Aðalfundur 2003

Arni Finnsson    11.6.2003
Arni Finnsson

Skýrsla stjórnar fyrir starfsárið 2002-2003

lögð fram á aðalfundi samtakanna 11. júní 2003


Þær ógnir sem steðja að umhverfi okkar og þær leiðir sem við veljum til tryggja sjálfbæra þróun eru mikilvægustu verkefni samtímans. Daglega eru teknar ákvarðanir sem varða umhverfi okkar af stjórnendum fyrirtækja, í sveitarstjórnum, á Alþingi, í stofnunum ESB, í stofnunum Sameinuðu þjóðanna og af dómstólum á Íslandi og erlendis. Hlutverk frjálsra félagasamtaka er að miðla upplýsingum og krefja valdhafa um ábyrgð gagnvart komandi kynslóðum í anda sjálfbærrar þróunar.

Þess gætir æ meir að fyrirtæki kaupi sér fallega ímynd í umhverfismálum og/eða kosti rannsóknarstofnanir og samtök sem berjast gegn umhverfisvernd með því að véfengja niðurstöður vísindamanna um loftslagsbreytingar, mengun sjávar eða umhverfisáhrif virkjana. Gagnvart slíkum öflum mega umhverfisverndarsamtök sín ekki mikils nema þau eigi stuðning almennings vísan.

Aðalfundur 2002

Aðalfundur Nátúruverndarsamtaka Íslands árið 2002 var haldinn 23. maí. í Nýlistasafni Íslands.

Árni Finnsson kynnti skýrslu stjórnar, sem var dreift til félagsmanna og sett á vefsíðu samtakanna. Lagðir voru fram endurskoðaðir reikningar samtakanna fyrir almanaksárið 2001 til samþykktar.

Árgjald fyrir 2002 var ákveðið kr. 2.500.

Félagslegir skoðunarmenn reikninga fyrir reikningsárið 2001 voru þau Gerður Stefánsdóttir og Þóroddur Fr. Þóroddsson. Þau voru endurkjörin.

Í stjórn samtakanna voru kjörin Árni Finnsson, Ásta Arnardóttir, Hilmar J. Malmquist, Hrafnhildur Hannesdóttir og Ólafur S. Andrésson (aðalmenn) og Guðmundur Páll Ólafsson og Jóhann Bogason (varamenn). Árni, Hilmar og Ólafur voru endurkjörin úr fyrri stjórn.


Starfsemi Náttúruverndarsamtaka Íslands árið 2002
Í maí 2002 var fjöldi félaga í Náttúruverndarsamtökum Íslands að um 750. Nú eru þeir ríflega 1300. Það er aukning um 73 prósent á einu ári og er það frábær árangur. Brýnasta verkefni Náttúruverndarsamtaka Íslands er að ná þeim krafti - fjárhagslega og pólitískt - að fjöldi borgandi félaga verði 3000. Það er nauðsynlegt til að samtökin geti staðið undir rekstri skrifstofu með sómasamlegum hætti. Það er líka nauðsynlegt til að stjórnmálamenn skilji að stór hluti almennings lætur sig umhverfismál og náttúruvernd miklu varða.

Fjölgun félaga má fyrst og fremst þakka framtaki fjölmargra stuðningsmanna sem vilja samtökunum vel og þeim málstað sem þau standa fyrir. Raunar má segja að starf Náttúruverndarsamtaka Íslands það starfsár sem nú er að ljúka hafi fyrst og fremst byggt á framlagi einstakra félaga. Þar má nefna fræðslustarf á Grand Rokk hvern laugardag í allt haust, mótmæli á Austurvelli, mótmælagöngu niður Laugarveg, fund í Austurbæjarbíói til stuðnings verndun Þjórsárvera, fund í Borgarleikhúsinu til stuðnings verndun Kárahnjúkasvæðisins, sjónvarpsauglýsingar, bíóauglýsingar, málshöfðun á hendur umhverfisráðherra og Landsvirkjun, sólstöðuhátíð á Austurvelli, greinaskrif í blöð og margt, margt fleira.

