Aðalfundur 1999

Arni Finnsson    20.9.2012
Arni Finnsson
Skýrsla stjórnar Náttúrverndarsamtaka Íslands árið 1998
Lögð fram á aðalfundi samtakanna þann 25. mars 1999


FÉLAGAR
Félagar í Náttúruverndarsamtökum Íslands voru 331 í árslok 1998 og hafði fjölgað um 136 frá árslokum 1997. Þetta verður að teljast dágott á ekki lengri ævi en tæpur tveimur árum. Náttúruverndarsamtök Íslands eru þar með stærstu frjálsu félagasamtök einstaklinga í landinu sem starfa á breiðum grundvelli náttúruverndar. En betur má ef duga skal. Mikilvægt er að halda áfram að kynna samtökin og hvetja fólk til að ganga í þau. Á fyrsta ári stóð stjórnin fyrir söfnunarátaki á félögum og var dreift meðlimseyðublaði með fréttabréfi. Þetta tókst ekki sem skyldi. Stjórnin hefur nú ákveðið að reyna nýja leið þar sem markhópum verður boðið að gerast félagar og eða stuðningsaðilar með reglulegum greiðslum af krítarkorti. Markmiðið er 500 félagar fyrir árslok 1999.

SKIPAN STJÓRNAR
Á aðalfundi Nátúruverndarsamtaka Íslands, 29. apríl 1998, voru endurkjörnir í stjórn sem aðalmenn þau Árni Finnsson, Glóey Finnsdóttir, Hilmar J. Malmquist og Jóhann Þórsson. Brynja Valsdóttir baðst undan endurkjöri sem aðalmaður en í hennar stað var Anna Guðrún Þórhallsdóttir kjörin aðalamaður. Hulda Steingrímsdóttir og Jóhann Bogason voru endurkjörnir varamenn. Í ársbyrjun 1999 hvarf Jóhann Þórsson úr stjórn og hélt til náms í Bandaríkjunum. Sjónarsviptir er af brottför Jóhanns og vill fráfarandi stjórn færa honum kærar þakkir fyrir mjög ötult og vandað starf í hvívetna í þágu samtakanna.

Haldnir voru 6 stjórnarfundir á árinu. Eins og greinir frá í 5. grein laga samtakanna skal stjórn skipta með sér verkum en engin ákvæði er í lögunum um kjör formanns eða annarra embætta, nema er varðar endurskoðun reikninga. Á liðnum tveimur stjórnartímabilum hafa stjórnarmenn þess í stað unnið að málefnum eftir þekkingu og áhuga. Fráfarandi stjórn telur að þetta opna stjórnarfyrirkomulag hafi reynst vel og að ekki sé ástæða til að breyta því um sinn a.m.k.

Árni Finnsson hefur haft með höndum daglegt vafstur og framkvæmdastjórn. Fyrsta árið vann Árni þetta í sjálfboðavinnu, en á síðasta ári gerði Alþjóðanáttúruverndarsjóðurinn (World Wide Fund for Nature, WWF) við hann samning, sem gerir honum kleift að vinna fyrir samtökin. Heildargreiðslan er 52 þúsund svissneskir frankar eða 2.548,000.00 kr. Þau skilyrði eru sett í samningnum að Árni starfi fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands og að hluti fjárins (680.000 kr.) renni til greiðslu kostnaðar vegna starfs hans fyrir þau. Þetta samstarf við ein öflugustu náttúruverndarsamtök heims er ánægjulegt og í góðu samræmi við eitt af markmiðum Náttúruverndarsamtaka Íslands, sem er skv. 3. lagagrein að „Efla samstarf við systursamtök hérlendis og erlendis."

REIKNINGAR SAMTAKANNA
Á aðalfundinum 29. april 1998 voru reikningar samtakanna kynntir og samþykktir án athugasemda. Tekjur samtakanna námu 230.168,13 kr., þar af 230.000,00 kr. vegna félagsgjalda, og útgjöld námu 144.967,13 kr. og munaði þar mest um póstburðargjöld, kostnað við gíróseðla, fjölritun, þátttökugjald á fundum og ferðakostnað. Meðlimsgjald í samtökunum á árinu 1998 voru 2.000 kr. Félagslegir skoðunarmenn reikninga voru Gerður Stefánsdóttir og Þóroddur Fr. Þóroddsson.

