Navigate / Profile / Search

Profile

Gróðurhúsaáhrif og stóriðja

Grein um gróðurhúsaáhrif og stóriðju eftir Hilmar J. Malmquist & Jóhann Bogason. Morgunblaðið, 5.des.1997.

Í Morgunblaðinu 12. ág. sl. gagnrýndum við ásamt fleirum málflutning núverandi og fyrrverandi orkumálastjóra, Þorkels Helgasonar og Jakobs Björnssonar, vegna skrifa þeirra um losun koltvísýrings í álvinnslu og ferðaþjónustu (Mbl. 6. júlí). Gagnrýni okkar beindist aðallega að hversu málsmeðferð félaganna var einhliða og byggð á óraunhæfum forsendum og að umfjöllun þeirra hafi þar af leiðandi verið marklaus og villandi. Enda þótt orkumálastjórarnir hafi svarað gagnrýni okkar að nafninu til (Mbl. 25. sept.), sem þeir kalla: „...heldur stráksleg skrif...", drepa þeir málinu á dreif, viðhafa fúkyrði um okkur og kvarta yfir of lítilli ritstýringu bæði á Morgunblaðinu og almennt í landinu! Full ástæða er að ítreka helstu vankanntana í máli orkumálstjóranna, ekki síst þar sem margt af því sem þeir halda á lofti er jafnframt helsta veganesti ríkisstjórnarinnar á samningafundinn í Kyoto nú í desember. Þar stefna nær 200 iðnríki að því að takmarka losun sína á gróðurhúslofttegundum þannig að hún verði 5-20% minni eftir 8-13 ár en hún var árið 1990.

Álvinnsla - Ferðaþjónusta

Með grein sinni „Um losun á koltvísýringi í álvinnslu og ferðaþjónustu" vildu orkumálastjórarnir einkum sýna fram á að ferðaþjónusta sé ekki valkostur fram yfir stóriðju. Í ljósi ummæla orkumálastjóranna að: „Alheimslausn vandans kallar á það að ekkert sé undanskilið og að losunin sé minnkuð með altækum aðgerðum." hljóta eftirtaldar yfirsjónir þeirra að teljast athyglisverðar:

- Þeir takmarka samanburð starfsgreinanna við koltvísýringslosun og undanskilja flúorkolefnin CF4 og C2F6 sem eru mjög virkar gróðurhúsalofttegundir í álvinnslu.

- Þeir sleppa losun á koltvísýringi vegna súrálsflutninga frá Ástralíu til Íslands og reikna aðeins með losuninni við álflutninginn til Evrópu (t.d. fá þeir 57 þús. tonn af CO2 í stað 177 þús. tonn fyrir álverið í Straumsvík árið 1996).

- Þeir nota tölu um losun koltvísýrings frá álverinu í Straumsvík árið 1996 sem er um 21 þús. tonnum lægri en opinber gögn frá ÍSAL hf gefa upp (á að vera um 171 þús. tonn í stað 150 þús. tonn).

Þessar yfirsjónir hafa í för með sér að vegna starfsemi álversins í Straumsvík árið 1996 vantar nær helminginn af raunverulegri losun gróðurhúsalofttegunda í útreikninga orkumálastjóranna. Losunin á að vera um 400 þús. tonn í stað 200 þús. tonn, eða um helmingi meiri en vegna ferðaþjónustunnar skv. gögnum orkumálastjóranna. Ályktun félaganna um að losun gróðurhúsalofttegunda hafi verið „álíka" í starfsgreinunum er því í meira lagi vafasöm svo ekki sé meira sagt. Á næsta ári er fyrirsjáanlegt að álvinnslan í Straumsvík og á Grundartanga losi ca. 850 þús. tonn af gróðurhúsalofttegundum (750 þús. tonn CO2 og 100 þús. tonn vegna flúorkolefna). Það er nær 520 þús. tonnum meira en gera má ráð fyrir í kjölfar ferðaþjónustunnar í landinu eins og hún leggur sig það ár.