Í fyrra söfnuðust 1 milljón króna til að kosta auglýsingar í sjónvarpi. Öll vinna við gerð auglýsinganna var í sjálfboðavinnu. Boðskapur auglýsinganna var: "Það tapa allir á Kárahnjúkavirkjun" og þær vöktu mikla athygli enda fylgdu auglýsingarnar í kjölfar útkomu skýrslu um óhagkvæmni Kárahnjúkavirkjunar, sem Þorsteinn Siglaugsson, rekstrarhagfræðingur vann fyrir Náttúruverndarsamtökin. Öllum þeim sem að komu eru þökkuð vel unnin störf.

Á fundinum í Borgarleikhúsinu söfnuðust rúmlega 500 þúsund krónur. Andvirðinu var varið til að kosta baráttuna gegn Kárahnjúkavirkjun og verður nánar gerð grein fyrir því í bókhaldi þessa árs á aðalfundi að ári.

Allt frá árinu 1998 hafa World Wide Fund for Nature Arctic Programme, sem hefur aðsetur í Noregi, stutt starfsemi Náttúruverndarsamtaka Íslands með því að greiða laun starfsmanns. Samvinna WWF Arctic Programme og Náttúruverndarsamtaka Íslands hófst um leið og samtökin voru stofnuð í maí 1997 og það hefur munað miklu um þann liðsstyrk sem WWF hefur veitt Náttúruverndarsamtökunum. Stjórn Náttúruverndarsamtaka Íslands þakkar þann stuðning.

Nú er hins vegar svo komið að WWF Arctic Programme treystir sér ekki lengur til að styrkja Náttúruverndarsamtökin. Fyrir því eru margar ástæður, m.a. breyttar áherslur og minna fjárhagslegt svigrúm WWF. Hitt er svo annað mál að náttúruverndarsamtök á Íslandi, sem er eitt ríkasta land heims, eiga að geta séð sér farborða sjálf. Að því verðum við að vinna.

Samstarfsyfirlýsing umhverfisráðuneytisins og frjálsra félagasamtaka
Líkt og fram kom í skýrslu fyrir starfsárið 2000-2001 var samstarfsyfirlýsing frjálsra félagasamtaka og umhverfisráðuneytisins undirrituð þann 20. mars 2001. Yfirlýsingin tekur mið af Árósasamningnum frá 1998, um um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings og réttláta málsmeðferð í umhverfismálum. Samningurinn varð að alþjóðalögum þann 30. október 2001 þegar nægilega mörg ríki höfðu fullgilt hann. Samkvæmt yfirlýsingunni hét umhverfisráðherra því að samningurinn yrði staðfestur af Alþingi vorið 2001. Íslensk stjórnvöld hafa hins vegar enn ekki fullgilt samninginn, líkt og að var stefnt. Að því leyti hefur umhverfisráðherra ekki staðið við gefin fyrirheit. Það sem verra er, umhverfisráðherra hefur unnið gegn þeim markmiðum að tryggja aðgengi að upplýsingum og réttláta málsmeðferð, sbr. kröfu ríkislögmanns um frávísun málshöfðunar Atla Gíslasonar, Guðmundar Páls Ólafssonar, Ólafs S. Andréssonar og Náttúruverndarsamtaka Íslands vegna úrskurðar ráðherra um Kárahnjúkavirkjun frá 20. des. 2001 og niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur 21. maí 2003.

Í samræmi við samstarfsyfirlýsinguna fengu Náttúruverndarsamtök Íslands 1200 þúsund króna rekstrarstyrk fyrir árið 2002, auk 300 þúsund króna í ferðastyrk. Það var nokkuð minni upphæð en hefði orðið ef umhverfisráðherra hefði staðið það samkomulag sem fólst í samstarfsyfirlýsingunni. Nefnilega að meirihluti þess fjár sem veittur er til að styrkja frjáls félagasamtök færi í rekstrarstyrki en ekki styrki til einstakra verkefna. Fæst samtök geta staðið að rekstri slíkra verkefna. Þau eiga nóg með að reka sjálf sig. Umhverfisráðherra ákvað hins vegar að af þeim 8 milljónum sem veittar voru samkvæmt fjárlögum 2002 til að styrkja frjáls félagasamtök á sviði náttúruverndar skyldu einungis 3 milljónir fara í rekstrarstyrki, 900 hundruð þúsund fóru í ferðastyrki og 4,1 milljónir skyldu fara í einstök verkefni. Þannig vildi ráðherran hafa hönd í bagga með hvað samtökin tækju sér fyrir hendur.