SAMSKIPTI VIÐ FÉLAGA
Á árinu var gefið út eitt félagsbréf og eitt ráðstefnurit í samvinnu við Félag um verndun hálendis Austurlands, Fuglaverndarfélags Íslands og NAUST í kjölfar málþings um Áhrif virkjana norðan Vatnajökuls á náttúru og efnahag, en málþingið var haldið í hátíðarsal Háskóla Íslands þ. 31. okt. 1998. Það er álit stjórnar að útgáfa á þremur fréttabréfum á ári sé bæði fjárhagslega viðráðanleg og nauðsynleg til að halda formlegum tengslum við félagsmenn og upplýsa þá um það helsta sem samtökin fást við hverju sinni. Þó að samtökin séu töluvert áberandi í fjölmiðlunum þá kemur það ekki í stað formlegra samskipta við félagsmenn. Sama má segja um heimasíðu samtakanna á netinu (http://www.mmedia.is/nsi). Hún er býsna ítarleg og uppfærð nokkuð reglulega, en margir félagsmenn hafa takmarkaðan aðgang að netinu. Heimasíðan tók stakkaskiptum á árinu og vill stjórnin þakka bæði hönnuðinum, Sveini H. Sverrissyni, og umsjónarmanninum, Kristni Stefánssyni, fyrir vel unnin störf.

Auk tengsla við félagsmenn í gegnum heimasíðuna fer fram heilmikill gagnaflutningur á vegum samtakanna með tölvupósti. Um er að ræða alls kyns fréttatengt efni um umhverfis- og náttúruverndarmál, bæði innlent og erlent. Þessar sendingar eru vel metnar af fjölda fólks.

SKRIFSTOFA OPNUÐ!
Stjórn samtakanna hefur frá upphafi haft augastað á að reka starfsemina í skrifstofuhúsnæði, en fram til þessa hefur mest mætt á heima- og kaffihúsum. Nú er fyrirséð að draumurinn rætist og á næstu dögum munu samtökin opna skrifstofu með formlegum hætti í leiguhúsnæði að Þverholti 15. Þar eru fyrir nokkrar skrifstofur fyrirtækja og er um að ræða ca. 13 fermetra herbergi og forsal með aðgang að eldhúskróki og snyrtingu. Fráfarandi stjórn telur mikinn feng að þessu og er vonandi að fast aðsetur efli bæði uppbyggingu samtakanna og geri allt starf skilvirkara. Þá gefst félagsmönnum tækifæri á að líta við, fá sér kaffisopa og ræða málefnin. Verið er að huga að skrifstofubúnaði ýmsum og eru félagsmenn hvattir til að hafa augun hjá sér og tilkynna stjórninni hafi þeir vitneskju um slíkan búnað sem hægt er að fá fyrir lítið.

HELSTA STARFSEMI 1998
Á árinu 1998 unnu Náttúruverndarsamtök Íslands að margvíslegum málum. Kjölfestan í starfi samtakanna er í senn markmið þeirra, sem eru tíunduð í lögum félagsins, og svo fjölbreytt en um leið skýr og hnitmiðuð stefnuskrá. Stefnuskráin er eins konar starfssáttmáli sem stjórnin hefur að leiðarljósi. Stefnuskráin byggist á átta málaflokkum og hefur hún verið kynnt í félagsbréfum, á heimasíðunni og við ýmis tækifæri.

Eins og árið áður snerist starfið að miklu leyti um málefni miðhálendisins. Segja má að ályktun samtakanna frá síðasta aðlfundi um verndun og skipulag miðhálendisins lýsi í hnotskurn viðfangsefnunum:

„Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Íslands, haldinn þann 29. apríl varar eindregið við skammsýnni og flausturslegri meðferð Alþingis á málefnum miðhálendisins - dýrmætustu náttúrugersemi þjóðarinnar. Frumvörpin þrjú, sveitarstjórnarfrumvarpið, þjóðlendufrumvarpið og frumvarp um eignarhald og nýtingu auðlinda í jörðu munu hafa víðtækari áhrif á aðgengi og afnot almennings af miðhálendinu en áður hafa þekkst.
Náttúruverndarsamtök Íslands skora á Alþingi að fresta afgreiðslu þessara frumvarpa og gefa þjóðinni tóm til að kynna sér þau betur.
Náttúruverndarsamtök Íslands árétta þá stefnu samtakanna að gera miðhálendi Íslands allt að einum þjóðgarði og að það verði ein skipulagsheild, sem lúti einni stjórn, kjörin af Alþingi, sveitarfélögum og hagsmunasamtökum almennings."

