Navigate / Profile / Search

Profile

Tekur forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ekki mark á loftslagsvísindum? Hvað með aðra flokka í stjórn eða stjórnarandstöðu? Hvernig geta þeir stutt borun eftir olíu og gasi á Drekasvæðinu og líka sagst taka mark á niðurstöðum skýrslu IPCC?

Í skýrslu Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) sem kynnt var í Kaupmannahöfn í gær kemur í fyrsta skipti fram að árið 2100 verði brennsla kolefniseldsneytis að heyra sögunni til. Ennfremur, losun gróðurhúsalofttegunda verður að ná hámarki sínu fyrir árið 2020 og minnka hratt eftir það.

Myles R. Allen, loftslagsvísindamaður við Oxford háskóla, sagði við New York Times í gær, að

„Kjósi þeir að láta órætt hversu mikið er unnt að losa [án þess að raska loftslagskerfum jarðar varanlega], jafngildir það því að vilja ekki ræða loftslagsvandann. Þá gætu þeir allt eins látið eiga sig að sækja þessa fundi.”

Allen vísar til þess að ⅔ til ¾ allra þekktra birgða af olíu, gasi, og kolum verða enn að vera neðan jarðar árið 2050. Við megum ekki og getum ekki brennt þessu eldsneyti ef okkur á að takast að halda hlýnun andrúmsloftsins innan við 2°C að meðaltali líkt og samþykkt var á Kaupmannahöfn í desember 2009. Undir þetta hafa tekið Alþjóðabankinn og Alþjóðaorkumálastofnunin (IEA).

 Forsætisráðherra  virtist hafa áttað sig á  þessari staðreynd  þegar hann ávarpaði  leiðtogafund  Sameinuðu þjóðanna  um loftslagsbreytingar  hinn 23. september s.l.  Þar lýst hann því  markmiði að Ísland  yrði kolefnisfrítt  hagkerfi sem einungis  notaði endurnýjanlega  orkugjafa.

Ennfremur sagði hann

… kjarni loftslagsstefnu Íslands byggir á þeirri staðreynd að Ísland er hluti af norðurskautssvæðinu. Nýlegar rannsóknir, þ.m.t. rannsóknir á vegum Norðurskautsráðsins, benda til að loftslagsbreytingar séu alvarlegusta ógnin við líffræðilegan fjölbreytileika norðurslóða og þá er súrnun sjávar talin með enda talið að norðlæg hafsvæði séu sérlega viðkvæm fyrir súrnun, sem ekki er unnt að stöðva nema með að binda endi á losun kolefna (e: halting carbon emissions).

Í yfirlýsingu sem birtist á vef utanríkisráðuneytisins í gær segir, að ráðherrar utanríkis- og umhverfismála, þeir Gunnar Bragi Sveinsson og Sigurður Ingi Jóhannsson hafi á fundi með Christina Figueres, framkvæmdastýru Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar heitið „stuðningi Íslands við væntanlegt Parísarsamkomulag og að Ísland hygðist sýna metnað í loftslagsmálum.” Ráðherrarnir minntust einnig

… á ræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra á allsherjarþingi SÞ í september sl.í því samhengi. Ísland stefndi að því að hætta notkun jarðefnaeldsneytis; slíkt væri þegar raunin varðandi orkuframleiðslu til rafmagns og hitunar, en vinna þyrfti að þessu markmiði í samgöngum og fiskveiðum.

Tveimur dögum áður, í ávarpi við opnun Arctic Circle ráðstefnunnar var Sigmundur Davíð aftur dottinn í olíuna og fullyrti að mögulegur efnahagslegur ábati af olíuvinnslu gæti farið saman við nýtingu hreinnar orku, ef vel væri á málum haldið. Hann útskýrði það þó ekki frekar heldur kallaði hann það ‘Arctic paradox’.

Þá er spurningin: Tekur forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ekki mark á loftslagsvísindum? Hvað með aðra flokka í stjórn eða stjórnarandstöðu? Hvernig geta þeir stutt borun eftir olíu og gasi á Drekasvæðinu og líka sagst taka mark á niðurstöðum skýrslu IPCC?