Navigate / Profile / Search

Profile

Framsóknarflokkurinn hefur af rausn sinni gert ríkisstjórnarflokkunum tilboð um afgreiðslu stjórnarskrárfrumvarpsins. Tilboðið felur í sér að í stað þeirrar tillögu sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis lagði til í frumvarpi að nýrri stjórnarskrá, varðandi stjórnarskrárákvæði um þjóðareign á auðlindum, verði notast við tillögu  Auðlindanefndarinnar sem skilaði áliti sínu árið 2000, fyrir nær 13 árum siðan. 

Í 35. grein þess stjórnarskrárfrumvarps sem nú liggur fyrir Alþingi segir:

Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi. Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda, sem og annarra takmarkaðra almannagæða, gegn eðlilegu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignar eða óafturkallanlegs forræðis. 

Þetta finnst Framsóknarflokksmönnum of langt gengið en í sáttatillögu þeirra, tillögu auðlindanefndarinnar um stjórnarskárákvæði um þjóðareign á auðlindum segir:  

Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt og á grundvelli sjálfbærrar þróunar og skal arði af þeim varið til þess að vernda auðlindirnar, rannsaka þær og viðhalda þeim, svo og til hagsældar fyrir þjóðina að öðru leyti. 

Hér munar töluverðu. Hagkvæmin er metin til jafns við sjálfbæra þróun. Arðsemiskröfur útgerðarmanna gilda þá til jafns við lögmál sjálfbærrar þróunar. Hættan er augljós og nægir að benda á að síðustu 25 - 30 ár hafa íslensk stjórnvöld glímt við að ná tökum á fiskveiðistjórnun. Ósjaldan andstætt hagsmunum útgerðarmanna sem eru fljótir að krefjast aukinna aflaheimilda þegar eitthvað bjátar á í rekstrinum.

Nokkur atriði

Í fyrsta lagi, í frumvarpi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis er mun fastar kveðið að orði varðandi sjálfbæra þróun og almannahagsmuni en í tillögu auðlindanefndarinnar:

... skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi

Í öðru lagi kemur fram í stjórnarskrártillögu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, að afnot eða hagnýting skuli vera  

... gegn eðlilegu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn.

Auðlindanefndin, á hinn bóginn gerði ráð fyrir í tillögu sinni að 

skal arði af þeim varið til þess að vernda auðlindirnar, rannsaka þær og viðhalda þeim, svo og til hagsældar fyrir þjóðina að öðru leyti. 

Ennfremur, auðlindanefndin skilyrti gjaldtöku með, 

að hún sé tímabundin eða henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Slík heimild nýtur verndar sem óbein eignarréttindi.  

Hér eru hagsmunir útgerðarmanna í fyrirrúmi. Skilyrði auðlindanefndarinnar felur í sér viðurkenningu á eignarrétti þeirra sem munu öðlast eða hafa komist yfir veiðiheimildir.

Tillaga stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar gerir á hinn bóginn ráð fyrir að leyfi til afnota eða nýtingar skuli  „veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignar eða óafturkallanlegs forræðis." 

Hér er mikill munur á og gefur augaleið að þetta orðalag stjórnskipunar og eftirlitsnefndar er útgerðarmönnum mikill þyrnir í augum. Framsóknarflokkurinn er sem fyrr vel upplýstur um þá hagsmuni. 

Í þriðja lagi er í stjórnarskrárfrumvarpinu tíunduð ábyrgð stjórnvalda og þeirra sem nýta auðlindirnar. Auðlindanefndin minnist ekki á að nokkur beri ábyrgð heldur að 

Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds  [fari]  með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar. 

Einstakir nefndarmenn í auðlindanefndinni gerðu þó fyrirvara við álit eða tillögur nefndarinnar. 

Við undirritaðir nefndarmenn viljum taka fram að við getum aðeins stutt veiðigjaldsleið til innheimtu á gjaldi vegna nýtingar fiskistofna, en ekki fyrningarleið, og að meginhluti þess taki mið af svokölluðu kostnaðargjaldi.   

Ari Edwald (þá framkvæmdastjóri Samataka atvinnulífsins), Guðjón Hjörleifsson (f.v. bæjarstjóri í Vestmannaeyjum)

og 

Fyrirvari Ragnars Árnasonar, hagfræðings: 

Ég er andvígur þeim atriðum í annari málsgrein tillögu nefndarinnar að ákvæði í stjórnarskrá, sem lúta að því að náttúruauðlindir megi ekki selja eða láta af hendi til einstaklinga eða lögaðila og þær verði þar með varanlega í ríkisforsjá.

Fyrirvari Ragnars er sennilega aðalmálið fyrir Framsóknar- og Sjálfstæðisflokk. Því jafnvel þótt auðlindanefnd hafi gert ráð fyrir að heimild til afnota eða hagnýtingar njóti verndar sem óbein eignarréttindi getur helsti talsmaður kvótakerfisins í röðum hagfræðinga ekki fellt sig við að auðlindir verði varanlega í ríkisforsjá, þ.e. forsjá þeirra sem eigendur hennar veita umboð til að stjórna landinu. 

Ekki verður annað sagt en að LÍÚ hafi hafi haft mun meiri ítök í auðlindanefndinni sem skilaði áliti sínu fyrir 13 árum en í  Stjórnlagaráði og/ eða stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis.  Í auðlindanefndinni áttu sæti: Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóri, Eiríkur Tómasson, prófessor, Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Lúðvík Bergvinsson, alþingismaður, Margrét Frímannsdóttir, alþingismaður, Guðjón Hjörleifsson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, Ragnar Árnason, prófessor,  Svanfríður Jónasdóttir, alþingismaður, Styrmir Gunnarsson, ritstjóri. Nefndin kaus  Jóhannes Nordal formann nefndarinnar og Eirík Tómasson varaformann. 

Tilboð Framsóknarflokksins á grundvelli álits auðlindanefndar sem í öllum höfuðatriðum tók mið af hagsmunum útgerðarmanna felur ekki í sér neinar sættir.