Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir fullyrti í sjónvarpinu í gærkvöld að Ísland hefði uppfært loftslagsmarkmið sitt í 55% samdrátt. Þetta er rangt.
 
Hinn 18. febrúar sl. tilkynnti Ísland skrifstofu loftslagssamningsins að landið ætlaði ásamt ESB og Noregi að draga úr losun um 55% fyrir 2030. Það þýðir ekki að Ísland ætli að draga úr losun um 55%, líkt og skilja mátti á forsætisráðherra í gær.


Í tilkynningu Íslands til samningsins segir:
 
"Iceland’s enhanced ambition target of 55 per cent net emissions reduction refers to the joint target of the countries involved; the individual share and commitments of each country is then determined by commonly agreed rules.“
 
Þetta er alveg skýrt. Enn er ósamið um hlut hvers ríkis.
 
Í viðtali við fréttastofu RÚV 10. des. sl. sagði forsætisráðherra að hlutur Íslands gæti orðið á bilinu 40 – 45%. Í nýlegu viðtali við RÚV upplýsti umhverfisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, að hann geti ekki svarað því hvað kemur í hlut Íslands, ...“ Hann telur þó að hann verði ekki lægri en 40%. Skv. fyrri stefnu Evrópusambandsins um 40% skerðingu í losun er hlutur Íslands 29%.

Ísland styður markmið Parísarsamningsins um að takmaraka hlýnun Jarðar við 1,5°C. Í heild er framlag Evrópusambandsríkjanna, Íslands og Noregs er 55%. Einstök Evrópuríki hafa sett sér mun metnaðarfyllri markmið en svo. Svíþjóð stefnir að 63% minni losun árið 2030, Danmörk 70% og Noregur 50 – 55%. Ísland á hinn bóginn hefur enga stefnu sett sér aðra en að vera „í samfloti með ESB og Noregi.“
 
Hvað vill Ísland gera til að koma í veg fyrir að andrúmsloftið hlýni umfram 1,5°C?
 
Samstarfsflokkar Vinstri Grænna í ríkisstjórn hafa lítið látið uppi um hversu mikið Ísland skuli draga úr losun fyrir árið 2030. Ætla verður að innan ríkisstjórnar séu ráðherrar ekki á eitt sáttir um hvert framlag Ísland skuli vera.