Aðalfundur 1998

Arni Finnsson    20.9.2012
Arni Finnsson
Skýrsla stjórnar Náttúrverndarsamtaka Íslands
Lögð fram á aðalfundi samtakanna þann 29. apríl 1998


Tæpt ár er liðið hefur frá stofnun Náttúruverndarsamtaka Íslands þann 29. maí 1997 á framhaldsstofnfundi. Vegarnesti okkar var sú sannfæring og trú að óháð, lýðræðisleg og opin samtök áhugafólks um náttúruvernd geti komið mikilvægum málum til leiðar. Stjórn Náttúruverndarsamtaka Íslands telur að fyrsta starfsárs samtakanna hafi tvímælalaust staðfest þetta.

Athugasemdir og stjórnsýslukærur
Náttúruverndarsamtök Íslands áttu frumkvæði að því að vekja athygli á lagningu Búrfellslínu 3A yfir Ölkelduháls og meðfylgjandi eyðileggingu á dýrmætum svæðum. Samtökin hafa verið leiðandi afl í því máli og þó sigur hafi ekki unnist, má ljóst vera að lög um mat á umhverfisáhrifum stórframkvæmda á borð lagningu Búrfellslínu 3A, eru meingölluð. Umhverfisráðherra hefur nokkrum sinnum lýst þeirri skoðun sinni að úr því verði að bæta. Raflínumöstur Landsvirkjunar á Ölkelduhálsi munu um ókomna framtíð gína sem níðstangir yfir þeirri stefnu fyrirtækisins í umhverfismálum.

Eitt helsta hlutverk Náttúruverndarsamtaka Íslands á síðasta starfsári hefur verið að gera athugasemdir við skipulagstillögur eða leggja fram stjórnsýslukærur við samþykktar skipulagstillögur. Eitt stærsta verkefni okkar á síðasta ári var gerð athugasemda við tillögu Samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendisins. Þeir sem vilja fræðast nánar um afstöðu samtakanna í því máli geta kynnt sér athugasemdir okkar á heimasíðu okkar á http://www.mmedia.is/nsi. Í stuttu máli er stefna Náttúruverndarsamtaka Íslands sú að hálendið allt verði gert að þjóðgarði. Samtökin gagnrýna að hvergi í svæðisskipulagstillögunni er að finna tilmæli um að friðlýsa nokkuð svæði á miðhálendinu vegna náttúru þess. Afar slök kynning á tillögu samvinnunefndarinnar að svæðisskipulagi miðhálendisins gerði það að verkum að umræða um tillöguna varð takmarkaðri en ella. Ýmsar ágætar tillögur komu fram í greinargerð samvinnunefndarinnar. Má nefna hugmyndir að stórum „verndarsvæðum“, flutning á föstum úrgangi út
fyrir miðhálendið og síðast en ekki síst er stefnt að uppbygginu ferðaþjónustu í “jaðri" miðhálendisins.

Náttúruverndarsamtök Íslands bentu á í upphafi að sveitarstjórnarfrumvarp félagsmálaráðherra stríðir gegn lýðræðislegum stjórnarháttum. Að færa skipulagsyfirráð á u.þ.b 40% landsins í hendur 40 sveitarfélaga sem land eiga að miðhálendinu hefur í för með sér að mikill meirihluta þjóðarinnar verður afskiptur um gríðarlega hagsmuni. Samtökin eru þeirrar skoðunar að miðhálendi Íslands skuli vera sameign þjóðarinnar allrar og vera eitt stjórnsýslusvæði.