Svæðisskipulagstillagan
Framan af árinu var mikið um að vera vegna úrvinnslu Samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendisins. Stjórn Náttúruverndarsamtakanna vann ítarlega álitsgerð sem hún lagði fram seint á árinu 1997, þegar skilafrestur á athugasemdum við svæðisskipulagstillöguna rann út. Engar grundvallarbreytingar urðu á svæðisskipulagstillögunni í meðferð Samvinnunefndarinnar þrátt fyrir alvarlega og samhljóða gagnrýni margra aðila á ýmis meginatriði tillögunnar. Fráfarandi stjórn telur óviðunandi að svæðisskipulagstillagan verði samþykkt óbreytt og telur að umhverfisráðherra eigi að fresta staðfestingu hennar þar til fullnægjandi faglegar forsendur liggja til grundvallar í málinu. Meðal atriða sem augljóslega þurfa að koma til áður en teknar eru stefnumarkandi og afdrifaríkar ákvarðanir um landnýtingu á miðhálendinu er ítarleg úttekt og rammaáætlun um vatns- og náttúruvernd á svæðinu, í líkingu við það sem nýlega var kynnt af hálfu Norðmanna á málþingi Náttúruverndarráðs.

Sveitarstjórnarlögin
Hörð mótmæli komu fram vegna þeirra breytinga sem Alþingi samþykkti í fyrravor, en með þeim hlotnaðist 42 fámennum sveitarfélögum skipulagsréttur yfir nær öllu miðhálendinu. Þetta gengur þvert gegn hugmyndum Náttúruverndarsamtaka Íslands um lýðræðislega stjórn á einstæðri sameign þjóðarinnar. Tveir fulltrúar Náttúruverndarsamtakanna mættu á fund Félgsmálanefndar Alþingis ásamt fulltrúum nokkurra annarra félaga og gerðu þeir grein fyrir afstöðu samtakanna til lagabreytinganna. Minnihluti nefndarinnar tók undir málflutning okkar, en formaður nefndarinnar afsakaði jafnframt hve seint var boðað til fundarins, þ.e. eftir að búið var að afgreiða lagabreytinguna á Alþingi!

Náttúruverndarsamtökin stóðu áður ásamt öðrum samtökum að sameiginlegri áskorun til ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar um að fresta afgreiðslu frumvarpsins til sveitarstjórnalaga, sem afhent var forsætisráðherra þann 12. maí.

Ljóð á Austurvelli
Við upphaf þings sl. haust, fimmtudaginn 8. október, stóð hópur listamanna ásamt Náttúruverndarsamtökum Íslands og fleiri náttúruverndar- og útivistarfélögum að nýstárlegri uppákomu á Austurvelli. Fjölmiðlar voru boðaðir á staðinn og hófst athöfn við styttu Jóns Sigurðssonar með upplestri valinkunnra listamanna á ljóðum til varnar miðhálendinu. Þá var alþingismönnum lesin yfirlýsing þar sem skorað var á þá að standa vörð um þjóðargersemar á miðhálendi Íslands. Yfirlýsingin var síðan afhent forseta Alþingis. Kveikjan að athöfnini varð til fyrr um sumarið þegar Elísabet Jökulsdóttir og Hjalti Rögnvaldsson mæltu fram ljóð á Auturvelli í nokkur skipti til að vekja athygli á málefnum miðhálendisins. Ljóðaupplestur á Auturvelli hefur þótt takast svo vel upp að honum var framhaldið allt til þingloka og komu fram fjöldi skálda og annarra listamanna. Þetta er í senn einföld og táknræn athöfn til að minna löggjafann og þjóðina á mikilvægi þess að vernda miðhálendið. Náttúruverndarsamtökin áttu drjúgan þátt í skipulagningu atburðanna og stóðu straum af kostnaði vegna þessa.