Þjórsárver
Þrátt fyrir að Þjórsárveranefnd og Náttúruvernd ríkisins legðust eindregið gegn Norðlingaölduveitu, þrátt fyrir þá niðurstöðu þessara stofnana að Norðlingaölduveita myndi skerða náttúruverndargildi veranna og þrátt fyrir þá niðurstöðu bráðabirgðamats Rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma (kynnt var í lok maí 2002) að umhverfisáhrif Norðlingaölduveitu yrðu mjög mikil en hagkvæmni einungis í meðallagi féllst Skipulagsstofnun á byggingu Norðlingaölduveitu í 575 m.y.s. og 578 m.y.s. Náttúruverndarsamtök Íslands og fjöldi annarra einstaklinga og samtaka kærðu þann úrskurð.

Úrskurður setts umhverfisráðherra, Jóns Kristjánssonar, fól í sér nokkur nýmæli. Munaði þar mestu um að samkvæmt úrskurðinum skyldi Norðlingaöldulón vera alfarið utan friðlandsins í Þjórsárverum. Var úrskurðurinn kynntur með tillögu um lón í 566 m.y.s. auk set/uppistöðulóns fyrir ofan verin, sem í raun var 6. áfangi Kvíslaveitu, en þann áfanga hafði Landsvirkjun áður fallist á að byggja ekki í samræmi við samkomulag í Þjórsárveranefnd.

Landsvirkjun féllst hins vegar ekki á þá tilhögun sem settur umhverfisráðherra kynnti með úrskurðinum og leggur nú allt kapp á að fá samþykki fyrir lón í 568 m.y.s.

Hálendi Íslands - Kárahnjúkavirkjun
Þann 15. mars 2002 greindi Morgunblaðið frá því að
,,Forsvarsmenn Norsk Hydro hafa gefið íslenzkum stjórnvöldum til kynna, að þeir geti ekki staðið við þann tímaramma, sem búið var að semja um vegna fyrirhugaðra framkvæmda við álver á Reyðarfirði, og jafnframt að þeir séu ekki tilbúnir til að ganga frá nýrri tímaáætlun. Þetta þýðir að óbreyttu að framkvæmdir við álver á Reyðarfirði frestast en ekki liggur ljóst fyrir um hve langan frest gæti verið að ræða. Gert er ráð fyrir að frekari upplýsingar um það liggi fyrir innan skamms. ..."
Fljótlega kom hins vegar í ljós að ameríska álfyrirtækið Alcoa var tilbúið til fylla það skarð sem Norsk Hydro skildi eftir sig. Þegar í júní á síðasta ári var ljóst að Alcoa vildi kaupa raforku frá Kárahnjúkavirkjun fyrir nýtt álver á Reyðarfirði. Í ljósi þess að lög um Kárahnjúkavirkjun voru samþykkt frá Alþingi 8. apríl 2002 og að umhverfisráðherra hafði fellt úr gildi úrskurð Skipulagsstofnunar frá 1. ágúst 2001 og fallist á virkjunarframkvæmdir við Kárahnjúka með minni háttar skilyrðum var ljóst að mjög erfitt yrði að koma í veg fyrir að framkvæmdir færu af stað. Við þetta bætist að mál Atla Gíslasonar, Guðmundar Páls Ólafssonar, Ólafs S. Andréssonar og Náttúrverndarsamtakannasem höfðað var á hendur umhverfisráðherra til ógildingar úrskurðinum tafðist í dómskerfinu sökum þess að Héraðsdómur féllst í tvígang á frávísunarkröfur stefndu. Það var ekki fyrr en í febrúar á þessu ári að Hæstiréttur úrskurðaði að Héraðsdómi Reykjavíkur bæri að taka stefnu Atla og fleiri til efnislegrar meðferðar.

Engu að síður, orð og æði forráðamanna Landsvirkjunar og iðnaðarráðherra gáfu margsinnis til kynna að Náttúruverndarsamtök Íslands væru hættuleg áformum þeirra. Sú gagnrýni sem sett var fram af hálfu Þorsteins Siglaugssonar og annarra hagspekinga á hagkvæmni Kárahnjúkavirkjunar beit vel. Ruðningsáhrif virkjunarframkvæmda eru nú að koma í ljós og arðsemi Kárahnjúkavirkjunar er enn stórt spurningamerki.