Önnur mál sem nefna má eru:
- Stjórnsýslukæra Náttúruverndarsamtakanna vegna hringvegs úr Langadal að Ármótaseli og greinargerð
- Athugasemdir Náttúruverndarsamtakanna við deiliskipulag Hveravalla
- Athugasemdir Náttúruverndarsamtakanna við frumathugun á umhverfisáhrifum á 132kV Nesjavallalínu


Loftslagsbreytingar - Kyotofundurinn
Það var mat Náttúruverndarsamtakanna, að Kyotofundurinn gæti haft úrslitaáhrif á virkjun íslenskra fallvatna í þágu mengandi stóriðju. Það reyndist rétt. Að fenginni niðurstöðu í Kyoto er ljóst að stjórnvöld eru í töluverðri klemmu vegna þessa máls. Leyfi til 10 prósenta aukningar á losun gróðurhúsalofttegunda fyrir Ísland nægir ekki fyrir stórkostlegar áætlanir um uppbyggingu stóriðju hér á landi. Á því tímabili sem Kyotobókunin nær yfir (1990-2010) er talið að losun gróðurhúsalofttegunda muni aukast um 26 prósent hér á landi. Sú stefna stjórnvalda er að leita eftir frekari afslætti á ákvæðum Kyotobókunarinnar um samdrátt á losun gróðurhúslofttegunda er ekki líkleg til að ná hylli 4. fundar aðildarríkja Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, sem haldinn verður í Buenos Aires n.k. haust. Hugmyndin er sú að allar fjárfestingar, sem leiði til meira en þriggja prósenta aukningar á losun gróðurhúsalofttegunda, verði undanþegnar Kyotobókuninni.

Þá stendur eftir sá möguleiki að Ísland undirriti ekki Kyoto-bókunina. Gerist það má búast við að erlendir fjárfestar setji Ísland í áhættuflokk. Ætla má að stórfyrirtæki á borð við Norsk Hydro eða Alusuisse, sem hafa sett sér stefnu í umhverfismálum muni forðast Ísland. Á hinn bóginn má ætla að smærri fyrirtæki á borð við Columbia Ventures bíti frekar á það agn sem felst í ódýrri íslenskri orku og „minimum environmental red tape“ eins og það var orðað í bæklingi Markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar.

Framundan er undirbúningsstarf fyrir næsta fund aðildarríkja Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar í Buenos Aires. Stjórn Náttúruverndarsamtakanna leggur áherslu á að efla umræðu og skilning á vísindalegum og pólitískum forsendum þess starfs sem fram fer á þessum vettvangi.

Alþjóðlegt samstarf
Frá upphafi hafa Náttúruverndarsamtök Íslands átt góð samskipti við WWF Arctic Project, sem hefur skrifstofu sína í Osló. Markmið þessa verkefnis er að auðvelda og ýta undir samstarf ríkjanna átta innan Heimskautaráðsins. Þessi alþjóðlega tenging hefur verið afar gagnleg fyrir samtökin og mikil hvatning.

Náttúruverndarsamtök Íslands hafa öðlast aðild að Climate Network Europe, sem er Evrópudeild alþjóðlegra samtaka sem nefnast Climate Action Network og eru alþjóðleg regnhlífarsamtök 263 lýðræðislegra umhverfisverndarsamtaka, sem berjast fyrir verndun lofthjúpsins. Þessi aðild mun tvímælalaust styrkja starf okkar og vonandi gera okkur kleyft að leggja okkar lóð á vogarskálar alþjóðlegrar baráttu.

Ár hafsins
Náttúruverndarsamtök Íslands hafa einkum sinnt málefnum hafsins með greinarskrifum og upplýsingagjöf á netinu. Sameinuðu þjóðirnar hafa tileinkað árið 1998 hafinu, en því lýkur eiginlega ekki fyrr en í apríl 1999 þegar umhverfisnefnd S.Þ. heldur árlegan fund sinn og verður hann helgaður hafinu.

Á alþjóðavettvangi hafa íslensk stjórnvöld haft forustu um verndun hafsins gegn mengun af völdum lífrænna, þrávirkra efna. Það er að vonum því þetta er mikið hagsmunamál fyrir fiskveiðiþjóðir á norðurslóð, en náttúra þessara efna er þau safnast fyrir á norðurslóð og ógna þar lífi.

