Aðalfundur 2000

Arni Finnsson    20.9.2012
Arni Finnsson
Skýrsla stjórnar Náttúrverndarsamtaka Íslands árið 1999
Lögð fram á aðalfundi samtakanna þann 29. apríl 2000


AÐALFUNDUR 1999

Aðalfundur Nátúruverndarsamtaka Íslands var haldinn 26. mars 1999 í húsi Ferðafélags Íslands, Mörkinni 6. Þátttaka var góð og mættu tæplega 70 manns. Fundarstjóri var Helgi Jensson og ritari Guðmundur A. Guðmundsson.

Hilmar J. Malmquist flutti skýrslu stjórnar, sem var dreift til félagsmanna og sett á heimasíðu samtakanna. Árni Finnsson lagði fram endurskoðaða reikninga samtakanna fyrir almanaksárið 1998 og voru þeir samþykktir án athugasemda.

Félagslegir skoðunarmenn reikninga fyrir starfsárið 1998/1999 voru þau Gerður Stefánsdóttir og Þóroddur Fr. Þóroddsson. Þau voru endukjörin.

Árgjald fyrir 1999 var ákveðið kr. 2.000.

Samþykkt var tillaga fráfarandi stjórnar um lagabreytingu á lögum samtakanna um að 7. töluliður í b)-lið 4. gr. verði "Kjör tveggja félagslegra skoðunarmanna reikninga." í stað "Kjör tveggja endurskoðenda."

Í stjórn samtakanna voru kjörin Anna Lára Steindal, Árni Finnsson, Elín Agla Briem, Hilmar J. Malmquist og Kristinn Haukur Skarphéðinsson (aðalmenn) og Glóey Finnsdóttir og Pétur Örn Sverrisson (varamenn). Árni, Glóey og Hilmar voru endurkjörin úr fyrri stjórn. Úr fyrri stjórn gengu aðalmennirnir Anna Guðrún Þórhallsdóttir og Jóhann Þórsson og varamennirnir Hulda Steingrímsdóttir og Jóhann Bogason. Var þeim þakkað fyrir góð störf í þágu samtakanna.

Aðalfundurinn samþykkti þrjár ályktanir:

Um hálendi Íslands

"Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Íslands, haldinn þann 25. mars 1999, hvetur umhverfisráðherra og alþingismenn eindregið að beita sér fyrir frestun á staðfestingu svæðisskipulagsstillögu Samvinnunefndar um málefni miðhálendisins. Jafnframt skorar fundurinn á alþingismenn að beita sér fyrir því að leyfi Landsvirkjunar verði afurkallað vegna Fljótsdalsvirkjunar og að fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir skuli sæta formlegu mati á umhverfisáhrifum eins og lög mæla fyrir um."
Um Kyoto-bókunina

"Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Íslands, haldinn þann 25. mars 1999, gagnrýnir harðlega þá ákvörðun ríkisstjórnar Íslands að undirrita ekki Kyoto-bókunina. Skorar fundurinn á stjórnvöld að undirrita hið fyrsta þennan tímamótasamning um verndun lofthjúpsins og lífríkis jarðar gegn skaðlegum áhrifum gróðurhúsalofttegunda."
Um ríkisstyrki í sjávarútvegi

Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Íslands, haldinn þann 25. mars 1999, fagnar framkominni tillögu Íslands á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (World Trade Organization) þess efnis að ríkisstyrkir til sjávarútvegs verði lagðir niður. Fundurinn bendir á mikilvægi þess að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir lausnum hvarvetna gegn ofveiði og rányrkju sem víða á sér stað í heiminum, ekki síst af völdum allt of mikillar veiðigetu í kjölfar ríkisstyrkja. Jafnframt hvetur fundurinn ríkisstjórn Íslands til halda á lofti árangursríkri og ábyrgri fiskveiðistjórnun, sem byggist m.a. á veiðireglu eins og fyrir þorskstofninn hér við land. Ábyrg fiskveiðistjórnun verður vafalítið mikilvægari í framtíðinni fyrir markaðssetningu íslenskra sjávarafurða heldur en orðið er.
Þá var samþykkt nýstárleg tillaga frá Ólafi Jónssyni athafnamanni um skipun nefndar til fjáröflunar fyrir samtökin. Í greinargerð með tillögunni er í hnotskurn lagt til að semja við einn listamann eða fleiri um gerð listaverka í hæfilegu upplagi sem seld yrðu fyrirtækjum og einstaklingum, en ágóðinn, að frátöldum kostnaði við gerð verkanna, rynni að mestu leyti óskiptur til Náttúruverndarsamtakanna. Er skemmst frá því að segja að góður gangur er í málinu og hefur þegar verið samið við bræðurna Sigurð og Kristján Guðmundssyni um gerð listaverka. Verk Sigurðar eru tvær steinþrykkjur/tréristur, hvort í 200 eintaka upplagi, og heita Land (96x76 cm) og hitt Vatn (76x96 cm). Verk Kristjáns eru fjögur talsins, úr gleri og áli (á bilinu 16-130 cm), og hvert verk í 15 eintaka upplagi. Verkefnið er nú tilbúið og mun sala hefjast á verkunum hefjast á næstunni.