Málþing
Laugardaginn 31. október stóðu Náttúruverndarsamtök Íslands að málþingi um Áhrif virkjana norðan Vatnajökuls á náttúru og efnahag í hátíðarsal Háskóla Íslands og var það gert í samvinnu við Félag um verndun hálendis Austurlands, Náttúruverndarsamtök Austurlands (NAUST) og Fuglaverndarfélag Íslands. Málþingið tókst í alla staði mjög vel og mættu ríflega 200 manns og fylltu hátíðarsalinn út úr dyrum. Vel var vandað til ræðumanna, sem fjölluðu um hinar ýmsu hliðar málsins, allt frá lögfræði til líffræði og Kyoto til Reyðarfjarðar.

Hugmyndin að málþinginu vaknaði í kjölfar fundar sem haldinn var á Egilsstöðum þann 13. maí 1998, en þar var teflt fram öllum helstu stóriðjuforkólfum landsins. Fremstir meðal jafningja voru Finnur Ingólfsson iðnaðarráðherra og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra. Fyrir fundinn gáfu Náttúruverndarsamtök Íslands og Félag um verndun hálendis Austurlands út sameiginlega yfirlýsingu til fjölmiðla og gagnrýndu þau harkalega einhliða uppsetningu fundarins. Eini málsvari náttúruverndarsjónarmiða á fundinum var Skarphéðinn Þórisson líffræðingur. Gagnrýndi hann helst vanefndir ráðamanna á margendurteknu loforði um að halda ærlegan kynningarfund um virkjanaáform og áhrif þeirra á umhverfið. Það loforð hefur enn ekki verið efnt, en málþing okkar í hátíðarsal Háskóla Íslands bætti þar um.

Eyjabakkar – Fljótsdalsvirkjun
Þann 22. nóvember birtist heilsíðuauglýsing í Morgunblaðinu þar sem 208 einstaklingar settu nafn sitt undir þá kröfu að Fljótsdalsvirkjun sæti mati á umhverfisáhrifum með lögformlegum hætti. Náttúruverndarsamtökin skipulögðu framtakið. Hver einstaklingur greiddi 3.000 kr. fyrir auglýsinguna og komust færri að en vildu. Töluverður afgangur varð af söfnuninni og á hann að standa straum af löfgfræðikostnaði vegna athugunar á því hvort og þá hvernig tilvísun í bráðabirgðaákvæði nr. II. í lögum um mat á umhverfisáhrifum fái staðist gagnvart Fljótsdalsvirkjun.

Það var fyrir atbeina Náttúruverndarsamtaka Íslands að það upplýstist í sumar að þegar Finnur Ingólfsson iðnaðarráðherra var að ræða málefni Fljótsdalsvirkjunar, þá átti hann ekki við lögformlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, heldur hafði hann í huga í besta falli takamarkaðan hluta af öllu matsferlinu, þ.e. einungis frummatsskýrslu framkvæmandans. Enn er óljóst hvort frummatsskýrslan verði send Skipulagsstofnun eins og lög kveða á um, eða hvort hún verður „einkamat" Landsvirkjunar.

Baráttufundur í Háskólabíó
Laugardaginn 29. nóvember 1998 var haldinn merkilegur fundur í Háskólabíói undir heitinu Með hálendinu – Gegn náttúruspjöllum. Þegar vekja skal athygli á góðu málefni með opinberum fundi verður ekki betur gert en að fylla Háskólabíó. Er skemmst frá því að segja að húsfyllir varð og ríflega það. Um 1.000 manns á öllum aldri mættu og þurftu sumir að sitja á göngum bíósalarins til að fylgjast með sérlega vandaðri dagskrá. Fundurinn var haldinn að tilhlutan ýmissra náttúruverndarsamtaka, útivistarfélaga og fjölmargra einstaklinga. Náttúruverndarsamtök Íslands komu þar mikið við sögu og áttu samtökin m.a. fulltrúa í stjórn svokallaðs Hálendishóps, sem stofnaður var um þetta verkefni.

