Navigate / Profile / Search

Profile

Hinn 23. September næstkomandi munu leiðtogar heims funda í New York um loftslagsbreytingar. Aðalritari Sameinuðuþjóðanna, Ban Ki-moon, er gestgjafi fundarins og markmið hans, og um leið alþjóðasamfélagsins, er að gefa ráðamönnum tækifæri til að ræða nauðsyn aðgerða, nú rúmu ári fyrir Loftslagsþingið sem haldið verður í París í lok næsta árs. Þar er stefnt að bindandi samkomulagi aðildarríkjanna um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

Til að undirstrika kröfur okkar um að Ísland axli sína ábyrgð verður efnt til loftslagsgöngu 21. september, kl. 14:00 á horni Kárastígs, Frakkastígs og Njálsgötu – eða á „Drekasvæðinu.“ Gengið verður upp Kárastíginn yfir á Skólavörðustíg og sem leið liggur niður á Austurvöll.

Súrnun sjávar ógnar nú lífríki hafsins vegna sívaxandi útstreymis koltvísýrings út í andrúmsloftið við bruna olíu, kola og gass. Hér við land er súrnunin mun hraðari en sunnar í Atlantshafinu. Mikið liggur við að þessi þróun verði stöðvuð hið fyrsta því stofnar kalkmyndandi sjávardýra (skeldýr) munu eiga erfitt uppdráttar í súrnandi hafi. Þetta verða íslensk stjórnvöld að taka af fyllstu alvöru og rödd Íslands verður að heyrast Í New York. Sterkustu skilaboð forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, á leiðtogafundi Ban Ki-moons væri að lýsa því yfir að Ísland ætlaði ekki að vinna olíu á Drekasvæðinu.

Meðal skipuleggjanda viðburðarins á Íslandi eru Náttúruverndarsamtök Íslands og Grugg og fjöldi af Frónbúum sem láta sig málið varða. Við vonumst til að sjá ykkur öll.