FÉLAGAR

Félögum í Náttúruverndarsamtökum Íslands hefur fjölgað heldur hægt en bítandi. Á árinu 1999 bættust 50 nýir félagar í hópinn og var 381 félagi skráður í samtökin í árslok. Frá áramótum hafa um 30 félagar bæst við, þannig að alls eru um 410 félagar í samtökunum. Þrátt fyrir að Náttúruverndrsamtökin séu stærstu frjálsu félagssamtök einstaklinga, sem starfa á breiðum grundvelli náttúruverndar, þá má betur ef duga skal. Tvisvar sinnum hefur verið ráðist í söfnunarátak, síðast í fyrra þegar félagsmanna voru hvattir til að leita til kunningja og bjóða þeim að gerast félagar eða stuðningsaðilar með reglulegum greiðslum af krítarkorti. Markmiðið sem stjórnin setti sér voru a.m.k. 500 félagar fyrir árslok 1999. Átakið skilaði sér ekki sem skyldi.

Stækkun samtakanna verður áfram eitt af mikilvægari verkefnum samtakanna. Hagkvæmasta og skilvirkasta leiðin er að leita til félagsmanna um að þeir kynni vinum og kunningjum starf og stefnu Náttúruverndarsamtakanna og hvetji þá til að ganga í samtökin. Ef miðað er við að árgjald verði áfram 2000 krónur skila 1000 félagar samtökunum tveggja milljón króna tekjum. Samtök sem geta reitt sig á slíkan stuðning standa sterkt og það gerir gæfumuninn fyrir rekstur samtakanna Ef hver félagsmaður útvegar einn nýjan félagsmann yrðum við brátt 1000.

Hægt er að koma við á skrifstofu samtakanna í Þverholti 15 og skrá sig. Árni Finnsson er yfirleitt við milli kl. 9 og 17. Einnig er hægt að hringja á skriftstofuna í síma 551 2279 (einnig faxnúmer) og skrá sig. Auk þess er hægt að skrá sig í félagið á heimasíðu samtakanna http://wwww.mmedia.is/nsi, en þar er jafnframt að finna lög og stefnu samtakanna og margt fleira um í starfsemi samtakanna.

STJÓRNARSTARF OG SKRIFSTOFUREKSTUR

Haldnir voru sjö stjórnarfundir á árinu 1999. Samkvæmt 5. grein laga samtakanna skiptir stjórn með sér verkum, en engin lagaákvæði eru um kjör formanns eða annarra embætta, nema er varðar endurskoðun reikninga.

Sem fyrr hefur Árni Finnsson haft með höndum daglegan rekstur og framkvæmdastjórn samtakanna. Hjá jafn virku félagi og okkar er það fullt starf og gott betur. Síðan haustið 1998 - þegar Náttúruverndarsamtökin gerðu samstarfssamning við Alþjóðanáttúruverndarsjóðinn (World Wide Fund for Nature, WWF) - hefur Árni notið launa fyrir starfið. Samstarfið við WWF tengist sérstakri Norðurskautsáætlun WWF (Arctic Programme), sem snýst m.a. um verndun ósnortinna víðerna og vistvæna ferðamennsku á norðurslóðum. Styrkur WWF á ári hljóðar upp á 58 þúsund svissneska franka. Þetta samstarf við ein öflugustu náttúruverndarsamtök heims er ánægjulegt og í góðu samræmi við eitt af markmiðum Náttúruverndarsamtaka Íslands, sem skv. 3. lagagrein er að "Efla samstarf við systursamtök hérlendis og erlendis."

Skrifstofa samtakanna opnuð

Í apríl 1999 opnuðu Náttúruverndarsamtökin skrifstofu að Þverholti 15. Bætti það starfsskilyrði samtakanna til muna þó enn skorti góða aðstöðu til funda. Húsnæðisleiga og símakostnaður er um kr. 30 þúsund á mánuði.

Um leið og skrifstofan var opnuð var ráðist í kaup á tölvu, prentara, síma og faxtæki. Fengu samtökin til þess styrk að upphæð kr. 500 þúsund frá umhverfisráðuneytinu. Upphaflega sóttu samtökin um styrk af fjárlögum fyrir 1999 að upphæð kr. 1 milljón, en við því var ekki orðið, heldur beindi formaður fjárlaganefndar því til umhverfisráðherra, fyrir atbeina Hjörleifs Guttormssonar, að umhverfisráðherra veitti styrkinn. Samtökin sóttu um styrk á ný til fjárlaganefndar í haust og enn fóru leikar þannig að málinu var vísað til umhverfisráðherra. Þar liggur umsókn okkar nú og bíður afgreiðslu.