Kolbrún Halldórsdóttir leikstjóri var ráðinn framkvæmdastjóri fundarins og sá hún um alla skipulagningu og framkvæmd, jafnt listræna sem fjárhagslega. Markmiðið með þessum almenna fundi var í stuttu máli sagt að efla og sýna samstöðu náttúrunnenda um það að ósnortin náttúra miðhálendisins sé einhver dýrmætasta auðlegð þjóðarinnar. Á dagskrá fundarins voru fjölbreytt atriði, ávörp, kórsöngur, tónlist, leikatriði, myndverk og ljóðalestur. Ávörp fluttu landskunnir vísindamenn, leikarar og rithöfundar og listviðburði flutti landsþekkt fólk úr lista- og menningarlífi þjóðarinnar. Stjórn Náttúruverndarsamtaka Íslands vill þakka þeim fjölmörgu félagsmönnum samtakanna, sem og öllum öðrum, sem lögðu á hönd plóginn og stuðluðu á einn eða annan hátt að því hve vel fundurinn heppnaðist.

Vatnsfellsvirkjun – Þjórsárver
Í júní lögðu Náttúruverndarsamtök Íslands fram stjórnsýslukæru vegna úrskurðar skipulagsstjóra ríkisins um framkvæmdir við 140 MW Vatnsfellsvirkjun. Krafa samtakanna var í stuttu máli að umhverfisráðherra bæri að ógilda úrskurðinn og að ráðast skyldi í nýtt mat á framkvæmdum sem aðeins næðu til fyrri áfanga framkvæmdarinnar, þ.e. án Norðlingaölduveitu og með 70-100 MW uppsettu afli. Rökin voru einkum þau að í frummatsskýrlsu Landsvirkjunar fyrir 140 MW virkjun voru ýmis mannvirki, m.a. stærð stöðvarhúss, fjöldi rafhverfla og stærð frárennslisskurðar, miðuð við vatnsmiðlun frá Norðlingaölduveitu, sem nær inn á friðland Þjórsárvera, án þess að umhverfisáhrif af völdum miðlunarlónsins væru metin í frummatsskýrslunni!

Hér var um grundvallarmál að ræða, þ.e. að þekkja afleiðingar gerða sinna áður en ráðist er í þær og koma í veg fyrir að valda óbætanlegum spjöllum á heimsþekktri hálendisvin. Það var því afar ánægjulegt þegar umhverfisráðherra felldi úrskurð skipulagsstjórans og tók undir kröfu Náttúruverndarsamtakanna um að meta skyldi framkvæmdina á nýtt án Norðlingaölduveitu. Þessi niðurstaða var mikill áfangasigur fyrir náttúruunnendur.

Háreksstaðaleið – Vegagerð á Jökuldalsheiði
Hér er á ferð enn ein atlagan að óbyggðum víðernum Íslands, þar sem landsbyggðapólitík og heimóttarskapur virðist byrgja mönnum sýn. Háreksstaðaleið liggur um Jökuldalsheiði milli Langadals og Ármótasels. Um er að ræða lagningu nýs vegar eftir miðju stærsta gróna heiðahálendi landsins sem eftir er lítt snortið. Svæðið státar auk þess af merkum menningarsögulegum fornminjum frá heiðatímabilinu á 19. öld. Svæðið telst því bæði fágæt náttúruleg landslagsheild og athyglisvert byggðalandslag. Í apríl lögðu Náttúruverndarsamtökin fram stjórnsýslukæru vegna úrskurðar skipulagsstjóra ríkisins um framkvæmdina. Farið var fram á að umhverfisráðherra kvæði upp úr um að endurbyggja skyldi núverandi þjóðveg um Möðrudalsöræfi og að Háreksstaðaleið yrði hafnað. Til þess væru allar forsendur í umfjöllun og úrskurði skiðulagsstjórans, en hann sætti sig við gerð Háreksstaðaleiðar þrátt fyrir að komast sjálfur að því að hún hefði mun meira umhverfisrask í för með sér en endurbætur á veginum um Möðrudalsöræfi. Skipulagsstjóri var einnig í vafa um hvort nokkur vegtæknilegur ávinningur væri af Háreksstaðaleið umfram endurbættan Möðrudalsveg. Því miður höfðu Náttúruverndarsamtökin ekki erindi af erfiðinu og féllst umhverfisráðherra ekki málflutning samtakanna.