Skuggi Hvalveiðistefnu - neikvæð umræða um umhverfismál
Hrakyrði í garð náttúruverndarsinna hefur jafnan verið ríkur þáttur í málflutningi þeirra sem hefja vilja hvalveiðar að nýju.
Náttúruverndarsamtök Íslands taka ekki afstöðu gegn endurupptöku hvalveiða, en leggja áherslu á að slíkar veiðar gangi ekki í berhögg við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Það er hins vegar ámælisvert ef stjórnvöld og hagsmunaaðilar líta starf náttúruverndarsamtaka ekki réttu auga fyrir þær sakir einar að þau séu andsnúin hvalveiðum. Nýlegt dæmi um slíka þröngsýni er ræða Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, á aðalfundi SÍF þann 24. apríl s.l. Þar sagði hann m.a:

“Neikvæð umræða um fiskveiðar, öfgakennd andstaða við hvalveiðar og alhæfingar eða sleggjudómar um mengun heimshafanna á alþjóðavettvangi er einnig sérstakt áhyggjuefni um þessar mundir, sem bregðast þarf við með skipulögðum hætti. Full þörf er á að sú rödd heyrist, að á Íslandsmiðum sé mengun í lágmarki og fiskurinn því holl og góð neysluvara. Einnig er mikilvægt að vekja athygli á árangri okkar í fiskveiðistjórnun, sem lagt hefur grunn að sjálfbærum veiðum og lífvænlegu samfélagi hér á norðurhjara veraldar. Þessi rödd þarf að heyrast sem víðast ella er hætt á að svartnættisáróður öfgasamtaka, nú á ári hafsins, geri neytendur erlendis fráhverfa okkar mikilvægu og góðu fiskafurðum. Jafnframt er mikilvægt að Ísland beiti sér erlendis fyrir aðgerðum til að koma í veg fyrir frekari mengun heimshafanna."
Skilaboð sem þessi hafa dunið á eyrum almennings undanfarin 15 ár. Ekki er tilgreint við hverja er átt né heldur hvað þeir aðilar hafa unnið til saka. Hverjir hafa haldið því fram að Íslandsmið séu menguð? Hverjir hafa alhæft um mengun heimshafanna?

Sama dag og Halldór Ásgrímsson flutti þessa ræðu voru sendiherra Bandaríkjanna og Bretlands kallaðir á teppið í utanríkisráðuneytinu og þeim afhent mótmæli gegn flutningi geislavirks úrgangs til Dounreay í Skotlandi. Hvaða samtök hafa lagt hvað mest að mörkum til að endurvinnslu kjarnaúrgangs verði hætt?

Fjölmiðlar og stjórnmálamenn hafa notað hugtök eins og “öfgasamtök," “ofstækismenn," eða “bókstafstrúarmenn" jafnt um náttúruverndarsinna í Þýskalandi og morðingja í Alsír. Umræða um náttúruvernd og umhverfismál verður að vera málefnaleg og hér verður hver að finna sína ábyrgð.

Staða umhverfismála
Í stjórnarráði Íslands er staða umhverfismála veik. Umhverfisráðuneytið er neðst í goggunarröðinni og er aukabúgrein hjá Landbúnaðarráðherra. Varnir gegn mengun sjávar er því sem næsta eina málefnið sem ráðuneyti umhverfismála fær að fást við óáreitt, gefist tími og fjármunir til þess.

Önnur mál eins og starfsleyfisveiting til stóriðju á Grundartanga, Búrfellslína 3A eða Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna lúta vilja og stefnu iðnaðar- eða utanríkisráðherra.