Vert er að geta hér og þakka fyrir myndarlegt framlag Arnar Þorvaldssonar, sem studdi samtökin öðru sinni með framlagi að upphæð kr. 100.000.

ANNÁLL VERKEFNA

Á starfsárinu 1999-2000 unnu Náttúruverndarsamtök Íslands að fjölmörgum málum. Starfsrammi samtakanna er skýrt og hnitmiðað tíundaður í markmiðssetningum í 3. gr. laga félagsins. Að auki byggir starfsemin á fjölbreyttri og skýrri stefnuskrá í átta málaflokkum. Stefnuskráin var samþykkt á framhaldsstofnfundi samtakanna og hefur hún tekið litlum breytingum síðan. Stefnuskráin hefur verið kynnt í félagsbréfum og við ýmis tækifæri og hana má ávallt nálgast á heimasíðu samtakanna.

Helstu málin sem stjórn samtakanna hefur unnið að á síðastliðnu stjórnartímabili eru:

1. FLJÓTSDALSVIRKJUN - EYJABAKKAR

Var tvímælalaust mál málanna í þjóðmálaumræðunni mestan part ársins 1999. Yfirlýsing fjárfesta (þ.e.a.s. Reyðarál + Norsk Hydro) í lok mars þess efnis að ekki sé hagkvæmt að ráðast í 120 þúsund tonna byrjunaráfanga álvers heldur skuli byrjunaráfangi vera 240 þúsund tonn kom stjórnmálamönnum í opna skjöldu. Þetta þýðir í fyrsta lagi að áform um tilhögun Fljótsdalsvirkjunar með miðlunarlóni á Eyjabökkum eru svo gott sem úr sögunni. Í öðru lagi hefur þetta vafalítið í för með sér að allar aðrar virkjanaframkvæmdir sem ráðast verður í vegna 360-480 þúsund tonna álvers muni sæta einu og sama lögformlega umhverfismatinu. Einnig er hugsanlegt að tengdar framkvæmdir, þ.á.m. álverið í Reyðarfirði, orkuflutningsleiðir, vegagerð o.fl., verði metnar samhliða virkjunarframkvæmdunum. Í frumvarpi um endurskoðun á lögum um mat á umhverfisáhrifum veitir heimild til að meta á slíkan hátt heildaráhrif tengdra framkvæmda.

Áfangasigur

Hin nýja staða í málefni Fljótsdalsvirkjunar er afar mikilvægur áfangasigur fyrir náttúruvernd og lýðræðislega þátttöku almennings í ákvarðanatöku. Náttúruverndarsamtök Íslands eiga hér drjúgan hlut að máli. Má í því sambandi nefna málþing í hátíðarsal Háskóla Íslands um umhverfisáhrif virkjana norðan Vatnajökuls í lok október 1998, heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu 3 vikum síðar þar sem ríflega 208 einstaklingar skoruðu á stjórnvöld að láta Fljótsdalsvirkjun sæta lögformlegu mati á umhverfisáhrifum og margfrægan borgarafund í Háskólabíói í lok nóvember sama haust. Fyrr um haustið hófst ljóðalestur listamanna á Austurvelli til varnar hálendinu og stóð hann fram á sumar 1999. Samtökin studdu ötullega við bakið á þessum nýstárlega gjörningi, sem vakti athygli fjölmiðla og hélt vöku alþingismanna fyrir alvöru málsins.

Fleiri áskoranir til stjórnvalda um lögformlegt mat hafa fylgt í kjölfarið í samvinnu við ýmis systursamtök, m.a. Félag um verndun hálendis Austurlands, Fuglaverndarfélag Íslands, NAUST Umhverfisverndarsamtök Íslands og SAMÚT. Þá ber einnig að meta mikilvægt samstarf við Landvernd og Umhverfisverndarsamtök Íslands um upplýsingasíðu á ensku um Eyjabakkamálið (sjá http://www.mmedia.is/nsi/). Þessi upplýsingasíða hefur auðvelda mjög samskipti við erlenda fjölmiðla, sem hafa margsinnis lýst ánægju sinni með þessa upplýsingagjöf.

Í águst og september 1999 framkvæmdi Gallup tvær skoðanakannanir fyrir Náttúruverndarsamtökin þar sem fram kom afgerandi stuðningur almennings við kröfuna um lögbundið umhverfismat. Þar með var slóðinn rudd fyrir undirskriftaátak Umhverfisvina, sem lauk með kröfu 45 þúsund Íslendinga um að framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun skuli sæta lögformlegu mati.