Endurskoðun laga
Í stefnuskrá Náttúruverndarsamtakanna er einn málflokkurinn um endurskoðun laga á sviði umhverfis- og náttúruverndar. Þetta er augljóslega mikilvægur málaflokkur því með þeim lögum er settur hinn formlegi rammi sem á að skýra og tryggja hvers kyns atriði sem lúta að verndun og nýtingu náttúrunnar og umgengni og samskipti þjóðarinnar við hana. Tvö helstu lög landsins á þessu sviði eru náttúruverndarlögin og lögin um mat á umhverfisáhrifum. Fyrri lögin eru löngu úrelt enda að stofni til eldri en fjörtíu ára. Endurskoðun þeirra laga stóð yfir sl. ár og sendu Náttúruverndarsamtökin nýlega frá sér athugasemdir við frumvarpið. Þá lá fyrir á árinu að enduskoða þyrfti lögin um mat á umhverfisáhrifum, enda kveðið á um það í lögunum sjálfum að ljúka því fyrir árslok 1998, sem tókst reyndar ekki. Náttúruverndarsamtökin unnu greinargerð í málinu þar sem bent var á nokkrar nauðsynlegar breytingar. Athugasemdirnar snerust einkum um þrengingar á stærðarmörkum efnistökustaða, aukna kynningu á framkvæmdum til handa almenningi strax á frumstigi matsferils, aukna ráðgjöf óháðra sérfræðinga á sviði náttúrufars og umhverfismála til handa umhverfisráðherra þegar upp koma álitamál, skýrari viðmið fyrir Skipulagsstofnun um gæðakröfur gagna á hendur framkvæmenda, og síðast en ekki síst, að fella burt úr lögunum bráðabirgðaákvæði nr. II um tímaskilyrta undanþágu frá umhverfismati. Tveir stjórnarmenn mættu á fund Umhverfismálanefndar til að gera grein fyrir afstöðu samtakanna.

Loftslagsmál – KYOTO
Það er verkefni stjórnvalda hverju sinni að skilgreina hagsmuni Íslands á alþjóðavettvangi. Augljóslega felast hagsmunir íslenskrar fiskveiðiþjóðar í að vernda umhverfið með því að styrkja og efla alþjóðlega sáttmála og samstarf um verndun þess. Þannig fóru saman verndunarsjónarmið, útfærsla landhelginnar, þróun hins alþjóðlega hafréttar og aukinn orðstír Íslands. Í þessum anda hafa íslensk stjórnvöld unnið að alþjóðlegum lagalega bindandi samningi um takmörkun og bann við losun lífrænna þrávirkra eiturefna á borð við DDT. Sú ákvörðun ríkisstjórnar Íslands að undirrita ekki Kyoto-bókunina stríðir hins vegar gegn þessari hefð og kann að skaða málstað Íslands á alþjóðavettvangi.

Í fréttatilkynningu frá skrifstofu Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, dagsett 16. mars sl., segir að sú staðreynd að 84 ríki hafi undirritað Kyoto-bókunina áður en frestur til að gerast stofnaðili rann út 15. mars sé til merkis um að ríki heims taki loftslagsbreytingar alvarlega. Skilaboð íslenskra stjórnvalda til umheimsins ganga gegn þessu.

Náttúruverndarsamtökin hafa lagt töluverða vinnu í að upplýsa félaga, stjórnmálamenn og fjölmiðla um alþjóðleg umhverfismál og þar stendur umræðan um loftslagsbreytingar einna hæst. Stjórnin fullyrðir að engin önnur samtök á Íslandi hafi veitt slíka þjónustu, enda njótum við góðs af alþjóðlegu samstarfi við Alþjóðanáttúruvernsjóðinn WWF og regnhlífarsamtökin Climate Network Europe, svo eitthvað sé nefnt.

