Stofnfundur 1997

Arni Finnsson    29.5.1997
Arni Finnsson
Fréttatilkynning:
Framhaldsstofnfundur Náttúruverndarsamtaka Íslands (NSÍ) var haldinn fimmtudagskvöld 29. maí kl 20:00 - 22:00 í stofu 101 í Lögbergi þar sem samþykkt voru lög fyrir samtökin, stefnuyfirlýsing og kjörin stjórn.
Í 1. grein laga samtakanna segir að "Samtökin heita Náttúruverndarsamtök Íslands og varnarþing þeirra er í Reykjavík. Starfsvæði félagsins er landið allt. Samtökin starfa óháð opinberum aðilum og hagsmunaaðilum hvers konar."

Markmið samtakanna er að vera málsvari umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiða. Verndun náttúru Íslands til láðs, lagar og lofts er í senn alþjóðlegt og íslenskt málefni. Þessum markmiðum hyggst félagið ná meðal annars með því að:
- Veita stjórnvöldum og framkvæmdaaðilum gagnrýnið aðhald.
- Tryggja upplýsingastreymi til almennings.
- Vinna að bættri lagasetningu í þágu umhverfis- og náttúruverndar.
- Efla samstarf við systursamtök hérlendis og erlendis.
- Færa alþjóðlega umræðu nær almenningi.
- Efla vitund almennings um umhverfismál og náttúruvernd.
- Fræða almenning um gildi náttúrunnar.
- Stuðla að því að stjórnvöld virði alþjóðlegar skuldbindingar í umhverfismálum
- Afla fjár til starfsemi sinnar.

Eitt helsta baráttumál NSÍ er verndun hálendis Íslands og náttúru almennt. Auk þess munu samtökin beita sér í málum er varða verndun sérstæðra náttúrufyribæra, jarðvegsrof og landgræðslu, verndun lífríkis sjávar, andrúmsloftið, endurskoðun laga um náttúruvernd, alþjóðlega samvinnu um náttúruvernd og endurnýtingu.

Náttúruverndarsamtök Íslands leggja þann skilning í hugtakið um sjálfbæra þróun að meginboðskapurinn sé að móta nýjar reglur um það hvernig nýta megi auðlindir jarðar án þess að komandi kynslóðir beri skarðan hlut frá borði. Draga beri úr hefðbundinni neysluhyggju, en breyta neysluvenjum í átt að betri nýtni og efla þannig þátt annarra gilda sem forsendu fyrir lífsánægju og hamingju.

Nýkjörna stjórn NSÍ skipa Árni Finnsson, Brynja Valsdóttir, Hilmar Malmquist, Hulda Steingrimsdóttir og Jóhann Þórsson.
Varamenn voru kjörnir Glóey Finnsdóttir og Jóhann Bogason.
Reykjavík 30. maí 1997 natturuvernd.png 

Vista sem PDF