Þáttur WWF

Ekki má vanmeta þátt WWF. Stuðningur þessara í baráttunni fyrir verndun Eyjabakka skipti gríðarlega miklu. Málagn WWF Arctic Programma, Arctic Bulletin, var haustið 1999 helgað ítarlegri umfjöllun um Eyjabakkasvæðið, virkjunaráformin og aðkomu Norsk Hydro að málinu. Í nóvember 1999 sendu 14 framkvæmdastjórar WWF í Evrópu frá sér áskorun til viðkomandi stjórnvalda og aðila um að láta meta umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar samkvæmt lögum. Einnig sátu fulltrúar WWF tvo fundi á sl. ári með fulltrúum Norsk Hydro þar sem fjallað var um málefnið. Það fór enda svo að Norsk Hydro - ekki íslensk stjórnvöld - breyttu afstöðu sinni og opnuðu fyrir heildstætt mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Kárahnúkavirkjunar og Fljótsdalsvirkjunar hinnar nýju.

Umfjöllun Alþingis

Í desember 1999 lagði Landsvirkjun loksins fram skýrslu sína fyrir Alþingi um það sem fyrirtækið kallaði skýrslu um umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar. Fylgdi hún þingsályktunartillögu fyrrv. iðnaðarráðherra um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun. Umhverfisnefnd Alþingis kallaði í kjölfarið á sinn fund fulltrúa frá öllum helstu stofnunum og samtökum í landinu á sviði umhverfismála og náttúruverndar. Tveir fulltrúar Náttúruverndasamtaka Íslands voru boðaðir í tvígang á fund Umhverfisnefndar. Þar lögðu samtökin fram ítarlega og vandaða greinargerð um helstu annmarkana í skýrslu Landsvirkjunar, sem voru bæði margir og að mörgu leyti alvarlegir, einkum þó er varðaði lífríkisþætti (greinargerðin er á vefslóðinni http://www.mmedia.is/nsi/highlands). Jafnframt lögðu samtökin fram ítarlega greinargerð um lagalega annmarka á bráðbirgðaákvæði II í lögum um mat á umhverfisáhrifum, undanþáguákvæðinu kunna sem stjórnvöld og Landsvirkjun skýla sér á bak við (greinargerðin er á vefslóðinni http://www.mmedia.is/nsi). Rökstudd umsögn samtakanna um ófullnægjandi efnistök og oft á tíðum villandi og beinlíns rangar ályktanir í skýrslu Landsvirkjunar var síður en svo einsdæmi. Í fylgigögnum með tvískiptu áliti Umhverfisnefndar um plagg Landsvirkjunar má auðveldlega lesa að helstu fagaaðilar landsins á sviði náttúrufræða gáfu skýrslunni falleinkunn. Þetta er auðvitað þungur áfellisdómur yfir þeim þingmönnum sem greiddu atkvæði sitt þingsályktunartillögunni um framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun.

Mat Norsk Hydro

Enda þótt málefnaleg umræða um mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar hafi ekki náð eyrum meirihluta á Alþingi, þá hlustuðu stjórnarmenn í Norsk Hydro. Að lokinni umfjöllun á Alþingi Íslendinga lýsti yfirmaður Norsk Hydro, Egil Myklebust, því yfir að fyrirtækið hyggðist sjálft standa að úttekt á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar. Norsk Hydro réði til starfans óháðan ráðgjafa, dr. Peter Johan Schei, fyrrum yfirmann Náttúruverndar ríkisins í Noregi og virtan fræðimann á alþjóðavettvangi í málefnum lífríkis og umhverfisverndar. Hann heimsótti Ísland í upphafi árs 2000 til að fara yfir skýrslu Landsvirkjunar, hitta fulltrúa frjálsra félagasamtaka, vísindamenn og aðra sem fjallað höfðu um skýrslu Landsvirkjunar. Fulltrúar Náttúruverndarsamtaka Íslands áttu fund með dr. Peter Johan Schei og í kjölfarið var greinargerð samtakanna um skýrslu Landsvikjunar snöruð yfir á ensku og afhent Peter (sjá enska útgáfu á vefslóðinni http://www.mmedia.is/nsi/highlands). Var ljóst að skýrsla Landsvirkjunar átti sér formælendur fáa og vinnubrögð íslenskra stjórnvalda þóttu ekki traustvekjandi. Því var ekki á það hættandi fyrir Norsk Hydro eða íslenska fjárfesta að byggja 120 þúsund tonna álver í fyrsta áfanga án þess að hafa nokkra tryggingu fyrir stækkun þess og stefna jafnframt frekari virkjanaframkvæmdum í voða með því að verða sér til ærlegrar skamma fyrir að eyðileggja jafn sérstaka hálendisvin og Eyjabakka.

