Parísarsamkomulagið, helstu atriði:

  • Í desember 2015 náðist í París samkomulag um að takmark hnattræna hlýnun andrúmsloftsins vel undir 2°C að meðaltali miðað við fyrir iðnbyltingu, eða um 1850. Jafnframt, skyldi stefnt að því að hlýnun verði ekki meiri en 1,5°C en við þau mörk munu láglend eyríki hverfa í hafið.
  • Heimslosun gróðurhúsalofttegunda skal ná hámarki eins fljótt og kostur er og síðan minnka.
  • Aðildarríki Loftslagssamningsins skulu fimmta hvert ár frá 2020 leggja fram endurskoðuð áform* um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og endurskoðun landsmarkmiða ríkja skal einnig fara fram fimmta hvert frá og með árinu 2018. Með öðrum orðum, árið 2018 hefst vinna við endurskoðun þeirra markmiða sem kynnt verða árið 2020. Viðurkennt er að markmið Parísarsamkomulagsins duga ekki til að halda hlýnun jarðar undir 2°C og í því ljósi afar brýnt að endurskoða markmiðin, auka metnaðinn.
  • Einn mikilvægasti hluti samkomulagsins var að iðnríkin skuli styrkja þróunarríkin með 100 milljarða dollara framlagi á ári til aðstoða þau við nýtingu hreinnar orku og við aðlögun vegna neikvæðra áhrifa lofttslagsbreytinga.
  • Parísarsamkomulagið varð að alþjóðalögum 4. nóvember 2016 eftir að skilyrðum þar um hafði verið fullnægt.

*Ríki eða ríkjasambönd setja sér markmið sjálf. Ísland ásamt Noregi er í samfloti með ríkjum Evrópusambandsins sem hafa sameiginlega sett sér markmið um að draga úr losun 40% á tímabilinu 2021 – 2030. Viðmiðunarárið er 1990.

Í júlí 2016 féllst Noregur á tillögu Evrópusambandsins um að draga úr losun um 40%. Sjá einnig hér. Tillögur ESB miðast við þjóðarframleiðslu á mann og mat umhverfisráðherra er að krafa um hlutdeild Íslands verði á bilinu 35 – 40%. Ekki er kunnugt um hvort Íslandi hafi borist sams konar tillögur og kynntar voru aðildarríkjum ESB og Noregi í júlí 2016.