Navigate / Profile / Search

Profile

Arni Finnsson
22. ágúst 2016
Náttúruvernd

Eftirfarandi ályktun verður lögð fyrir aðalfund Náttúruverndarsamtaka Íslands í kvöld.

 

Tillaga að ályktun aðalfundar NÍ

Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Íslands, haldinn í ReykjavíkurAkademíunni 22. ágúst 2016, lýsa yfir fullum stuðningi við báráttu Verndarfélags Svartár og Suðurár gegn virkjun Svartár í Bárðardal í S-Þingeyjarsýslu og einnig þeim markmiðum félagsins að Svartá öll ásamt Suðurá frá Suðurárbotnum og nærumhverfi þeirra að ósi árinnar við Skjálfandafljót verði friðlýst.

 

Umhverfi Svartár og Suðurár er einstakt á landsvísu. Ekki einungis lega svæðisins í jaðri hálendisins, heldur það sérstaka samspil lindarvatns, jarðmyndana, gróðurs og dýralífs gerir svæðið einstakt. Hér fer saman í hrjóstrugu umhverfi Ódáðahrauns, gróskumikill hálendisgróður, mikið skordýralíf og fjölskrúðugt fuglalíf, sumar tegundir fugla á válista og ábyrðartegundir okkar Íslendinga. Í Suðurá lifir bleikja og urriði en í Svartá er einn glæsilegasti urriðastofn landsins. Hér er um tiltölulega ósnortið landssvæði að ræða, aðeins að litlum hluta í byggð, þar sem þróun íslenskrar náttúru hefur náð fram að ganga á eigin forsendum. Svæðið er rómað fyrir náttúrufegurð.

Náttúruverndarsamtök Íslands telja því ljóst að fyrirhuguð 9,8MW virkjun í Svartá sem SSB orka ehf. hyggst reisa og hefja framkvæmdir við vorið 2017, muni valda verulegum óafturkræfum breytingum á vistkerfi hennar og nærumhverfi og skaða gildi Svartár og Suðurár og nánasta umhverfis sem heildar í náttúru landsins.

===========

Tillaga að ályktun aðalfundar Náttúruverndarsamtaka Íslands

 

Aðalfundur Náttúruverndarsamtaka Íslands, haldinn í ReykjavíkurAkademíunni 22. ágúst 2016 lýsir eftir umhverfisstefnu stjórnvalda. Við undirbúning og eftirfylgd Parísarráðstefnunnar hafa íslensk stjórnvöld ekki kynnt skýr markmið um hversu mikið Ísland hyggst draga úr losun á tímabilinu 2021–2030. Einungis hefur komið fram að Ísland muni taka þátt í sameiginlegu markmið aðildarríkja ESB um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda um 40% fyrir árið 2030.

Nýjustu skýrslur umhverfisyfirvalda sýna að frá 1990 hefur losun gróðurhúsalofttegunda í ýmsum geirum aukist verulega hér á landi. Í samgöngum er t.d. aukningin 50% og stefnir hærra og losun frá úrgangi hefur aukist um 35%.

Bent skal á að hefði náðst samkomulag í París um samdrátt í losun er dygði til að halda hlýnun jarðar innan 2°C hefði sameiginlegur hlutur ESB orðið 55% samdráttur. Verkefnið er í því mun stærra en samkomulagið í París kveður á um en það dugar einungis til halda hlýnunni innan við 2,7°C og er þá miðað við björtustu vonir vísindamanna.

Íslenskir ráðamenn verða að láta af sífelldu monti sínu um hversu hátt hlutfall framleiðslu hreinnar orku er á Íslandi eða 71%. Í Noregi er hlutfallið 69% og hafa norsk stjórnvöld lýst því yfir að þau muni draga úr losun um 40%, óháð samningum við ESB.