2. NÁTTÚRUVERNDARÞING

Dagan 28.-29. janúar 2000 var 10. náttúruverndarþing haldið að Hótel Loftleiðum. Náttúruverndarsamtök Íslands eiga aðild að þinginu með fullum réttindum. Í fjölmiðlum bar mest á umfjöllun um gagnrýni á framgöngu umhverfisráðherra í málefnum Fljótsdalsvirkjunar og yfirlýsinga hans um ráðgjafarhlutverk Náttúruverndarráðs. Mun mikilvægara var þó sú eindrægni og samhugur sem ríkti á þinginu. Reyndir þingmenn töluðu um nýja tíma.

Náttúruverndarsamtök Íslands áttu frumkvæði að tveimur ályktunum sem voru samþykktar. Fjallaði önnur um áskorun til stjórnvalda um að framfylgja samþykktum Árósa-yfirlýsingarinnar frá 1998, en þar er kveðið á um mikilvægi frjálsra félagasamtaka í málefnum náttúruverndar. Í yfirlýsingunni er m.a. vakin athygli á því að eitt mikilvægasta hlutverk slíkra samtaka er að veita stjórnvöldum aðhald með upplýsingum og gagnrýni og bent á nauðsyn þess að stjórnvöld styðji við starfsemi samtakanna og veiti þeim hlutdeild í ákvarðanatöku. Það er því mikið fagnaðarefni að nú í vor hefur komið fram á Alþingi þingsályktunartillaga frá Katrínu Fjeldsted og fleirum um að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd er geri úttekt á stöðu frjálsra félagasamtaka á Íslandi og hvernig samskiptum stjórnvalda og sveitarstjórna við þau er háttað. Jafnframt á nefndin að skila tillögum til ríkisstjórnarinnar um hvernig samráði stjórnvalda við frjáls félagasamtök á sviði umhverfismála verði háttað. Í tillögunni er vísað sérstaklega til skuldbindinga Íslands samkvæmt Árósa-yfirlýsingunni. Þetta er mikilvæg viðurkenning á málflutningi Náttúruverndarsamtaka Íslands.

Hin ályktunin sem samtökin áttu frumkvæði að fjallaði um nauðsyn þess að stjórnvöld hafi að leiðarljósi allar meginreglur og sáttmála sem undirritaðir voru á Ríó-ráðstefnunni 1992 við allar ákvarðanir er varða atvinnuþróun og verndun umhverfis, og að stjórnvöldum ber siðferðileg og þjóðréttarleg skylda til að fylgja eftir, efla og styrkja, Rammasamning S.Þ. um loftslagsbreytingar frá 1992 og bókunina við hann í Kyoto 1997, Sáttmála S.Þ. um líffræðilega fjölbreytni frá 1992, Eyðimerkursáttmála S.Þ. frá 1994, Ramsarsáttmálann um verndun votlendis frá 1971 og Bernarsamninginn frá 1979 um verndun villtra plantna og dýra og verndun lífsvæða þeirra í Evrópu.

Náttúruverndarsamtökin beittu sér ásamt fleirum fyrir samþykkt margra annarra góðra ályktana og má t.d. nefna ályktun um beitarfriðun á auðnum, rofsvæðum og gróðurvinjum á hálendinu, ályktun um aukin fjárstuðning við gagnaöflun á náttúrufari á hálendinu í tengslum við Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma, og síðast, en ekki síst, ályktun um að umhverfisráðherra beiti sér fyrir friðlýsingu Snæfells og Vesturöræfa og umhverfis og tilnefni Eyjabakka sem Ramsarsvæði.

3. BÆTT LAGASETNING

Eitt af meginmarkmiðum í starfsemi Náttúruverndarsamtakanna er samkvæmt lögum félagsins og stefnuskrá að vinna að bættri lagasetningu í þágu umhverfis- og náttúruverndar. Samtökin hafa unnið að þessu með ýmsu móti.

Ný náttúruverndarlög

Þann 1. júlí 1999 tóku gildi ný náttúruverndarlög og var endurskoðun á efnistökum náttúruverndar í eldri lögum orðin löngu brýn, enda að stofni til frá 1976. Náttúruverndarsamtökin fjölluðu í mars 1999 um frumvarpsgerð þessara laga, funduðu með Umhverfsinefnd Alþingis og lögðu fram greinargerð með ýmsum tillögum til úrbóta. Sumar athugasemdir samtakanna voru samþykktar og teknar orðrétt inn í endanleg lög, en aðrar náðu ekki fram að ganga. Á heildina litið ber að fagna nýju náttúruverndarlögunum, þar eru ýmsar þarfar og góðar nýjungar, einkum um verndarákvæði sérstakra landslagsgerða, ákvæði um gerð náttúruverndaráætlunar, einskonar stefnumótun til framtíðar, og rýmri almannaréttur til umgengi við náttúru landsins.