Halldór Ásgrímsson orðaði þetta svo í ræðu sinni á fundi Sölusambands íslenskra sjávarafurða (SÍF) s.l. föstudag:

“Við gerð nýrra samninga og samhæfingu stefnumótunar Íslands á alþjóðavettvangi, einkum ef um skörun fagsviða ráðuneyta er að ræða, hefur utanríkisráðuneytið mikilvægu forystuhlutverki að gegna. Slík skörun er meiri nú en oftast áður. Hefi ég því ákveðið að styrkja þennan þátt starfseminnar með stofnun sérstakrar auðlinda- og umhverfisskrifstofu í ráðuneytinu. Nýlegt dæmi um skörun er hið svonefnda Kyoto-ferli, nýgerður alþjóðasamningur um loftlagsbreytingar, þar sem sköruðust hreinir umhverfishagsmunir eða-sjónarmið, framtíðarmöguleikar Íslands til nýtingar háhitaorku og orku fallvatnanna, og möguleikar okkar til að sækja á fiskimiðin með nútíma veiðiflota."
Þannig hefur umhverfisráðuneytið orðið fagráðuneyti, sem lýtur forustu og vilja utanríkisráðherra. Eiður Guðnason hefur verið skipaður auðlindasendiherra og formaður samninganefndar Íslands á vettvangi Rammasamnings S.Þ. um loftslagsbreytingar. Því starfi gegndi áður starfsmaður umhverfisráðuneytisins.

Vafalítið helgast þessi skipan mála af stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar.

Undir þessum lið er einnig skylt að nefna Alþingi, sem ítrekað lendir í þeirri stöðu að þurfa að afgreiða lítt eða illa undirbúin lagafrumvörp sem varða vernd eða nýtingu náttúrunnar með einum eða öðrum hætti. Dæmi þessa eru fleiri en tekur að telja. Nægir að nefna frumvarp til laga um hollustuhætti, sem afgreitt var í vetur og þann darraðardans sem fram fer á þingi þessa dagana. Nátengt þessu er skortur á opinberri umræðu um kosti og galla mikilvæg mál eins og frumvarp Finns Ingólfssonar, iðnaðarráðherra um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Að ánetjast Náttúruverndarsamtökum Íslands
Þeir félagar samtakanna sem eiga aðgang að alnetinu eiga þessi miklu betri kost að fylgjast með starfi Náttúruverndarsamtakanna. Samtökin senda út mikið af upplýsingum og fréttatengdu efni út á netinu og nýtur það töluverðra vinsælda ef marka þau viðbrögð sem okkur hafa borist. Einnig hafa samtökin komið sér upp heimasíðu, eins sjá má hér að ofan. Hún var fullbúin eftir áramót og hana hafa skoðað rúmlega 200 manns, en við væntum okkur mikils af uppbyggingu hennar í framtíðinni.

Síðastliðið haust fengu allir meðlimir bréf þar sem þeir voru beðnir um að afla nýrra félaga. Undirtektirnar voru heldur dræmar. Kostnaðurinn af útsendingunni var mun meiri tekjur vegna nýrra félaga. Fjöldi félaga sem greitt hafa árgjald síðasta árs eru 126, en hvort það er lítið eða mikið er erfitt að dæma um. Upphaflega voru rúmlega 200 manns á skrá.

Næsta starfsár
Málefni hálendisins eru komin rækilega á dagskrá. Umræða um þau mál á eftir að breikka og dýpka til mikilla muna. Líkt og gerðist fyrir og eftir Kyoto-ráðstefnuna munu Íslendingar færast nær hringiðu alþjóðlegrar umræðu um umhverfismál. Hjá því verður einfaldlega ekki komist og sú umræða snertir einnig verndun íslenskrar náttúru, t.d. Eyjabakkalón.

Íslensk fyrirtæki munu í auknum mæli nýta sér árangur í fiskveiðistjórnun hér á landi til að markaðssetja sjávarafurðir erlendis. Jafnframt munu þau leggja áherslu á að mæta kröfum neytenda um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Þessa þróun ber að ýta undir.

Sú spurning mun gerast æ áleitnari, hver siðferðileg staða Íslendinga er. Hvert er framlag okkar til sameiginlegra lausna mannkyns á umhverfisvandanum? Vilja íslensk stjórnvöld halda fram “sérstöðu" landsins eða byggja á þeim lausnum sem felast í alþjóðlegu samstarfi og skuldbindingum? natturuvernd.png 

Vista sem PDF