Drög að skýrslu stjórnar - Tillaga að ályktun aðalfundar 2017

   23.8.2017

Sjá hér drög að skýrslu stjórnar fyrir starfsárið 2016 - 2017

Vandamál í tengslum við fiskeldi í opnum sjókvíum hafa hrannast upp undanfarin ár. Fiskeldisiðnaðurinn hefur neitað að horfast í augu við þau, enda mikill hagnaður í boði og yfirvöld hafa jafnvel stutt við starfsemina í von um að skapa störf í dreifðum byggðum.

Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Íslands haldinn miðvikudaginn 23. ágúst 2017 mótmælir því að haldið verði áfram á þeirri braut að auka sjókvíaeldi við Íslandsstrendur. Rannsóknir og reynsla annarra þjóða sem stunda laxeldi í opnum sjókvíum er sú að smitsjúkdómar, sníkjudýr og sleppifiskar munu óhjákvæmilega skaða lífríki í ám og vötnum hér á landi. Víst er að genablöndun eldislax og villtra laxastofna mun valda óbætanlegu tjóni. Lúsafaraldrar í kringum eldiskvíar stórskaða alla laxfiska, sjóbleikju, sjóbirting og laxaseiði í 100-200 km fjarlægð frá eldiskvíum. Laxar sem sleppa úr sjókvíaeldi geta gengið upp í ár í allt að 2000 km fjarlægð – sem þýðir að laxár hringinn í kringum landið eru í hættu vegna eldis á einum stað. Enn er brotalöm í stjórnsýslunni varðandi leyfisveitingar, reglur um staðsetningu eldiskvía og eftirlit með starfsemi eldisstöðva. Því er þess er krafist að regluverki um fiskeldi verði komið í viðunandi horf og að fylgt verði í hvívetna því óháða áhættumati Hafrannsóknarstofnunar sem komið er fram um þann skaða sem fiskeldi í opnum sjókvíum hefur í för með sér, svo og að fram fari fullkomið mat á verndargildi fiska og fugla áður en frekari framkvæmdaleyfi verði gefin út. Skv. íslenskum lögum og þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem Íslendingar eru bundnir af er ekki heimilt að stunda atvinnurekstur sem spillir umhverfinu með þeim hætti sem stóraukið fiskeldi í opnum sjókvíum myndi gera.

Náttúruverndarsamtök Íslands beina því til fiskeldisfyrirtækja að stefna eingöngu að eldi í lokuðum kerfum, ýmist á landi eða í sjó. Nú þegar  eru um 15-20 lokaðar sjókvíar vítt og breitt í fjörðum Noregs og komin er áralöng reynsla á sumar þeirra. Frá þeim berst engin mengun og enginn fiskur sleppur. Við það bætist að úrgangur frá eldinu berst ekki út í umhverfið en getur nýst til framleiðslu uppi á landi. Tækifæri Íslands í fiskeldi felast í því að vera í fararbroddi í þróun umhverfisvæns fiskeldis í lokuðum kerfum – í stað þess að feta troðna slóð úreltrar tækni sem hefur hvarvetna spillt umhverfinu með varanlegum hætti í nágrannalöndum okkar. 

Skýrsla stjórnar I (PDF).pdf (412,34 KB)
Tögg
Bréfhaus.png 

Vista sem PDF