Endurskoðun laga um mat á umvherfisáhrifum

Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga um mat á umhverfisáhrifum. Náttúruverndarsamtökin hafa lagt töluverða vinnu í að bæta frumvarpið. Bæði það sem liggur fyrir Alþingi nú og það sem stjórnskipuð nefnd um endurskoðun laganna vann að 1997 og hefði með réttu átt að leggja fyrir Alþingi sl. vetur. Ýmislegt í frumvarpinu horfir til framfara. Þar á meðal er heimild til að meta sameiginlega áhrif tengdra framkvæmda, hvort sem þær eru á sama svæði eða ekki, og ákvæði um gerð matsáætlunar, einkonar forkönnunar áður en ráðist er að fullu í framkvæmd. Þá eru viðaukar með skýrum upptalningum á matsskyldum framkvæmdum og öðrum framkvæmdum sem kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Í greinargerð eru einnig talin upp viðmið sem þarf að taka tilliti til sérstaklega þegar umhverfisáhrif framkvæmdar eru metin. Á hinn bóginn er eitt og annað miður gott í frumvarpinu sem ófært er að Alþingi samþykki. Þar á meðal eru nær ótakmarkaðar heimildir til handa umhverfisráðherra til að undanskilja framkvæmdir frá lögformlegu mati, ákvæði um að líða megi allt að tíu ár frá niðurstöðu í mati á umhverfisáhrifum þar til framkvæmd hefst, og ákvæði til bráðabirgða sem veitir framkvæmdum með leyfi útgefnu fyrir 1. maí 1994 undanþágu til ársins 2002. Nálgast má greinagerð samtakanna við frumvarpið á vefslóðinni (http://www.mmedia.is/nsi)

Málssókn vegna Fljótsdalsvirkjunar.

Lög til verndar umhverfinu ber að túlka strangt. Sérstaklega á þeim svæðum sem eru verðmæt og einstök í náttúru Íslands. Í október 1999 sendu Náttúruverndarsamtökin kvörtun til Eftirlitsstofnuar EFTA (ESA) þar eð þau telja að bráðabirgðaákvæði II við lög um mat á umhverfisáhrifum (63/1993) sem stjórnvöld telja að undanþiggi Fljótsdalsvirkjun frá ákvæðum sömu laga standist ekki tilskipun Evrópusambandsins frá 1985. Umfjöllun ESA er enn ekki lokið og niðurstöðu vart að vænta fyrr en í haust.

Í janúar 2000 stefndu Náttúruverndarsamtök Íslands íslenskum stjórnvöldum annars vegar til ógildingar á virkjunarleyfi því sem Landsvirkjun var veitt 1991 fyrir Fljótsdalsvirkjun og hins vegar til að knýja fram mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar í samræmi við gildandi lög. Lögmenn stefndu hafa nú skilað greinargerðum og framhald málsins ræðst á næstu dögum.

Stjórnin kann lögmanni samtakanna, Magnúsi Inga Erlingssyni hdl, miklar þakkir fyrir starf hans að þessum málum og fleirum.

4. LOFTSLAGSBREYTINGAR

Breytingar á loftslagi jarðar af völdum gróðurhúsalofttegunda er eitt flóknasta og erfiðasta vandamál sem mannkynið stendur frammi fyrir. Á alþjóðavettvangi ríkir nú algjör samstaða um að hlýnun andrúmsloftsins sé þegar merkjanleg. Gott dæmi um slíka alþjóðasamstöðu er að finna í sameiginlegri yfirlýsingu frá umhverfisráðherrum ESB- og G8-ríkjanna, þ.e. Bandaríkjanna, Kanada, Bretlands, Þýskalands, Frakklands, Ástralíu, Japans og Rússlands.

Enn skortir mikið á að íslensk stjórnvöld hafi markað ábyrga stefnu í loftslagsmálum til framtíðar. Mest orka umhverfis- og utanríkisráðuneytis á vettvangi Rammasamningsins fer í að afla stuðnings við tillögu Íslands um undanþágur frá ákvæðum Kyoto-bókunarinnar. Á hinn bóginn hefur enn ekki verið efnt til fræðsluátaks um loftslagsbreytingar líkt og Íslandi er skylt að gera samkvæmt Rammasamningnum um loftslagsbreytingar.

Annað dæmi um sofandahátt stjórnvalda er flaustursleg samþykkt Alþingis á frumvarpi fjármálaráðherra um vörugjald af ökutækjum. Við það tækifæri gáfu Náttúruverndarsamtök Íslands, Landvernd og Umhverfisverndarsamtök Íslands út sameiginlega yfirlýsingu þar sem sagði að frumvarpið "marki óskynsamlega stefnu í umhverfismálum. Samtökin telja nauðsynlegt að frumvarp fjármálaráðherra fái ítarlega umfjöllun og telja fullvíst að slík skoðun muni leiða til gagngerra breytinga á því. Verði frumvarpið að lögum liggur í augum uppi að neysla beinist að bílum sem eyða meira eldsneyti en er í dag."

