Tíu atriði sem allir verða að vita um loftslagsbreytingar
Johan Rockström og félagar í Earth League

 
1. Við erum stödd á nýju tímabili í jarðsögunni – The Anthropocene: Manntími
Á nútíma (e. holocene), síðastliðin 11.000 ár, hefur loftslag á Jörðinni verið stöðugt og meðalhitastig sveiflast fram og til baka um eina gráðu. Vísindamenn telja að aukið magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti, súrnun sjávar og þynning ósonlagsins séu vísbendingar um að á Jörðinni ríki nú manntími [innskot: Tímabil þar sem maðurinn hefur afgerandi og mótandi áhrif á Jörðina sjálfa og allt líf á henni.].

2. Jörðin nálgast vendipunkt
Jarðsagan sýnir að loftslagsbreytingar gerast ekki jafnt og þétt heldur skiptast á löng tímabil með hægfara breytingum og skyndileg umskipti. Við eigum í hættu á að fara yfir vendipunkt eða vendipunkta og hrinda þannig af stað miklum, varhugaverðum breytingum, og þá verður aldrei aftur snúið. Við einnar til þriggja gráðu hlýnun eykst hættan meðal annars á óstöðvandi bráðnun hluta Grænlandsjökuls og Suðurskautslandsins og að við töpum mörgum kóralrifum.

3. Hættan á veðuröfgum eykst
Losun gróðurhúsalofttegunda samhliða hlýnun Jarðar veldur því að mun meiri orka byggist upp í hafinu og andrúmsloftinu en áður. Hitabylgjur hafa verið tíðari síðastliðin 50 ár og að öllum líkindum hefur öfgakennt regnveður einnig orðið algengara á liðnum áratugum. 

4. Sjávarborð hækkar og hafið súrnar
Hafið hefur tekið við og geymir 93% af hlýnun Jarðar vegna sívaxandi losunar gróðurhúsalofttegunda í kjölfar iðnbyltingar. Hlýr sjór þenst út og veldur því, ásamt viðbótar ferskvatni frá bráðnandi jöklum og á norður- og suðurkauti jarðar, að sjávaryfirborð hækkar. Við lok þessarar aldar er talið að yfirborð sjávar hafi hækkað um einn metra.
 
Hafið súrnar eftir því sem koltvísýringsinnihald þess eykst. Súrnun sjávar hefur ekki verið jafn hröð og nú síðastliðnar 56 milljónir ára, en þá varð umfangsmikill útdauði tegunda í hafinu.

5. Loftslagsbreytingar eru kostnaðarsamar og verða ennþá dýrari í framtíðinni
Samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum leiðir einnar gráðu hlýnun í landi þar sem meðalhiti er 25°C til þess að framleiðni lands á hverja manneskju minnkar um 1,5%. Ef losun heldur áfram að aukast er hætta á að framleiðni lands minnki um 1/10 í fátækum löndum og einnig þeim löndum þar sem þjóðartekjur á mann eru nálægt meðaltali.

6. Loftslagsbreytingar eru skaðlegar heilsunni
Rannsóknir sýna að hlýnun jarðar að minnsta kosti tvöfaldaði líkurnar á hitabylgjunni sem geisaði í Evrópu árið 2003 og varð 70.000 manns að bana. Hætta er á að uppskera minnki um 3-7% fyrir hverja gráðu hlýnunar og loftslagsbreytingar gera vatnsskort ennþá erfiðari viðureignar.

7. Loftslagsbreytingar reka fólk á flótta
Árið 2015 höfðu meira en 19 milljónir manna neyðst til að yfirgefa heimkynni sín vegna náttúruhamfara og veðuröfga. Hækkandi sjávarmál veldur því að milljónir manna gætu þurft að yfirgefa heimkynni sín, langflestir í Asíu.

8. Draga þarf úr losun um helming hvern áratug
Til að komast hjá hlýnun um tvær gráður verður að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í síðasta lagi árið 2020 og nettólosun [innsk.: losun að bindingu frádreginni] verður að vera núll í kringum 2050-2060. Samhliða þessu þarf að vernda þau vistkerfi á hafi og landi sem binda koltvísýring.
Til að okkur takist að halda hlýnun innan 1,5°C að meðaltali er einnig nauðsynlegt að binda og geyma koltvísýring í miklu magni. Þumalputtareglan er sú að ef losun helmingast hvern áratug er líklegra að markmiðum Parísarsamkomulagsins verði náð.
Við tökum líka skref í rétta átt. Í meira en áratug hefur framleiðsla endurnýjanlegrar orku tvöfaldast á fimm og hálfs árs fresti. Með þessu áframhaldi gæti losun frá orkuframleiðslu orðið engin um miðja þessa öld.

9. Það er lykilatriði að verðleggja losun gróðurhúsalofttegunda (kolefnisgjald)
Með verðmiða á losun koltvísýrings verður umhverfisvæn og orkusparandi tækni samkeppnishæfari. Samkvæmt tölum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er hvert tonn koltvíoxíðs niðurgreitt um ca. 150 bandaríkjadali. Efla þarf rannsóknir til að endurnýjanleg tækni vaxi að því marki sem nauðsynlegt er.

10. Aðlögun að breyttu loftslagi verður nauðsynleg, jafnvel þótt losun minnki umtalsvert
Jafnvel þótt við náum að halda okkur innan tveggja gráðu marksins verður heimurinn að aðlagast breyttu loftslagi.
Af öllu þessu er ljóst að staðan er alvarleg og nú eru síðustu forvöð að draga úr losun.

Heimild: Elias Rosell, Supermiljöbloggen.
Þýðing úr sænsku: Náttúruverndarsamtök Íslands
Skýrslan öll á ensku.
 
-----

Staðan á Íslandi
Gallup kynnti fyrr í vikunni niðurstöður könnunar sem sýnir að 66% Íslendinga telja að Íslenskir stjórnmálamenn geri of lítið til að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.

Í könnun fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands sem Gallup framkvæmdi í september 2015 kom fram að 67,4% aðspurðra telja mikla þörf á að sttjórnvöld grípi tli aðgerða til að draga úr losun hér á landi.

Losun gróðurhúsalofttegunda hefur aukist hér á landi um 26% frá árinu 1990 en minnkað um 26% í öðrum Evrópuríkjum. Fátt bendir til að Ísland muni standa við skuldbindingar sínar samkvæmt Kyoto-bókuninni á tímabilinu 2013 - 2020 og enn - árið 2018 - hefur stjórnvöldum ekki lánast að ljúka aðgerðaáætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.