Stóriðja – Gróðurhúsaáhrif

Annað markmið með grein orkumálastjóranna var að sýna fram á að Íslendingar geti með engu öðru móti lagt stærri skerf af mörkum til að draga úr losun á koltvísýringi í heiminum en með því að hýsa orkufrek stóriðjuver í landinu. Þeir nefna sem dæmi að væri öll ónýtt vatnsorka og jarðhiti í landinu (ca. 40 TWst/ári) virkjuð fyrir álvinnslu, dygði það til að framleiða 2,7 milljón tonn af áli, en við það drægi úr árlegri koltvísýringslosun í heiminum um 13,5-35 milljón tonn miðað við álvinnslu sem knúin væri raforku úr gasi eða kolum. Þetta svarar í besta falli til 0,2%-0,5% af heildarlosun koltvísýrings af mannavöldum á heimsvísu í dag (skv. gögnum frá IPCC).

Um þetta ýkta áldæmi segja orkumálastjórarnir sjálfir að: „…hér sé fremur um hugsað dæmi að ræða en raunhæft markmið." Engu að síður álykta þeir að það: „...sýni samt ljóslega að með engu öðru móti getum við lagt stærri skerf af mörkum til að draga úr losun á koltvísýringi í heiminum en með því að hýsa slíkan iðnað." Er nema von að „strákslega" sé spurt hvernig standi á svona málflutningi þegar verið er að fjalla um viðamikið efni sem, að sögn orkumálastjóranna: „...getur skipt sköpum um framhald mannlífs á jörðinni:..."?

Aðalatriðið er að losun gróðurhúsalofttegunda mun aukast í heiminum verði álverum fjölgað í landinu nema að því tilskyldu að Íslendingar, í samvinnu við aðrar þjóðir, leggi niður álver erlendis sem knúin eru raforku úr gasi eða kolum og framleiða sama álmagn og fyrirhugað er að gera hér. Ekki hafa komið fram neinar raunhæfar tillögur um hvernig standa ætti að slíkum alþjóðlegum tilfærslum á álverum. Né heldur hvort hugur álverseigenda standi til að uppfylla slíka drauma.

Stóriðja – Óbyggð víðerni – Sjávarlífríki

Í fyrri grein okkar bentum við á þann alvarlega meinbug í málflutningi orkumálastjóranna að einskorða samanburð starfsgreinanna tveggja við koltvísýring, eða þá gróðurhúsalofttegundir. Þó hugsanleg gróðurhúsaáhrif séu vissulega umfangsmikið alþjóðlegt vandamál er mjög áríðandi að huga einnig að öðrum umhverfisáhrifum. Hér á landi þurfum við sérstaklega að huga að umhverfisáhrifum sem fylgja álvinnslu og stóriðju almennt og varða hina einstöku náttúrugersemi sem býr í lítt snortnu víðerni miðhálendisins. Einnig er brýnt að huga að áhrifum sem snerta sjávarlífríkið á strandgrunninu. Í grein orkumálastjóranna er ekki vikið einu orði að þessum veigamiklum þáttum. Samt er ljóst að minna þarf til að raska þessum náttúrgæðum en stórfellda stóriðjuuppbyggingu og virkjun á öllu „ónýttu" vatns- og jarðvarmaafli landsins.

Það væri verðugt viðfangsefni fyrir Orkustofnun og við fyllsta hæfi, þar sem stofnunin fjallar orðið svo almennt um umhverfismál, að gera þjóðinni skil á ýmsum hugsanlegum áhrifaþáttum sem lúta að vistfræði til lands og sjávar vegna virkjana og orkuflutnings. Hér má nefna umhverfisþætti á borð við vatns- og jarðvarmabúskap, líffræðilega fjölbreytni, viðgang fiskstofna og strandrof. Vonandi verður slík umfjöllun þó vandaðri en grein orkumálastjóranna um koltvísýringinn.

Það skiptir þó ekki máli hver fjallar um kosti og galla starfsgreina m.t.t. gróðurhúsaáhrifa. Mestu skiptir að það sé gert á víðsýnan hátt og að tillit sé tekið til annarra veigamikilla umhverfisþátta. Slíkt mat þyrfti einnig að taka til langtímasjónarmiða í samfélags- og efnahagsmálum. Gróðurhúsaáhrif kunna að verða stærsta umhverfisvandamál mannkyns sem komandi kynslóðir á næstu öld munu einkum að glíma við. Brýnasta hagsmunamál okkar sem nú erum á miðjum aldri og eldri og höfum oftar en ekki verið blinduð af sérhagsmunum og skammtímalausnum er því að flýta sér hægt og brenna ekki allar brýr að baki afkomendum okkar með stórfelldum virkjunum og mengandi stóriðju.

Hilmar J. Malmquist og Jóhann S. Bogason.

Höfundar eru í stjórn Náttúruverndarsamtaka Íslands.