Ein helstu áhrif stóriðju á umhverfið er losun gróuðurhúsalofttegunda. Undanþágutillaga Íslands á vettvangi Rammasamningsins gengur út á að aukning í losun hér á landi frá árinu 1990 vegna stóriðju verði ekki talin með í bókhaldi Íslands til Rammasamningsins. Miðað við núverandi stóriðjuáform ríkisstjórnarinnar næmi aukningin um 67% borið saman við losunina 1990. Þessi aukning er óháð því að Ísland fékk heimild til að auka losun um 10 prósent samkvæmt bókuninni.

Tillaga Íslands felur í sér alltof miklar undanþágur og leggur engar byrðar á mengunarvaldinn - eigendur stóriðjuvera á Íslandi. Náttúruverndarsamtök Íslands og alþjóðleg systursamtök þeirra telja að tillaga Íslands gefi slæmt fordæmi. Hafa ber í huga að megintilgangur stjórnvalda með tillögunni er að gera Ísland samkeppnishæft við ríki þriðja heimsins sem ekki eru bundin af ákvæðum Kyoto-bókunarinnar.

Náttúruverndarsamtökin hafa fylgst náið með þróun mála og eiga aðild að Climate Network Europe (CNE), sem er hluti af Climate Action Network, alþjóðlegum regnhlífarsamtökum um verndun lofthjúpsins. Fulltrúi Náttúruverndarsamtaka Íslands sótti fund vísinda- og tækninefndar Rammasamningsins í júní 1999 og aðildarríkjaþing hans í nóvember sama ár. Á fyrri fundinum birtist grein í ECO, málgagni umhverfisverndarsamtaka á fundinum, þar sem undanþágutillaga Íslands var gagnrýnd.

5. VATNAHEIÐI SPILLT

Skipulagsstofnun hafði fyrirhuguða vegaframkvæmd yfir Vatnaheiði á Snæfellsnesi á sínu borði á árinu. Til mótvægis var stillt endurbættri leið um Kerlingarskarð og núll-kostur var óbreytt Kerlingarskarðsleið. Skipulagsstjóri ríkisins úrskurðaði í málinu 5. maí 1999 á þá vegu að framkvæmdin skyldi fara í frekara mat. Aðallega var skírskotað til þess að leið yfir Vatnaheiði færi um óspillt votlendi og fjalllendi, sem og svæði á náttúruminjaskrá með merkum jarðmyndunum. Einnig var það mat Skipulagsstofnunar að ekki væri gerð fullnægjandi grein fyrir vegtæknilegum ávinningi nýju leiðarinnar umfram endurbætta Kerlingarskarðsleið. Þannig gat skipulagsstjóri ekki fallist á veg yfir Vatnaheiði vegna umtalsverðra neikvæðra umhverfisáhrifa miðað við endurbætta Kerlingarskarðsleið. Hér vógu þungt rökstuddar athugasemdir frá Náttúruverndarsamtökum Íslands og ýmsum fleirum, þ.á m. frá Náttúruvernd ríkisins, íbúum í Stykkishólmi og fleirum. Allir þessir aðila mæltu eindregið með endurbótum á Kerlingarskarðsleið.

Vegagerðin skilaði af sér "nýrri" matsskýrslu, þar sem til mikillar furðu var að finna meira eða minna sömu annmarkana og í frummatsskýrslunni. Því vakti nýr úrskurður skiðulagsstjóra ríkisins þ. 24. september ekki minni furðu, þar sem hann bauð hagsmunaaðilum, þ.e. Vegagerðinni og viðkomandi sveitarfélögum sem rekið hafa áróður fyrir vegi yfir Vatnaheiði, að velja milli leiða!

Náttúruverndarsamtök Íslands sættu sig ekki við málalokin hjá Skipulagsstofnun og lögðu fram ítarlega stjórnsýslukæru til umhverfisráðherra. Því miður gaumgæfði ráðherra lítt rök Náttúruverndarsamtakanna og niðurstaða hans varð því á nær sömu lund og skipulagsstjórans.

Við þennan málarekstur bætist síðan þáttur samgönguráðherra og þingmanns úr kjördæmi umræddrar vegaframkvæmdar. Náttúruverndarsamtökin hafa lagt fram kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna meintrar vanhæfni samgönguráðherra samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga viða að taka til meðfarðar og veita úrlausn í málinu. Bæði er vísað til mægða samgönguráðherra við hagsmunaðila og þess að samgönguráðherra hafi haft óviðurkvæmileg afskipti af málinu meðan á matsferlinu stóð, m.a. með yfirlýsingum í fjölmiðlum í þá veru að ráðist yrði í veg yfir Vatnheiði hvað sem liði sjónarmiðum náttúruverndar. Niðurstaða er ekki komin hjá umboðsmanni.