STÖÐUMAT

Hughvörf
Undanfarin misseri hefur umræða um umhverfismál og náttúruvernd tekið stakkaskiptum hér á landi. Um leið og almenningur lætur sig verndun íslenskrar náttúru meira varða en áður hefur umræðan beinst í vaxandi mæli að því með hvaða hætti Íslendingar geti tekið virkari og ábyrgari þátt í verndun hins hnattræna umhverfis og þar með síns eigins. Meirhluti þjóðarinnar vill að Fljótsdalsvirkjun sæti mati á

umhverfisáhrifum með lögformlegum hætti. Meirihluti þjóðarinnar er andvígur því að fórna náttúruperlum fyrir norðaustan Vatnajökul fyrir mengndi stóriðju og þriðjungur íbúa á Austurlandi er sama sinnis. Stjórnmálaflokkar, fjölmiðlar, opinberar stofnanir og ýmsir hagsmunaaðilar hafa brugðist við með aukinni umræðu og umfjöllun. Stjórnamálamenn úr öllum flokkum þora nú orðið í auknum mæli að hefja upp raust sína og setja á oddinn umhverfis- og náttúruverndarmál, meira að segja um að miðhálendið skuli njóta friðhelgi. Fjölmiðlar sinna umhverfismálum æ meira og af meiri þekkingu. Greinaflokkur Morgunblaðsins um virkjanir á miðhálendi Íslands sl. haust skapaði umræðunni nýjan ramma og setti stjórnmálamönnum um leið skýrari og þrengri skorður.

Á hinn bóginn má segja að hagsmunaðilar í stóriðju hafi reynt að afvegaleiða umræðuna með ýmsu móti - með tali um óskilgreinda þjóðarsátt; með fyrirskipun um að Landsvirkjun framkvæmi eigið mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar; með útgáfu á dýru og illa unnu áróðursblaði á vegum Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA); með fullyrðingum um að orkufrek, mengandi stóriðja staðsett hér á landi væri drjúgt framlag af hálfu Íslands til varnar gróðurhúsaáhrifum, svo nokkur dæmi séu tekin.

Styrkur Náttúruverndarsamtaka Íslands í þeirri þróun sem hér er lýst er einkum að markmið og stefnuskrá samtakanna veitir stjórninni skýrt umboð til að taka virkan þátt í umræðunni og þeim verkefnum sem efla málstað náttúruverndar. Samtökin eru óháð hagsmunaðailum og afstaða þeirra miðast fyrst og fremst við að efla umhverfis- og náttúruvernd. Að mati fráfarandi stjórnar felst ekki síður styrkur í því margvíslega samstarfi og samstöðu sem komið hefur verið á við önnur félög, samtök og einstkalinga. Þetta á einkum við málefni miðhálendisins og gildir jafnt um fundarhöld, ályktanir og aðrar atburði. Þar hafa Náttúruverndarsamtök Íslands jafnan gegnt lykilhlutverki. Að vissu leyti hefur þetta þýtt að samtökin hafa verið minna í sviðsljósinu en ella. Aðalatriðið er þó auvitað að sem mestur árangur náist í baráttumálunum.

Framtíðin
Enn sem fyrr verður það aðalverkefni Náttúruverndarsamtaka Íslands að tryggja vernd íslenskrar náttúru og fylgja eftir þeim sigrum sem hafa náðst. Þetta verður gert með formlegum hætti, t.d. lagasetningu um stofnun þjóðgarða, og ennfremur með því að stuðla að málefnalegri gagnrýni og upplýstri umræðu. Samkvæmt skoðannakönnun DV frá því fyrr í vetur er drjúgur meirihluti þjóðarinnar andvígur því að Eyjabökkum verði sökkt undir uppistöðulón fyrir Fljótsdalsvirkjun. Þjórsárver eru einnig helg í augum landsmanna. Óhætt er að fullyrða afstaða almennings, hagsmunaaðila í ferðaþjónustu og margra fleiri muni auðvelda okkur starfið sem er framundan.

Stjórn samtakanna telur einnig víst að hnattræn umhverfismál á borð við verndun og nýtingu fiskstofna, loftslagsbreytingar og mengun sjávar muni verða æ fyrirferðarmeiri í umræðu hér á landi. Það mun reyna á stjórnvöld að móta stefnu sem tekur mið af langtíma hagsmunum allra Íslendinga og annarra jarðarbúa, en ekki skammtíma hagsmunum fárra valdamikilla aðila.
natturuvernd.png 

Vista sem PDF