Navigate / Profile / Search

Profile

Upphafsmaður gasrótarsamtakanna 350.org Bill McKibben hefur frásögn sína í myndinni 'Do the Math' eða Reiknum dæmið til enda á því að benda á að hann - ekki frekar en við hin - sé maður aðgerða. En hann hafði skrifað bók, 'The End of Nature' sem kom út árið 1989 og 2008 hóf hann ásamt nemendum sínum að vinna undir merkjum 350.org, sem stendur fyrir 350 ppm eða 350 miljónustuhlutar sem varúðarreglan segir okkur andrúmsloftið þoli án þess að hlýnun jarðar valdi hættulegum loftslagsbreytingum. Nú er staðan 400 ppm og 350.org er nú grasrótarhreyfing sem krefur stjórnvöld um ábyrgð.

Útreikningarnir eru einfaldir. Á Kaupmannahafnarráðstefnunni árið 2009 var bara ein tala samþykkt; nefnilega að andrúmsloft jarðar mætti ekki hlýna um meira en 2°C að meðaltali. Það er mikil hlýnun og mun valda miklum skaða. Til dæmis munu þjóðir sem búa á láglendum eyjum verða landlausar þegar þær hverfa í hafið. En hækki hitastig um meira en 2°C verður ekki aftur snúið, Grænlandsjökull mun bráðna og stórborgir á borð við London og New York munu hverfa undir vatn.

Í öðru lagi, eru vísindamenn á einu máli um að forsenda þess að mannkyni takist að halda hlýnun andrúmsloftsins innan við 2°C sé að ekki verði losuð meira en 565 Gígatonn út í andrúmsloftið til viðbótar því sem nú er. Það eru 565 milljarðar tonna. Miðað við þá losun sem á sér stað í dag mun einungis taka 15 ár áður en þessu marki verður náð.

Þriðja talan er það magn kolefnis sem finna má í jörðu. Þ.e.a.s þekktar birgðir af olíu, gasi og kolum. Sú talar er 2795 gígatonn eða fimm sinnum meira en það sem andrúmsloftið þolir. Þetta er varfærið mat sem olíufélög nota.

Nú má vera hinn nýbakaði forsætisráðherra landsins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hafi ekki reiknað dæmið til enda þegar hann sagði á Laugarvatni fyrr í vikunni, að

vegna fjölgunar mannkyns og þróunar í gríðarlega stórum löndum eins og Kína og Indlandi þá mun eftirspurn eftir hefðbundnum orkugjöfum aukast á sama tíma [og eftirspurn eftir 'endurnýtanlegri orku']. Og þar af leiðandi er eðlilegt að bregðast við því um leið.

Það er mál manna í umhverfisverndarhreyfingunni hér á landi - og það á einnig við um fjölda stjórnmálamanna - að ætli Ísland að verða fyrirmynd annarra þjóða í umhverfismálum, líkt og þeim félögum Sigmundi Davíð og Bjarna Benediktssyni hefur orðið tíðrætt um í ljósi fyrri afreka, sé algjörlega nauðsynlegt að legga af öll áform um olíuboranir á Drekasvæðinu. Þau áform hreinlega standast ekki þá útreikninga sem liggja skýrt fyrir í 'Do the Math'.

Myndin er mjög upplýsandi og ætti umsvifalaust að taka til sýningar á sjónvarpsstöðvðum landsins. Vafalaust sakaði ekki að sérstök sýning færi fram á vegum stjórnarráðsins og Alþingis.