Hagkvæmni Kárahnjúkavirkjunar
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum þann 21. júní 2001, að meta arðsemi Kárahnjúkavirkjunar ,,...svo vega megi og meta efnahagslegan ávinning hverrar framkvæmdar andspænis þeim áhrifum sem hún hefur á umhverfi og náttúru. Þá hvetur borgarstjórn til málefnalegrar umræðu um kosti og galla einstakra framkvæmda með það að markmiði að stuðla að sem víðtækastri sátt um þær ákvarðanir sem teknar verða."

Þessi samþykkt var forsenda skýrslu eigendanefndarinnar um arðsemi Kárahnjúkavirkjunar sem kynnt var eftir síðustu áramót. Ekkert í þeirri skýrslu réttlætir hins vegar þá eyðileggingu náttúruverðmæta sem bygging Kárahnjúkavirkjunar hefur í för með sér. Nefndin svaraði í engu þeirri gagnrýni sem Náttúruverndarsamtök Íslands settu fram með aðstoð Þorsteins Siglaugssonar.

Í bréfi Landsvirkjunar til eigenda sinna, dags. 10. september 2002 var verkefni nefndarinnar skilgreint með þeim hætti að ,,...fara yfir líkön fyrirtækisins m.t.t. til ofangreindra áhættuþátta og skila áliti til eigenda." Í bréfinu eru tilgreindir tvenns konar áhættuþættir. Annars vegar að arðsemi virkjunarinnar yrði ekki eins mikil eins og Landsvirkjun hefur ráð fyrir gert og hins vegar sú að ábyrgðir vegna lána falli á eigendur.

Spyrja má, til hvers var farið að stað fyrst Landsvirkjun var eftirlátið að skilgreina á allan hátt hvaða spurningum skyldi svarað og ekki leitað til óháðra sérfræðinga? Því miður bendir flest til að forustumenn R-listans hafi með þessum gjörningi tekið þátt í að blekkja almenning.

Hálendisþjóðgarður
Allt frá upphafi hefur það verið markmið Náttúruverndarsamtaka Íslands að stofna þjóðgarð á miðhálendi Íslands. Stærsti demanturinn í slíkum þjóðgarði yrði vitaskuld svæðið norðan Vatnajökuls. Þessar hugmyndir eiga víðtækan stuðning meðal almennings en skoðanakönnun sem Gallup framkvæmdi fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands í júlí 2002 sýndi að meirihluti almennings er hlynntur stofnun þjóðgarðs norðan Vatnajökuls. Af þeim sem afstöðu tóku segjast 65,8% hlynnt stofnun þjóðgarðs á svæðinu 19.5% taka ekki afstöðu og 14, 6% eru andvíg.

Loftslagsbreytingar - Kyoto-bókunin
Umhverfisráðuneytið veitti Náttúruverndarsamtökum Íslands styrk að upphæð 300.000 krónur til að sækja 8. lofslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem á síðasta ári var haldinn í Nýju Dehli. Á ráðstefnunni flutti fyrirlestur höfðingi Inuíta frá norður Kanada, sem sagði frá því að hús og vegir á hans breiddargráðum væru nú að skekkjast og/eða hrynja sökum þess að sífrerinn er að hverfa vegna hlýnandi loftslags. Þetta er skýrt dæmi um loftslagsbreytingar af mannavöldum í okkar heimshluta og alríkisstjórnin í Ottawa hefur fjármuni til að hjálpa þessu fólki þegar í harðbakkann slær. Á hinn bóginn hafa fæst þróunarríkja nokkra fjármuni til að hjálpa nauðstöddum sem líða matarskort eða missa heimili sín vegna loftslagsbreytinga.

Það er í þessu samhengi sorglegt að íslensk stjórnvöld hælast um fyrir að hafa náð fram sérstakri undanþágu frá Kyoto-bókuninni fyrir stóriðju. Losunarmark Íslands samkvæmt bókuninni var 10% á fyrsta skuldbindingartímabilinu, 2008-2012 og verður afar auðvelt að ná því markmiði. Enn bólar lítið á fræðsluátaki stjórnvalda um loftslagsbreytingar líkt og þau eru skuldbundin til að standa að. Samkvæmt nýlegri skýrslu stjórnvalda til skrifstofu Loftslagssamningsins í Bonn hafa tjórnvöld 7 verkefni á prjónunum til að fræða almenning og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Ísland. Samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir hefur ekkert þeirra enn komið til framkvæmda.

natturuvernd.png 

Vista sem PDF