Navigate / Profile / Search

Profile

GLACIER-fundurinn sem bandaríska utanríkisráðuneytið bauð til í Anchorage í Alaska fyrr í vikunni fær mistjafna dóma. New York Times fagnar brýningu Obama forseta til fundargesta að láta nú ekki sitt eftir liggja í París en bendir á að leyfisveiting hans til olíufélagsins Shell til að bora eftir olíu í Chuckchihaf norðvestur af Alaska skaði átak hans til að vekja athygli á þeim vanda sem við er að etja. NYT tekur þó fram að Obama hafi átt fáa aðra kosti en að veita Shell þetta leyfi. Við skulum vona að íslensk stjórnvöld hafi ekki bundið hendur sínar með sama hætti gagnvart kínverskum olíurisa sem áformar að bora eftir olíu á Drekasvæðinu.

Í frétt IPS kemur fram að sú yfirlýsing sem samþykkt var á fundinum sé heldur þunn í roðinu og að Kanada og Rússland hafi skrifað undir hana með hundshaus. Þetta er réttmæt gagnrýni en á hinn bóginn var fundurinn fyrst og fremst haldinn til að skapa ræðupúlt fyrir forsetann og utanríkisráðherra hans. Ekki til að semja um einhverja skuldbindingu fyrir fundinn í París. Tveir góðir ræðumenn sem verða að sannfæra eigin landsmenn um þann voða sem vísindin boða verði ekki gripið í taumana strax.

„This year in Paris has to be the year that the world reaches an agreement,” sagði Obama. “None of the nations represented here are moving fast enough.” Viðstaddir voru fulltrúar 20 ríkja, þar á meðal Kína, Rússlands, Kanada, Inlands, Evrópusambandsins og Japans. Samanlagt eru þessi ríki ábyrg fyrir vel yfir helmingi losunar gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu.

Utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, flutti líka ræðu þar sem hann áréttaði orð forsætisráðherra síns frá því á leiðtogafundi Ban Ki-moon um loftslagsbreytingar, sem haldinn var í New York fyrir tæpu ári síðan; að súrnun sjávar væri mjög alvarleg ógn við lífíríkið sem einungis yrði afstýrt með því að stöðva losun koltvísýrings út í andrúmsloftið. Ekki eins mikil tilþrif og drama hjá Gunnari Braga miðað við þá Kerry og Obama en niðurstaðan er hin sama: Vandinn er gríðarlegur og við höfum ekki mörg ár til að snúa þróuninni við.

Hér á landi endurspeglar hátt hlutfall endurnýjanlegrar orku fyrst og fremst uppbyggingu mengandi álvera en ekki bætta orkunýtingu orkuskipti til að draga úr losun í samgöngum og sjávarútvegi.