Navigate / Profile / Search

Profile

Alþingi við Austurvöll
Atvinnuveganefnd
150 Reykjavík

Reykjavík 27. maí 2016

Umsögn um frumvarp til laga um breyt­ingu á búvörulög­um, búnaðarlög­um og tolla­lög­um - Þingskjal 1108  —  680. mál.

Markmið
Markmiðslýsing í frumvarpinu er óskýr. Sjálfbær landnýting er ekki skilgreind. Í athugsemdum við 1. gr. frumvarpsins segir:

Gerður verði langtímasóknarsamningur til að minnsta kosti tíu ára um starfsskilyrði bænda sem byggist á fjárstuðningi og tollvernd og ætlað er að efla samkeppnishæfni, auka fjölbreytni, stuðla að nýliðun og vera í sátt við um­hverfið. 

Atvinnuveganefnd hlýtur að kalla eftir skýringum á hvað þessi málsgrein felur í sér.

Gegn náttúruvernd
Frumvarp þetta gengur þvert gegn þeirri stefnu sem umhverfis- og auðlindaráðherra Sigrún Magnúsdóttir, lýsti í grein sinni í Morgunblaðinu 24. mars sl. Þar segir í fyrirsögn: „Saman gegn sóun”. Þar vísaði ráðherra til stefnu

sem fjallar um hvernig við getum bætt auðlindanýtingu og spornað gegn sóun.

Beit búfjár á nagaða mela getur ekki talist vera hófsöm líkt og ráðherra segir vera stefnu stjórnvalda. Frumvarpið fer þvert gegn þessu kjörorði umhverfis- og auðlindaráðherra enda er gert ráð fyrir niðurgreiðslu á lambakjötsframleiðslu langt umfram eftirspurn hér á landi og langt fram í tímann. Þriðjung framleiðslunnar yrði svo að flytja út á niðurgreiddu verði.

Svo virðist sem landbúnaðarráðherra fari sínu fram án nokkurs samráðs við umhverfisráðuneytið.[1]

Örfoka land
Beit sauðfjár á örfoka land gengur gegn e-lið 36. gr. frumvarpsins en þar segir um markmið:

að efla gæðastýrða sauðfjárframleiðslu og aðra þætti sem henni tengjast eins og … sjálfbæra landnýtingu.

Ofbeit er ekki sjálfbær landnýting. Í ályktun Náttúruverndarsamtaka Íslands, Landverndar og Skógræktarfélags Íslands, dags. 5. febrúar sl. segir:

Beit tíðkast því miður enn á auðnum, rofsvæðum og illa förnum hálendissvæðum á gosbeltinu, og víðar um land, þrátt fyrir gæðastýringarkerfi í sauðfjárrækt. Bæði Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) og fagaðilar hér heima hafa ítrekað bent á þessa alvarlegu staðreynd. Beit á örfoka landi er ósjálfbær og ekki forsvaranlegt að hún njóti ríkisstuðnings. Fé fjölgar nú aftur í landinu og þótt loftslag sé hagfelldara nú en fyrir 30 árum eru stór landsvæði sem standa ekki undir núverandi beit, hvað þá fjölgun.

Af frumvarpinu má ráða að til standi að fjölga búfé og þá sérstaklega á Suðurlandi þar sem afréttir eru hvað verst farnir.

Ólafur Arnalds[2], prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, segir í grein sem birtist í Fréttablaðinu 26 maí sl.:

Hluti milljarðanna fer í að styrkja nýtingu á landi sem alfarið ætti að friða fyrir beit, m.a. á auðnum og rofsvæðum gosbeltisins. Ekki er litið til ástands lands að fullu, því svokallaður landnýtingarþáttur gæðastýringar tekur ekki á stóru landnýtingarmálunum sem fylgja sauðfjárbeit.


Ólafur fullyrðir að aðferðafræði að baki frumvarpinu sé „… fjandsamleg umhverfissjónarmiðum og markar skref áratugi aftur í tímann.“

Gegn sóknaráætlun
Frumvarpið mun leiða til aukinnar og óþarfa losunar gróðurhúsalofttegunda og draga úr bindingu koltvísýrings með landgræðslu. Það gengur gegn sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.

Umhverfis- og auðlindaráðherra upplýsti Alþingi í vetur um að

Sóknaráætlun í loftslagsmálum er m.a. ætlað að efla samstarf við atvinnulífið og efla aðkomu þess að raunhæfum verkefnum til að draga úr losun. Tvö verkefni verða sett á fót um gerð vegvísa um minnkun losunar, annars vegar í landbúnaði en hins vegar í sjávarútvegi. [....] Vegvísir um minnkun losunar í landbúnaði er kominn skemmra á veg, en hann verður unninn á vegum stjórnvalda og Bændasamtakanna. 

Ekki verður sagt að samstarfið um sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar byrji vel. Frumvarpið er fremur vegvísir um hvernig skal auka losun gróðurhúsalofttegunda og draga úr bindingu koltvísýrings.

Byggðastefna
Náttúruverndarsamtök Íslands eru alfarið hlynnt því að byggðir landsins verði styrktar til að tryggja búsetu þar sem það er hægt. Á hinn bóginn verður að véfengja þá visku að styrkir til landbúnaðar verði að fara í gegnum iðrin á sauðfé og mjólkurkúm, sbr. b-lið 17. gr. frumvarpsins.


Frumvarpið verði afturkallað
Náttúruverndarsamtök Íslands krefjast þess að frumvarp þetta verði afturkallað. Það stangast á við nokkur veigamikil markmið stjórnvalda er varða verndun jarðvegs, landgræðslu, samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og það er uppskrift að sóun á matvælum. Það bætir ekki úr að frumvarpið mun valda sóun á almannafé.

F.h. stjórnar Náttúruverndarsamtaka Íslands.

Virðingarfyllst,

 Árni Finnsson.

 

 

[1] Raunar virðist sem umhverfis- og auðlindaráðherra hafi enn ekki nokkra hugmynd um hvernig skuli dregið úr losun ghl frá landbúnaði. Sjá: https://www.umhverfisraduneyti.is/media/PDF_skrar/190416-Samkomulag-um-loftslagsvaenni-landbunad.pdf

[2] Þess ber að geta að árið 1998 fékk Ólafur Arnalds umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir „einstaka miðlun á þekkingu um jarðvegsrof á Íslandi og mikilvægi þess að varðveita ræktarland á Norðurlöndum og heiminum öllum.“ Svo virðist sem stjórnvöld hafi enn ekki borið gæfu til að fara að niðurstöðum rannsókna Ólafs.