Fullgilding Íslands á VI. Viðauka MARPOL-samningsins

   22.2.2018

Fullgilding Íslands á VI. Viðauka MARPOL-samningsins
-um loftmengun frá skipum

Í dag 22. febrúar tekur gildi fullgildging Íslands á VI. Viðauka MARPOL-samningsins um loftmengun frá skipum. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir, að „… stefnt [sé] að banni við notkun svartolíu í efnahagslögsögu Íslands.” Um er að ræða afar mikilvægt markmið til verndar norðurslóðum. 

Meiri varkárni gætti í skriflegu svari umhverfisráðherra við fyrirspurn tveggja þingmanna Pírata en þar segir, að

Ráðuneytið vill athuga hvort grundvöllur sé fyrir útnefningu ECA-svæðis í íslenskri lögsögu eða í hluta hennar og mun fela Umhverfisstofnun að skoða það og skila greinargerð nú í vor.

Ennfremur sagði ráðherra, að

… Það er því ekki víst að hert regluverk um loftmengun frá skipum leiði endilega til algjörs banns á notkun svartolíu. 

Orkustofnun gerir ráð fyrir að

Notkun svartolíu er talin munu hverfa á spátímabilinu [2016 – 2050] sökum krafna um að nota eldsneyti sem hefur minni umhverfisáhrif og færist sú notkun yfir á gasolíu.

Eftir hverju er beðið?

Bruni svartolíu veldur meiri losun gróðurhúsalofttegunda en bruni gasolíu. Auk þess er meiri losun óæskilegra loftmengandi efna, s.s. brennisteinsdíoxíðs, sóts, blýs og díoxíns. Sótið flýtir flýtir bráðnun þegar það sest á ís og jökla en magn sóts sem myndast við bruna svartolíu er fimmfalt á við það sem myndast við bruna á léttari olíu.

Samkvæmt þeim gögnum sem Náttúruverndarsamtök Íslands hafa aflað er ljóst að áhrifamiklir aðilar hér á landi telja sig hafa mikla hagsmuni af að halda áfram að brenna svartolíu til að knýja flutningaskip, togara eða fiskibræðslur.

Í skýrslu Orkustofnunar kemur fram að að íslensk fiskiskip hafi keypt um 11.000 tonn af eldsneyti erlendis árið 2014 - ekki sundurgreint eftir olíutegund og því óvíst hversu hátt hlutfall svartolía er í þeim kaupum.

Ennfremur skortir allar upplýsingar um hversu mikið af svartolíu er brennt í efnahagslögsögu Íslands. Vegna eiginleika svartolíu myndi alvarlegt óhapp nærri Íslandsströndum, t.d. olíuleki frá skemmtiferðaskipi, geta valdið gríðarlegu og langvinnu tjóni í vistkerfi hafsins lífríki sjávar.

Brýnt er að stjórnvöld beiti sér þegar í stað fyrir því að íslensk fyrirtæki hætti að brenna svartolíu.

Það er ámælisvert að útgerðamenn sem hafa nýtt sér greiðan aðgang að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar og auðgast vel, stuðli að eyðileggingu vistkerfisins með bruna svartolíu.

Nokkrir íslenskir aðilar hafa undirritað áskorun um skuldbingu til að hætt verði að nota svartolíu. Náttúruverndarsamtök Íslands eiga aðild að Clean Arctic Alliance.

Til upplýsingar sjár hér.

 

MyndB.png 

Vista sem PDF