6. KÍSILGÚRTAKA ÚR MÝVATNI

Annað mál sem lenti á borði Skipulagsstofnunar seinni hluta árs 1999 var frummatsskýrsla um mat á umhverfisáhrifum kíslilgúrvinnslu úr Mývatni. Niðurstaða Skipulagsstjóra ríkisins varð að framkvæmdin skyldi fara í frekara mat. Taldi Skipulagsstofnun m.a. að gögn skorti um hugsanleg áhrif kísilgúrtökunnar á lífríki vatnsins. Að mati Náttúruverndarsamtakanna er þetta vafasöm niðurstaða, enda benda gögn eindregið til að þegar megi merkja töluverð umhverfisáhrif af völdum fyrri kísiltöku á lífríki þessa sérstæða og gróskumikla vatns. Hér er á umtalsverðum rannsóknum og gagngrunni um lífríki Mývatns að byggja enda fá vötn til í heiminum sem hafa verið rannsökuð jafn mikið.

Við þetta bætist að Mývatns- og Laxársvæðið er friðað samkvæmt sérlögum, auk þess að vera á skrá Ramsarsáttmálans um alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði. Því er enn ríkari ástæða en ella til að beita varrúðareglunni góðu, þ.e. að láta náttúruna njóta vafans og hætta nú þegar allri vinnslu kísilgúrs úr Mývatni.

Niðurstaða þriggja erlendra vísindamanna sem ráðnir voru af iðnaðarráðherra til að til að yfirfara rannsóknir á lífríki Mývatns urðu mjög í samræmi við ályktanir Náttúruverndarsamtakanna. Í skýrslu sérfræðinganna er auk þess að finna mjög sambærileg álit og samtökin setja fram varðandi áhrif kýsilgúrtöku í Ytriflóa og vara þremmenningarnir eindregið við frekari vinnslu þar. Á sambærilegan hátt vara fræðingarnir einnig við dælingu á nýjum svæðum í Syðriflóa.

Meginniðurstaða sérfræðinganna er sá að skynsamlegast sé að hætta allri vinnslu kísilgúrs af vatnsbotninum. Þessi niðurstaða hefur reyndar legið fyrir um nokkurra ára skeið, en stjórnmálamenn hafa stungið hausnum í sandinn og ekki gert nauðsynlegar ráðstafanir í tíma til búa sveitarfélögin á svæðinu undir breytingarnar sem fylgja því að hætta starfsemi kísilvinnlsunnar.

7. ÁLVER Í REYÐARFIRÐI

Náttúruverndarsamtökin sendu inn athugasemdir við 480 þúsund tonna álver á Reyðarfirði. Jafnframt efndu samtökin til fræðslufundar á haustdögum 1999 héldu Náttúruverndarsamtök Íslands fræðslufund í húsnæði Umhverfisvina þar sem kynnt var hvað fælist í lögformlegu matsferli. Gerður Stefánsdóttir hjá Skipulagsstofnun fór yfir efnisatriði í lögformlegu ferli á mati á umhverfisáhrifum, en þeir Hjörleifur Guttormsson náttúrufræðingur, Tryggvi Felixson framkvæmdastjóri Landverndar og Gunnar Hjartarson umhverfisverkfræðingur fóru yfir frummatsskýrslu um 480 þúsund tonna álver í Reyðarfirði. Fundurinn var vel sóttur og hefur vafalaust á sinn þátt í því að Skipulagsstofnun bárust 75 athugasemdir vegna frummatsskýrslunnar á umhverfisáhrifum Reyðaráls. Er það mestur fjöldi athugasemda við einstaka framkvæmd sem farið hefur í kynningu en þar við sat því umhverfisráðherra ógilti allt matsferlið í kjölfar kæru NAUST og fleiri vegna niðurstöðu Skipulagsstofnunnar um að fram skyldi fara frekara mat. Kom á daginn að allur málatilbúnaður af hálfu framkvæmdaaðila var ónógur.

8. RAMMAÁÆTLUN

Vorið 1999 kynnti ríkisstjórnin svokallaða Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Það er tilraun til að meta á heildstæðan hátt og flokka alla helstu virkjunarkosti í landinu m.t.t. orkugetu, áhrifa á náttúru og menningarminjar, ferðamennsku og aðra landnýtingu og efnahagsbúskap þjóðarinnar. Að verkinu kemur fagfólk úr ýmsum áttum og auk verkefnisstjórnar starfa fjórir faghópar hver á sínu sviði. Vinna hófst í desember 1999 og eiga Náttúruverndarsamtökin fulltrúa í faghópi um náttúru og menningaminjar. Hugmyndin að rammaáætluninni er góðra gjalda verð en það á eftir að koma á daginn hvaða hugur býr í raun að baki verkefninu. Um er að ræða brautryðjendaverk og því fátt fast í hendi um hvernig þættir verða metnir, og ekki einu sinni víst að allir virkjunarkostir sem fyrisjánlegir eru í nánustu framtíð verði hluti af úttektinni.
natturuvernd.png 

Vista sem PDF