll met, ekki síst innflutningur á stærri gerðum lúxusbíla sem menga mikið. Þessir bílar verða á götunum árið 2030 þegar skuldbindingartímabil Parísar-samkomulagsins lýkur. Engin stefna hefur verið mótuð til að hafa áhrif á þessa þróun.

Þrátt fyrir þann góða árangur sem náðist á Parísar-ráðstefnunni er vert að hafa í huga að markmið þess um samdrátt duga ekki til að halda hlýnun andrúmsloftsins undir 2°C að meðaltali líkt og samþykkt var á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn árið 2009, hvað þá 1,5°C líkt og Parísar-samkomulagið kveður á um. Í besta falli mun Parísar-samkomulagið, í núverandi mynd, takmarka hlýnunina við 2,7 gráður.

Með öðrum orðum; aðildarríki loftslagssamningsins verða að gera enn betur ef þau ætla að halda hlýnun undir 2°C, sem í tilfelli Evrópusambandsins felur í sér 55% samdrátt fyrir árið 2030.

Íslenskir ráðamenn halda því mjög á lofti að hlutfall hreinnar orku á Íslandi sé hið hæsta í heimi, eða 71%. Í Noregi er hlutfallið 69%. Engu að síður hafa norsk stjórnvöld lýst því yfir að þau muni draga úr losun um 40%, óháð samningum við Evrópusambandið um þátttöku í sameiginlegu markmiði þess um 40% samdrátt.

Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Íslands áréttar kröfu sína um að stjórnvöld móti sér skýra og metnaðarfulla stefnu í loftslagsmálum og kynni markmið sín opinberlega, hið fyrsta.